Jólapistill forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

19.Desember'21 | 15:19
heilbr_sud_2021

Starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

„Brátt verða liðin tvö ár frá því að við hófum baráttuna við COVID-19 með tilheyrandi ráðstöfunum, en það er mikilvægt að við töpum ekki gleðinni og höldum áfram að þroskast og dafna. 

Á tíma jóla og friðar er gott að vera minntur á mikilvægi samverunnar og að njóta hennar með þeim sem okkur eru kær.” Svona hefst pistill Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem hún ritar inn á vef stofnunarinnar í dag. Enn fremur segir:

„Við finnum svo sannarlega fyrir auknu álagi í starfi og þá einkum í tengslum við COVID-19, en ekki síður vegna mikillar fólksfjölgunar á okkar þjónustusvæði. Starfsemin fer því ört vaxandi og verkefnin aukast jafnt og þétt. Starfsfólk HSU er nú komið yfir 600 sem gerir stofnunina að stórum og umfangsmiklum vinnustað. Þessi þróun er jákvæð og mikilvægt að við eflum heilbrigðisþjónustuna á Suðurlandi í takt við þarfir samfélagsins.

Mannauður hverrar stofnunar er andlit hennar og því er afar mikilvægt að huga að vellíðan og starfsánægju á vinnustað. Rannsóknir tengdar starfsánægju sýna að fylgni er á milli starfsánægju og afkastagetu, gæðum í starfi og árangri starfseiningar. Það er því eftir miklu að sækjast að byggja upp góðan og öflugan vinnustað þar sem starfsmönnum líður vel í vinnunni. Stytting vinnuvikunnar sem kom til á árinu hjá mörgum starfsstéttum verður vonandi til þess að bæta aðstæður hjá starfsmönnum og styðja við meira jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Mikilvægt skref hefur náðst í jafnréttismálum stofnunarinnar en HSU hlut jafnlaunavottun árið 2020 og viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í ár. Þessari vinnu er hvergi lokið og höldum við ótrauð áfram á þessari braut með það að markmiði að gera gott starf enn betra.

Það er mikilvægt að horfa björtum augum til framtíðar og vera með skýra framtíðarsýn en HSU hefur alla burði til að vera framsækin stofnun sem tileinkar sér nýjungar í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.  Á síðustu tveimur árum höfum við unnið markvist að heildar stefnumótun innan HSU og í fyrra lögðum við fram framtíðarstefnu til ársins 2025.  Markmið okkar er m.a. að vera með sterka liðsheild meðal starfsmanna, auka starfsánægju og bæta þjónustuna sem við veitum. Til að styðja við okkar öfluga stjórnendahóp höfum við lagt áherslu á leiðtogaþjálfun allra stjórnenda HSU með það að leiðarljósi að styðja við stjórnendur og byggja upp öflugt og samhent teymi.

Um þessar mundir erum við að klára starfsáætlun fyrir árið 2022 og á sama tíma erum við að gera upp starfsárið sem nú er að líða.  Margt hefur áunnist á árinu og má þar fyrst nefna  jákvæða þróun í fjarheilbrigðisþjónustu innan HSU. Sú tækni er nú notuð í auknu mæli til að styðja við þjónustuna á minni heilsugæslustöðvum HSU. Á árinu var einnig farið af stað með fjaraugnlækningar í Vestmannaeyjum, en þessi þjónusta er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Við sækjumst eftir því að efla námstækifæri innan HSU og því er það mér sönn ánægja að greina frá því að nú hefur okkur borist formleg viðurkenning á hæfi stofnunarinnar til að bjóða upp á sérnám í heimilislækningum, en nú geta sérnámslæknar valið að taka tímabil á lyflækningadeildinni á Selfossi og tilheyrandi göngudeild, ásamt því að vinnu á bráða- og slysamóttökunni. Læknar sem hingað koma munu því fást við fjölbreytt verkefni í sínu sérgreinanámi. Við viljum halda áfram á þessari braut og fá til okkar nemendur úr öllum fagstéttum heilbrigðisgeirans.

Mönnunarmál er verkefni sem stöðugt er í gangi og unnið hefur verið markvisst að því að bæta mönnun á starfseiningum innan HSU eins og svigrúm leyfir. Þá hefur einnig verið horft til þess að auka teymisvinnu og skilvirkni, en þar eru sóknarfæri sem við eigum klárlega að nýta okkur betur.  Við erum líka stöðugt að leita leiða að úrbótum og einföldun á rafrænum verkferlum til að auðvelda okkur starfið. Á sama tíma sem við verðum að tryggja gæði og öryggi í okkar þjónustu.

Á árinu tókum við í notkun hugbúnað sem hjálpar okkur að halda utan um tölulegar upplýsingar um starfsemi okkar og þjónustu. Kerfið býður upp skýrslur og mælaborð á aðgengilegu formi sem einfaldar okkur yfirsýnina á starfseminni.

Það er gaman að segja frá því að við horfum fram á spennandi tíma í öldrunarþjónustu, en við tókum við rekstri á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum á árinu og í byrjun næsta árs hefjum við rekstur á nýju hjúkrunarheimili í Árborg. Við sjáum gríðarleg tækifæri í heildrænni þjónustu við eldri borgara á Suðurlandi og erum um þessar mundir að vinna að stefnumótun í þeim málaflokki.

Á árinu var hafist handa við endurnýjun og uppbyggingu á nýjum tækjabúnaði. Þá má fyrst nefna endurnýjun á rannsóknarbúnaði fyrir rannsóknarstofurnar á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Keypt var nýtt fullkomið röntgenmyndgreiningartæki til Vestmannaeyja, ásamt því að endurnýja myndgreiningarbúnaðinn á Höfn. Blóðgastæki var sett upp á bráðamóttökuna á Selfossi, en tækið mun bæta aðgengi að niðurstöðum rannsókna utan dagvinnutíma. Talsverð endurnýjun var gerð á ómtækjum stofnunarinnar og var m.a. keypt nýtt hjartaómtæki í Vestmannaeyjum, nýtt fósturgreiningartæki á Selfossi, nýtt ómtæki á Höfn og væntanlegt er nýtt ómtæki fyrir bráðamóttökuna á Selfossi. Þessi tækjabúnaður er allur mjög fullkominn og mun bæta rannsóknaröryggi til muna.

HSU hefur tekið þátt í að mæta markmiðum stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum. Rafhleðslustöðvar hafa nú verið settar upp á Selfossi og verið er að undirbúa uppsetningu slíkra stöðva á fleirum starfsstöðvum HSU. Með tímanum munu rafmagnsbílar bætast við í bílaflota HSU.

Gott er að finna þann velvilja sem HSU nýtur í samfélaginu og ég afar þakklát öllum þeim fjölmörgum félögum, fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa lagt okkur lið. Ég sendi þeim mínar bestu þakkir og virðingu.

Ég horfi full bjartsýnar og með tilhlökkun á komandi tíma sem ég vænti að muni einkennast af jákvæðri uppbyggingu á starfsemi HSU sem ég trúi að verði farsæl með öflugu starfsfólki HSU í fararbroddi.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki HSU fyrir einstaklega gott starf á árinu sem er að líða jafnframt þakka ég öll þeim sem stutt hafa við starfsemina fyrir gott starf.

 

Með hátíðarkveðju,

Díana Óskarsdóttir, forstjóri”.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).