Eftir Hildi Sólveigu Sigurðardóttur

Árið 2021 var gjöfult

Við áramót lítum við gjarnan yfir farinn veg og gerum upp árið. Eyjar.net fékk venju samkvæmt oddvita framboðana hér í Eyjum til að gera upp árið

31.Desember'21 | 10:30
hildur_sol_cr

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Árið 2021 kveð ég fyrst og fremst með þakklæti en árið var uppfullt af ýmsum áskorunum, nýjum upplifunum og lífsfögnuði. Fljótega í upphafi árs tilkynntum við Sindri að lengi væri von á einum þegar ég upplifði í þriðja skiptið þá mögnuðu lífsreynslu sem meðganga er.

Eldgosið í Geldingardal mikilvæg áminning

Fjölskyldan nýtti blíðviðrisdaga í upphafi árs til útivistar og við skelltum okkur líkt og meginþorri landsmanna í lok mars að skoða eldgosið í Geldingadal sem var óviðjafnanleg upplifun. Þegar maður heyrir frásagnir Eyjamanna af Heimaeyjargosinu er oft minnst á drunurnar, hitann og brennisteinslyktina og því forvitnilegt að upplifa þessa þætti sjálf og sjá náttúruna skapast fyrir augunum. Að upplifa eldgos var mjög auðmýkjandi, það setti í samhengi hversu smá við erum gagnvart náttúruöflunum, en jafnframt mikilvæg áminning um hversu litlu munaði fyrir okkar bæjarfélag og hversu þakklát við sem byggjum samfélagið í dag getum verið, ekki bara æðri máttarvöldum heldur þrautseigju þeirra sem sneru aftur, byggðu samfélagið upp og höfðu trú á Vestmannaeyjum. Það er ekki síst þessum hópi að þakka hversu blómlegt samfélagið okkar er í dag og að Vestmannaeyjar eru raunhæfur og eftirsóknarverður búsetukostur fyrir ungt fólk sem tekur við keflinu og heldur áfram uppbyggingunni.

Kveðjustundir

Á árinu kvöddum við afa minn, Sigurð Jóhannsson og ömmu hans Sindra, Eygló Óskarsdóttur. Blessunarlega gat nánasta fjölskylda setið jarðarfarirnar þrátt fyrir heimsfaraldur og fylgt þeim sem skilja eftir sig hlýjar minningar síðasta spölinn. 

Ferðalög innanlands á nýjum rafmagnsbíl

Árið í ár var það fyrsta í langan tíma sem ég stíg ekki út fyrir landsteinana en ferðaðist þeim mun meira innanlands og fór t.d. í fyrsta skiptið hringinn í kringum landið með fjölskyldunni. Við keyptum okkur nýjan bíl sem gengur alfarið fyrir rafmagni á föstudegi og hófum hringferðina daginn eftir blaut á bakvið eyrun hvað rafmagnsbíla varðar. Það kom þó ekki að sök og gekk ferðalagið vel þar sem var stoppað víða á leiðinni, m.a. í Hvalfirði í brúðkaupi, á Siglufirði í frábæru sextugsafmæli, á Akureyri á N1 mótinu, á Egilstöðum og fjölmörgum spennandi áningastöðum og vorum við heppin með veður allan tímann. Við skelltum okkur svo í dagsferð á Klaustur þegar veðurblíðan þar var á borð við bestu sólarlönd en þokan var að stríða okkur hér í Eyjum. 

Vonbrigði með Þjóðhátíð

Ég tók þátt í Puffin run og Vestmannaeyjahlaupinu og merkilegt að aftur skyldi vera hægt að halda báða viðburðina enda skipuleggjendur orðnir sérfræðingar í sóttvörnum fjölmennra hlaupaviðburða. Slíkir viðburðir skipta samfélagið okkar miklu og því veruleg vonbrigði að þjóðhátíðin hafi verið blásin af annað árið í röð, með afar skömmum fyrirvara. Ég skrifaði grein þar sem mér blöskraði umræðan um þjóðhátíðina og hvatti til hófstilltrar umræðu og hófstilltra takmarkana og uppskar afar sterk viðbrögð nettrölla. Ég ákvað að senda nokkrum þeirra athugasemdir sínar til baka með kurteisu bréfi og fékk í kjölfarið fjórar einlægar afsökunarbeiðnir, fjórum meira en ég átti von á. 

Fögnuðum nýjum fjölskyldumeðlim

Á frídegi verslunarmanna, á settum degi 2. ágúst, fæddist okkur heilbrigð 13 marka stúlka á fæðingarstofunni í Vestmannaeyjum. Það hafði ríkt mikil tilhlökkun í fjölskyldunni og gleðin og þakklætið yfir því hve það gekk allt vel fyrir sig og hvað sú stutta braggast vel er ekki hægt að færa í orð. Stúlkan fékk nafnið Drífa við skírnina en það er í höfuðið á ömmunni, mömmu minni, sem tók á móti henni. 

Hreyfingin mikilvæg í heimsfaraldri

Í atvinnulífinu hefur verið nóg að snúast á árinu, ég hef þó verið í fæðingarorlofi í að verða hálft ár frá sjúkraþjálfuninni sem ég sakna töluvert og þá helst skjólstæðinganna minna, þó ég viti að þeir séu í frábærum höndum kollega minna. Ég skrifaði nokkrar greinar um mikilvægi hreyfingar og hef opinberlega viðrað óánægju mína varðandi sóttvarnartakmarkanir sem voru á heilsuræktarstöðvum enda er hreyfing ein besta forvörnin gagnvart líkamlegum og andlegum sjúkdómum. 

Hallarekstur í ársreikningum sveitarfélagsins

Bæjarfulltrúa- og félagsstörfunum í Sjálfstæðisflokknum hef ég sinnt samhliða fæðingarorlofinu. Þar er aldrei lognmolla, ársreikningar Vestmannaeyjabæjar voru samþykktir í vor og þeir fyrstu sem ég hef þurft að samþykkja með hallarekstri í sveitarsjóð þrátt fyrir töluvert meiri tekjur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sjálfstæðismenn hafa verið óþreytandi á kjörtímabilinu að benda á þensluna sem hefur einkennt rekstur sveitarfélagsins á síðustu árum og höfum við reynt að berjast á móti henni þó við höfum ekki alltaf haft erindi sem erfiði, nú síðast við fjárhagsáætlunargerð þegar við reyndum að afstýra fjölgun bæjarfulltrúa sem mun þýða aukinn kostnað fyrir sveitarfélagið. Samstaða hefur þó verið um mörg framfaraskref, ánægjulegt er að búið sé að taka í notkun nýjar þjónustuíbúðir fyrir fatlaða sem meirihluti Sjálfstæðismanna setti af stað undir lok síðasta kjörtímabils, ljósleiðaravæðingin er mikilvægt skref og ánægjulegt að viðbygging við Hamarskóla sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðsluráði áttu frumkvæði að er komið í farveg ásamt fleiri góðum málum. Áfram þarf að vinna að bættum samgöngum, við þurfum að komast aftur í amk. 7 ferðir á dag með Herjólfi, flugið þarf að komast aftur í það horf að það sé raunhæfur kostur fyrir bæjarbúa og ljúka þarf rannsóknum vegna jarðgangna. 

Líf í starfi Sjálfstæðisflokksins

Árið hefur litast af miklu lífi í Sjálfstæðisflokknum, fyrst í prófkjöri fyrir Alþingiskosningar þar sem okkar maður, Jarl Sigurgeirsson var áberandi og stóð sig vel og svo auðvitað Alþingiskosningarnar sjálfar í kjölfarið. Blaðaútgáfan hefur staðið fyrir sínu bæði á Fylki og Stofnum, reglulegir opnir laugardagsfundir um hin ýmsu málefni með fjölbreyttum gestum og félagsfundir sem hafa þó litast af ástandi faraldursins eins og fjölmargur annar félagsskapur.

Í hnotskurn hefur árið liðið hratt, enda verkefnin næg, góðar stundir með fjölskyldu, vinum og samstarfsfélögum en óskandi að sú erfiða staða sem við stöndum frammi fyrir nú vegna faraldursins fari að marka endalok hans, bóluefnin tryggðu okkur ekki til fulls það frelsi sem við öll vonuðumst eftir. Faraldrinum hafa samt sem áður fylgt tækifæri sem munu nýtast Vestmannaeyjum vel til framtíðar á borð við aukin tækifæri í fjarnámi, fjarvinnu og margvíslegri fjarþjónustu. 

Að endingu vil ég óska bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og sendi sérstakar kveðjur til þeirra sem þurfa að upplifa hátíðina í sóttkví eða einangrun fjarri ástvinum, með einlægri von um bjartari og frjálsari tíma framundan. 

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

 

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.