Brotin framdi maðurinn í desember í fyrra og janúar á þessu ári, alls í sjö skipti. Atvinnuréttindi hans höfðu runnið út skömmu fyrir jól en hann hélt áfram að sigla ferjunni sem yfirskipstjóri þar til réttindin voru endurnýjuð í janúar.
Á meðan hann var réttindalaus skráði hann aðra sem skipstjóra í lögskráningarkerfi sem Samgöngustofa rekur. Þeir sem hann skráði vissu ekki af því og þrír af fjórum voru ekki í áhöfninni í ferðunum sem skipstjórinn sigldi án réttinda. Í einu tilfelli skráði hann yfirstýrimann sem var við störf í skipinu sem skipstjóra. Skipstjórinn var sendur í leyfi en samið var um starfslok hans í síðasta mánuði.
Tillit tekið til iðrunar og neikvæðra áhrifa á líf hans
Fyrir dómi gekkst maðurinn skýlaust við brotunum sem honum voru gefin að sök. Sagðist hann iðrast gjörða sinna og hann hefði misst vinnuna vegna þeirra. Verjandi óskaði eftir að refsing hans yrði bundin við skilorð.
Héraðsdómur féllst á að skilorðsbinda þrjátíu daga fangelsisdóminn í tvö ár með vísan til þess að hann hefði játað brot sitt og hann hefði ekki sætt refsingu áður.
Við ákvörðun refsingar var litið til iðrunar manns og að hann hefði verið samvinnufús auk þess sem háttsemi hans hefði haft veruleg neikvæð áhrif á líf hans. Brotin hefði þó verið alvarleg og náð yfir þónokkurra daga tímabil og nokkrar ferðir á farþegaskipi, segir í frétt Vísis.