Uppfærð frétt

Flug hefst að nýju til Vestmannaeyja

21.Desember'21 | 14:52
ernir_farthegar_19

Vél Ernis á Vestmannaeyjaflugvelli. Ljósmynd/TMS

Flugfélagið Ernir hefur gert samkomulag við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um flug til Eyja tvisvar sinnum í viku, mánudaga og föstudaga.

Flug í kringum hátíðirnar verður með aðeins öðrum hætti en þegar föst áætlun byrjar í upphafi nýs árs og er fólki bent á áætlun og upplýsingar um flug á vefsíðu félagsins ernir.is, en fyrsta flug verður á Þorláksmessu, segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar segir að þetta samkomulag sé gert í ljósi þess að eftirspurn í innanlandsflugi hefur degist mikið saman í Covid-19 faraldrinum og ljóst að flug til Eyja mun ekki hefjast, að óbreyttu, að nýju á markaðslegum forsendum. Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum.

Fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að þjónusta svæðið aftur

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar . Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Félagið hlakkar mikið til að hefja sig til flugs á Eyjar og vonast eftir að sem flestir geti nýtt sér þjónustuna þó um lágmarksflug sé að ræða tímabundið, segir í tilkynningunni.

Íbúar Vestmannaeyja munu geta nýtt sér Loftbrú sem veitir 40% afslátt á flugfargjöldum

Í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu segir að ráðuneytið hafi samið við Flugfélagið Erni um lágmarksflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja til 1. júní á næsta ári. Farnar verða að tvær ferðir í viku, fram og til baka, á mánudögum og föstudögum. Fyrsta ferðin verður þó á fimmtudaginn kemur, á Þorláksmessu.

Áætlunarflug á markaðslegum forsendum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja lagðist af í haust vegna minni eftirspurnar sem rekja mátti til Covid-19 faraldursins. Gerð var verðkönnun hjá þremur flugrekendum en Flugfélagið Ernir átti lægsta boðið. Íbúar Vestmannaeyja munu geta nýtt sér Loftbrú sem veitir 40% afslátt á flugfargjöldum.

Hægt verður að framlengja samninginn við Flugfélagið Erni um tvær vikur í senn ef þörf krefur. Sömuleiðis má fella samninginn niður án fyrirvara hefjist áætlunarflug á markaðslegum forsendum að nýju innan gildistíma hans. Allar tekjur Flugfélagsins Ernis af miðasölu og fraktflutningum á flugleiðinni munu lækka greiðslur vegna samningsins.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.