Georg Eiður Arnarson skrifar:

2021 gert upp

8.Janúar'22 | 22:25
goggi

Greinarhöfundur á bryggjunni í Eyjum.

Það er svolítið erfitt að vera bjartsýnn um þetta leytið, þegar allt er á kafi í Covid og hver stormurinn á fætur öðrum gengur yfir landið, en fyrir mér er þetta svolítið einfalt. 

Ég hef oft verið spurður að því í gegnum árin, hvort ég sé ekki svekktur þegar ég kem í land úr lélegum róðri, en ég hef alltaf svarað því þannig að svo sé ekki vegna þess að það gerir stóru róðrana og þegar betur gengur bara svo miklu skemmtilegra. Klárlega munum við sjá betri tíð með hækkandi sól og einhvern tímann hljótum við að losna við þetta Covid.

Pólitíkin

Já, ég fór í framboð fyrir Flokk fólksins og var í raun og veru alls ekki langt frá því að vera kominn á nýjan vinnustað á hinu háa Alþingi íslendinga og það hefði jú bara verið gaman, en að öðru leyti fóru kosningarnar að mestu leyti eins og ég bjóst við gagnvart mér og mínum flokki, en ég neyta því ekki að það voru töluverð vonbrigði að meirihlutinn skyldi lifa áfram. 

Lundinn

Enn eitt árið fengum við mikið af bæjarpysju og útlitið framundan því ótrúlega gott. Ég fór ásamt nokkrum félögum mínum til Grímseyjar 7unda árið í röð og áttum þar virkilega skemmtilega helgi og vonandi kemst maður þangað aftur síðar.

Útgerðin

Já, ég seldi trilluna mína í vor undum manni úr Þorlákshöfn, sem reyndar kom aftur hingað í haust, en ég hafði lofað honum að kenna honum á línuveiðar og fórum við nokkrar ferðir, en núna bíður hann bara eftir veðri til að komast með bátinn aftur heim til sín og er ég því enn og aftur hættur í útgerð, en trillukarl verð ég samt alltaf, hvort sem ég á bát eða ekki.

Kvótinn

Fyrir tæpu ári síðan og svo aftur þegar ég seldi bátinn í vor, fjallaði ég í nokkrum greinum um kvótakerfið og þá sérstaklega hversu skelfilega illa hafði tekist til, sem átti að vera lykilatriðið með þetta kvótakerfi þ.e.a.s. að byggja upp fiskistofnana og einnig, hvernig margar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum og áratugum hafa gert útgerð sífellt erfiðari og erfiðari fyrir einstaklinga og minni útgerðir. Það er ljóst að kvótakerfi, sem gengur út á það að aflaheimildum sé úthlutað í kílóum og tonnum hefur einfaldlega það margar brotalamir að kvótakerfið mun augljóslega aldrei skila okkur þeirri aukningu sem lofað var. 

Einnig hefur komið í ljós að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við land tækifæranna leyfði fyrir nokkrum árum síðan stækkun smábáta upp að 15 metrum, með þeim afleiðingum að flestar stærri útgerðir á landinu hafa nú fjárfest í slíkum bátum og hafi síðan um leið hafið stórfelld uppkaup á aflaheimildum smábáta með þeim afleiðingum að smábátum sem róa á ársgrundvelli fækkar stöðugt, en í dag eru þessir nýju smábátar oftast kallaðir þrælakisturnar enda er þeim róið í sumum tilvikum jafnvel stífar en stærstu togurum.

Hrunið

Að undanförnu hef ég lesið töluvert af greinum eftir hina ýmsu verkaliðaleiðtoga, sem og eftir þingmann okkar í Flokki fólksins í suðurkjördæmi, þar sem varað er við því að hér séu að myndast aðstæður og voru rétt fyrir hrun 2008 þ.e.a.s. hlutabréf seljast eins og heitar lummur á sífellt hækkandi verðum. Bankarnir eru smekk fullir af peningum, sem reyndar okkur almenningi stendur ekki til boða nema á einhverjum okur vöxtum, en mig langar aðeins að bæta við þetta. 

Í aðdragandanum að hruninu 2008 seldust aflaheimildir á verðum sem menn höfðu aldrei séð áður og voru t.d. 2 síðustu sölurnar rétt fyrir hrun á tæpar 4 milljónir tonnið. Í vor var krókaþorskur seldur á 2,2 milljónir tonnið og eftir niðurskurð á aflaheimildum í þorski, þá hefði maður nú haldið að verðið myndi nú lækka líka, en svo er nú aldeilis ekki. Efir að ljóst varð að hér yrði óbreytt ríkisstjórn hafa aflaheimildir rokið upp í verðum og miðað við nýjustu fréttir, þá er varanlegur þorskkvóti í dag kominn vel á fjórðu milljón og auk þess, þá hafa uppkaupin hjá þeim stóru á krókaaflaheimildum gert það að verkum að kvótaleiga á bæði þorski og ýsu í dag er 330 kr kg og enn er þetta þannig, að þeir sem leigja frá sér borga engin leigugjöld.

Árið hjá mér var annars bara ágætt, komst m.a. loksins vestur á firði og náði að keyra djúpið og alla þá vegi sem þar er hægt að fara og það er nú þannig að á landinu okkar að það er endalaust hægt að finna eitthvað fallegt til að skoða.

Framhaldið

Eins og ég kem inn á í upphafi greinarinnar, þá er ég þokkalega bjartsýnn á árið, þó svo að sannarlega séu blikur á lofti. Það verður ofboðslega spennandi að sjá öll úrvalsdeildarlið ÍBV í efstu deild í sumar (vonandi hætta menn þessu bulli um að setja gervigras á Hásteinsvöll) og ef heilsan leyfir ætla ég svo sannarlega að kíkja í egg í vor og vonandi aðeins í lunda seinna í sumar, tel mjög líklegt líka að ég eigi amk eftir að fara með stöngina út á sjó, en framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, vonandi verður árið betra og skemmtilegra heldur en þessi síðustu 2 ár. 

Óska öllum gleðilegs árs.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).