Georg Eiður Arnarson skrifar:

Verbúðin

27.Febrúar'22 | 21:30
Verbud13201

Tveir af aðalleikurum Verbúðarinnar. Skjáskot/Verbúðin

Þættirnir Verbúðin vöktu mikla athygli í vetur, ekki hvað síst hjá okkur sem vorum ung á þeim tíma og upplifðum stemninguna. 

Sjálfur byrjaði ég einmitt á sjó á togara 1985/86 og upplifði ýmislegt þar, sem hagsmunaaðilar í sjávarútveginum í dag vilja sem minnst tala um og upplifði ég þar á meðal gríðarlegt brottkast, eitthvað sem gerði það að verkum að ég hef verið á móti kvótakerfinu frá þeim tíma. 

Ekki batnaði það þegar maður var farinn að vinna í frystihúsi. Man m.a. eftir því á meðan einhver netaútgerð var af einhverju viti hér í Eyjum ennþá, þá var stundum raðað þorski í eitt hornið í kælinum og ufsa í næsta horn en í miðjuna var settur ufsinn af bátunum sem voru búnir með þorskkvótann.

Einnig var ég vitni af því, þegar þekktur togaraskipstjóri hér í bæ var "látinn fara" þegar hann kom með allt of smáan fisk í land. 

En margt hefur nú breyst frá þessum tíma, sumt til betri vegar en allt of margt, eins og t.d. kvótakerfið sjálft, til mun verri vegar, en nóg um það.

En já, verbúðartíminn. Þarna kynntist maður mörgum skemmtilegum karakterum og já, það var oft mikið fjör á verbúðunum og oft miklu skemmtilegra heldur en að fara á skemmtistað. 

Frank og Hafsteinn

Við vorum að vinna saman í flatningu m.a. í móttökunni ég og skólabróðir minn, Hlynur Stefáns, þetta hefur verið 80/81 og lentum við þar m.a. í því að vinna með mjög sérstökum karakterum, Frank og Hafsteini. Frank var svona 2 metrar á hæð og með alveg ægilegar skögultennur, beint upp í loftið sem gerði það að verkum að menn voru fljótir að byrja að kalla hann Frankenstein, en Frank þoldi ekki nafnið og var duglegur at taka í lurginn á okkur strákunum þegar við kölluðum hann þetta, en Hlynur hafði voðalega gaman af því að stríða honum og eitt skiptið elti Frank Hlyn alveg inn á innsta salerni við kaffistofuna hjá okkur.

Hlynur fór inn og læsti að sér, en Frank, sem var nú alveg ákveðin í því að nú yrði tekið í strákinn, náði sér í stól og sat við dyrnar. Það sem hann sá hins vegar ekki, er að það var loftop á milli salernanna, þannig að Hlynur fór bara upp á og skreið yfir eftir loftopinu og niður hinum megin, kom svo fram í sal og við héldum áfram að vinna. Eftir nokkra stund kom verkstjórinn og spurði hvar Frank væri? Við vísuðum honum að sjálfsögðu inn á klósett og fórum á eftir honum og þar sat Frank ennþá og bankaði létt á dyrnar, og síðasta setning sem við heyrðum var "Farðu nú að koma fram, Hlynur minn, ég ætla bara að rassskella þig smá" Varð hann ansi skömmustulegur þegar hann sá að Hlynur hafði leikið á hann. 

En ef Frank var svolítið sérstakur, þá var Hafsteinn eiginlega hálfgerður furðufugl. Eftir að hann fékk útborgað í fyrsta skipti fór hann og keypti sér forláta Polaroid myndavél og fór að mynda í gríð og erg út um allt og var oft að sýna okkur myndir sem voru eiginlega af engu, en einn daginn kom hann rosalega laumulegur til okkar og sagði "Nú er ég sko með flottar myndir til að sýna ykkur" en það tók okkur smá stund að fatta það, að allar myndirnar voru af jafnaldranum.

Þegar leið á vertíðina, þá vildi enginn vera með þeim félögum í herbergi á verbúðunum, þannig að þeir enduðu saman í herbergi og í vertíðarlok fóru þeir saman frá Eyjum. 

En já, sögurnar af verbúðunum voru oft margar ansi skrautlegar og margar hreinlega ekki birtingarhæfar. 

Ein vakti þó mikla athygli, en þannig var það eina vertíðina að ein áhöfn af netabát var saman í herbergi. Nokkru eftir að vertíðin byrjaði eignaðist einn í herberginu kærustu, sem mig minnir að hafi verið dönsk, en einn daginn þá fór báturinn ekki á sjó og skýringin var gefin sú, að það hefði komið upp lekandi í herberginu og ekki bara hjá kærastanum, heldur hjá öllum í áhöfninni, svo eitthvað hefur gengið á í herberginu. 

En já, maður átti sjálfur margar skemmtilega helgina á verbúðunum og kom þó nokkrum sinnum fyrir að maður gisti, þó svo að maður ætti heima hér i bæ.

Að lokum þetta, vonandi kemur framhald af þessum Verbúðar þáttum, þó svo að nokkuð sé orðið síðan að verbúðum, hér a.m.k. var lokað, þá er ansi mikið eftir í sögunni varðandi kvótakerfið og alla spillinguna sem fylgir því og mun fylgja því áfram á meðan það lifir. 

Góðu fréttirnar eru þó þær að kvótakerfið verður ekki eilíft og enginn vafi í mínum huga um það að því verði breytt fyrr eða síðar.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).