Setja jarðgöng milli lands og Eyja aftur á dagskrá

9.Júní'22 | 15:45
vestmannaeyjar_ur_fjarlaegd

Vestmannaeyjar. Ljósmynd/TMS

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í dag samhljóða að fela bæjarstjóra og bæjarráði að taka upp samtal við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðgangna milli lands og Eyja. 

Í því felst að afla gagna sem þegar liggja fyrir varðandi rannsóknir á jarðlögum og ljúka þeim. Einnig að uppfæra gögn sem þegar eru til um þjóðhagslegan ávinning af slíkri framkvæmd.

Þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar

Í greinargerð með samþykktinni segir að lengi hafi verið rætt um möguleikann á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja og á síðasta ári var lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um rannsóknir á jarðlögum milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum með tilliti til fýsileika jarðgangna á milli lands og Eyja.

Forkönnun var unnin árið 2000 þar sem ýmsir möguleikar voru skoðaðir, þar á meðal botngöng og flotgöng. Rannsóknir á jarðlögum hafa aftur á móti ekki verið kláraðar til fulls og því mikilvægt að halda verkefninu áfram þannig að úr því verði skorið hvort mögulegt sé að koma á vegtengingu milli lands og Eyja.

Í meistararitgerð sinni frá árinu 2020 gerði Víðir Þorvarðarson kostnaðar- og ábatagreiningu á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja. Þar kemur fram að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar kr.

Ráðist verði í viðeigandi rannsóknir

Ekki þarf að fjölyrða um sparnað sem fælist í gerð jarðgangna en sem dæmi má nefna að rekstur Herjólfs er á ári um 650 milljónir, dýpkun Landeyjahafnar kostar um 400 milljónir á ári og nýtt skip, sem endurnýja þarf á 10-15 ára fresti kostar um 5 milljarða. Þá er ljóst að samfélagslegur kostnaður vegna frátafa í siglingum til Landeyjahafnar er gríðarlegur ár hvert. Aukin heldur er ljóst að mikill kostnaðarauki felst í lagningu sæstrengja á hafsbotni milli lands og eyja, t.d. vatnsleiðslu, rafmagnsleiðslu og ljósleiðara í samanburði við lagningu í göngum.

Á fundi sínum þann 15. apríl 2021 skoraði bæjarstjórn á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að greiða leið þess að ráðist verði í viðeigandi rannsóknir á því hvort jarðgöng séu raunhæfur kostur.

Mikilvægt er að þeirri vinnu verði haldið áfram og möguleikar gangna kannaðir til hlítar, segir í greinargerðinni.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.