Hildur þiggur 2. sætið

3.Apríl'22 | 10:19
hildur_sol_cr

Hildur Sólveig Sigurðardóttir. Ljósmynd/aðsend

Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerir upp prófkjör Sjálfstæðisflokkins í Vestmannaeyjum á facebook-síðu sinni í dag. Hildur Sólveig sóttist eftir oddvitasætinu, en hlaut kosningu í annað sætið.

Hildur Sólveig segist stolt þiggja 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og hlakka til næstu baráttu framundan með gríðarlega öflugum og breiðum hópi frambjóðenda sem saman mun leggja allt sitt af mörkum til að tryggja sterkasta lýðræðisaflinu í Vestmannaeyjum meirihluta í vor.

Þessu tengt: Eyþór nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Grein Hildar Sólveigar má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Ég hef notað undanfarna viku í að melta niðurstöðu afar vel heppnaðs prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ég kaus með prófkjöri við val á lista þrátt fyrir að vita mætavel að það gæti komið mér á endanum persónulega illa.

Ég hvatti fólk eindregið til þátttöku og er afar ánægð hve vel tókst til að fá fólk úr innra starfi flokksins sem vill taka að sér stærra hlutverk ásamt því að fá til liðs við flokkinn fjöldann allan af nýju, öflugu, metnaðarfullu og hugrökku fólki sem var ekki einungis tilbúið að koma að starfinu heldur henda nafni sínu í persónukjör um sæti á lista, vegferð sem getur tekið á, sérstaklega þegar maður nær ekki markmiðum sínum.

Af þessu fólki öllu er ég ákaflega stolt og óska sérstaklega Eyþóri Harðarsyni keppinaut mínum og vin innilega til hamingju með afgerandi sigur og leiðtogasætið. Keflið afhendi ég honum auðfús eftir drengilega og skemmtilega kosningabaráttu.

Eftir að hafa leitt háværan minnihluta sem hefur verið óþreytandi við málefnalega gagnrýni á m.a. óskynsamlegar fjárhagslegar ákvarðanir núverandi meirihluta og haldið uppi kröftugri hagsmunagæslu siðasta kjörtímabil náði ég ekki mínum persónulegu markmiðum frekar en þónokkrir aðrir frambjóðendur sem gerðu sér vonir og væntingar um betra hlutskipti. Það getur verið svekkjandi og er eðlilegt að keppnisskapið og metnaður hafi áhrif á tilfinningar og er óhjákvæmilegur fylgifiskur prófkjara.

Það sem ég kýs að taka með mér að prófkjöri loknu er að hátt í þúsund Vestmannaeyingar virkjuðu lýðræðið, komu í Ásgarð og aðstoðuðu Sjálfstæðisflokkinn við að stilla upp sigurstranglegum 8 manna lista. Allir 8 fengu bindandi kosningu í sitt sæti. 70% kjósenda settu nafn mitt á þann lista og endaði ég í 2. sæti. Fyrir það er ég ákaflega þakklát eftir 12 ára stjórnmálaþátttöku og er allt annað en sjálfsagt. Eins er ég þakklát fjölskyldu og vinum sem studdu mig með ráðum og dáðum í aðdraganda prófkjörsins og ég fæ aldrei fullþakkað, þið vitið hver þið eruð. Eins þakka ég innilega þeim fjölmörgu sem sent hafa mér skilaboð, hringt eða heimsótt síðustu daga.

Èg mun stolt þiggja 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og hlakka til næstu baráttu framundan með gríðarlega öflugum og breiðum hópi frambjóðenda sem saman mun leggja allt sitt af mörkum til að tryggja sterkasta lýðræðisaflinu í Vestmannaeyjum meirihluta í vor.”


 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).