Eyjamær í Danmörku hóf söfnun fyrir fólkið í Úkraínu

18.Mars'22 | 12:19
unnamed (19)

Trukkur fylltur. Ljósmyndir/aðsendar

Ásthildur Tinna Ómarsdóttir Eskildsen bjó í Vestmannaeyjum frá 8 ára aldri og fram á fullorðinsár en nú býr hún í Danmörku og þar hefur hún búið í yfir 20 ár.

Hún hefur komið sér vel fyrir í Danmörku. Er gift Paw Eskildsen og saman eiga þau dótturina Andreu Ásthildi, sem er 2 ára. Tinna er nemi, en hefur störf hjá innkaupadeild danska hersins í sumar.

Byrjaði með því að ég fann svo til með fólkinu sem upplifir þessar hörmungar

Tinna hefur undanfarna daga helgað lífi sínu söfnun sem hún setti af stað til stuðnings fólkinu í Úkraínu. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Tinnu í gær, og var fyrsta spurningin um hvernig þetta hafi farið af stað hjá henni?

“Ætli þetta hafi ekki byrjað með því að ég fann svo til með fólkinu sem upplifir þessar hörmungar sem eru að gerast í Úkraínu.

Ég frétti af flutningabíl sem væri á leiðinni til Úkraínu með hjálpargögn og ákvað að ég yrði að leggja mitt af mörkum. Ég fann föt af mér og dóttur minni hérna heima og ákvað að fara með í söfnunina. Mig langaði að gera eitthvað örlítið meira og kaupa matvörur til að senda líka. Ég sagði fjölskyldunni minni á Íslandi frá þessu og þau vildu endilega vera með og lögðu inn á mig pening.” segir Tinna og bætir við:

“Systir mín bað mig að bíða aðeins með að fara að versla og vildi athuga hvort fleiri vildu vera með. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og allt í einu fóru peningar að tikka inn. Á ég mestar þakkir þeim sem eru inni á Kvenfólk í eyjum og svo á síðunni Skagstrendingar, en þangað á ég líka rætur að rekja.”

Rak upp stór augu þegar kona frá Íslandi kom færandi hendi með fullt af nauðsynjavörum

Hún ákvað strax að vera bara opinská með þetta allt saman og gerði nokkur myndbönd og tók myndir af því sem hún var að gera og það hafði góð áhrif.

“Ég tek ekkert fyrir þetta sjálf, legg út bensín kostnaði og tíma í þetta og finnst dásamlegt að gera gert eitthvað, þó það sé bara pínulítið. Ég hugsaði með mér að gera sem mest úr innkomunni og fór nokkrar ferðir í verslanir og keypti allskonar, sem ég vissi að myndi ekki skemmast á leiðinni. Má þar nefna dósamat, núðlur, kex, bleiur, dömubindi og margt annað sem ég taldi að gæti komið að góðum notum fyrir þá sem lítið hafa. Ég fyllti bæði bílinn minn og kerruna nokkrum sinnum, verslaði í apóteki og keyrði með í Vodskov þar sem tekið var á móti í söfnunina. 

Tommy, sá sem stendur fyrir þessu rak upp stór augu þegar kona frá Íslandi kom færandi hendi með fullt af nauðsynjavörum fyrir aumingja fólkið í Úkraínu. Hann sagði mér allskonar sögur af þessum hörmungum, sem fékk mig til að langa að gera aðeins meira. Hann sagði mér að það væri nauðsynlegt að fara með vatn af því einhver svæði eru án vatns. Við náðum að kaupa sex bretti fyrir síðustu ferð og fengum tilboð um ágætis verð í Þýskalandi. Þetta hefði aldrei verið hægt nema bara út af góðu fólki sem vildi aðstoða mig í þessu.” segir Tinna.

Notar ferðirnar til að koma hjálpargögnum inn í landið

Hún segir að Tommy eigi fyrirtæki sem flytur inn frá Úkraínu timbur og timburpillur sem danir nota í eldivið.

“Hann hefur því leyfi til þess að fara með flutningabíla inn og úr landi. Lítið er að gera hjá honum núna, en það er bara út af ástandinu. Hann ákvað því af sinni einskærri góðmennsku, að leggja sitt af mörkum og notar ferðirnar til að koma inn í landið hjálpargögnum og hann telur það mikla nauðsyn.”

Lagði sjálfur út fyrir 33 brettum af vatni

Tinna segir að núna sé staðan sú að Tommy er kominn í samstarf við fyrirtæki í Danmörku og fær vatn á góðu verði.

„Hann er búinn að kaupa 33 bretti af vatni, sem hann lagði sjálfur út fyrir. Ég gat aðstoðað hann með hluta af því, en sá peningur er frá góðu fólki á Íslandi sem vildi leggja þessu málefni lið. Það væri svo frábært ef hægt væri að aðstoða hann meira.” 

Hver þúsund kall skiptir máli

„Næsta ferð frá Tommy er frá Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Hann var beðinn um að fara með hjálpargögn og þar eru einna helst lyf og aðrar nauðsynjar sem hann kemur í góðar hendur. Önnur ferð verður svo farin í næstu viku og þá mun hann fara með meira vatn, fatnað sem komst ekki með í síðustu ferð og einnig matvörur.

Ég vil gjarnan aðstoða hann meira og biðla til ykkar, kæru vinir að taka þátt í þessu með mér. Hér er bankanúmerið mitt og mun hver króna vera lögð í þetta verkefni:  0113-26-2481 kt. 240581-3029.

Hver þúsund kall skiptir máli!” segir hún.

Þakkir

Tinna segir að nú hafi safnast tæp 1,2 milljón og öll sú upphæð hefur komið frá Íslandi og eiga Vestmanneyingar bróðurpartinn af því. „Eigiði hjartans þakkir fyrir. Þetta hefur tekið mig nokkrar klukkustundir á dag á nokkrum dögum, en þetta hefði ekki verið hægt án þess að fá styrki frá yndislegu fólki. Það sýnir mér hvað góð samstaða og gott fólk getur gert góða hluti. Enn og aftur þakka ég fyrir allt saman.”

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).