Leggja til að prestssetrin í Eyjum verði seld

20.Október'21 | 14:50
prestsetrid_holagotu

Prestssetrið á Hólagötu. Ljósmyndir/TMS

Kirkjuþing verður haldið dagana 23. - 27. október. Fyrir þinginu liggur skýrsla um fasteignir þjóðkirkjunnar, þar sem lagt er til af starfshópi að seldar verði átta jarðir og sextán aðrar fast­eign­ir í eigu þjóðkirkj­unn­ar.

Á meðal fasteigna sem lagt er til að seldar verði eru bæði prestssetrin í Vestmannaeyjum. Annars vegar Hólagata 42 og hins vegar Smáragata 6. Er tillaga starfshópsins liður í fjárhagslegri endurskipulagningu kirkjunnar.

Óttast að það fæli umsækjendur framtíðarinnar frá því að sækja um

Prestarnir í Eyjum sendu inn umsögn til kirkjuþings þar sem tillögunni er mótmælt. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur segir í samtali við Eyjar.net að það sem þeir óttist helst varðandi fasteignamál kirkjunnar í Eyjum er að það fæli umsækjendur framtíðarinnar frá því að sækja um ef menn verða að kaupa sér húsnæði um leið og mætt er á staðinn.

  „Leigumarkaðurinn hér í Eyjum er auðvitað enginn fyrir stærri eignir og reglan er sú að það sem er til leigu séu eignir sem eru til sölu og því erfitt að gera einhverja langtímaleigusamninga.” segir hann.

Nauðsynlegt að prestur hafi fasta búsetu í Eyjum

Í umsögn um málið sem Guðmundur Örn og Viðar Stefánsson, prestar Vestmannaeyjaprestakalls rita segir m.a. að þeir vilji koma á framfæri alvarlegum athugasemdum og að hér hafi ekki verið litið til landfræðilegra sjónarmiða þegar þessar eignir voru teknar til skoðunar. Síðan segir:

„Vestmannaeyjar er nafninu samkvæmt eyjaklasi sem tilheyrir nú Suðurprófastsdæmi en einungis er búið á stærstu eyjunni, Heimaey. Segja má að nær eini samgöngumátinn til Eyja sé með Herjólfsferjunni þar sem flugsamgöngur til Eyja hafa verið formlega lagðar af. Þá hafa hvorki verið lögð göng né brú til Eyja og því ekki mögulegt að aka til Eyja eins og gengur og gerist uppi á meginlandinu.

Af því leiðir að hver sem hefur atvinnu í Eyjum býr þar en ekki annars staðar. Hann fer ekki daglega á milli með Herjólfi enda ekki með öllu áreiðanlegur ferðamáti, sérstaklega yfir vetrartímann þegar allra veðra er von. Að auki er sá tími sem fer í ferðir fram og til baka með Herjólfi til Landaeyjahafnar vel yfir tvo tíma þegar best lætur og vel yfir sjö tíma þegar um Þorlákshöfn er að ræða. Því er nauðsynlegt að prestur, ásamt öllum öðrum starfstéttum sem þar starfa, hafi fasta búsetu í Eyjum en ekki t.d. á Hvolsvelli, Selfossi eða í Reykjavík.”

Óska þess að umræddar fasteignir verði teknar af væntanlegum sölulista

Þá segir í umsögninni að auki hafi myndast sterk tengsl milli safnaðar og þeirra presta sem þar starfa eða hafa starfað enda tilkomið vegna búsetu presta í Eyjum.

„Þá gengur samvinna presta betur þegar reglulegar samgöngur eru þeirra á milli og ekki hefur reynst vel eða verið vel séð af söfnuðinum þegar prestur hefur verið fjarverandi í langan tíma. Hefur það komið niður á starfi kirkjunnar og samstarfi presta í Vestmannaeyjum og því væri það með öllu vitlaust að prestur hafi búsetu annars staðar en í Vestmannaeyjum.

Fasteignamarkaður er vissulega með ágætu móti í Vestmannaeyjum. Hins vegar eru margar eignir á sölu sem væru alls ekki fýsilegur kostur sem fyrsta eign. T.d. er mikið af gömlum húsum sem krefjast mikils viðhalds og fleira þess háttar. Þá erum við hræddir um að fjöldi umsækjenda um prestsstöður í Vestmannaeyjum myndi snarfækka ef ekki væri húsnæði fyrir tilvonandi prest til staðar sem hefur verið gulrót margra sem hafa sótt um starf prests í Vestmannaeyjum.

Því óskum við þess að fasteignir þjóðkirkjunnar í Vestmannaeyjum, Hólagata 42 og Smáragata 6, verði teknar af væntanlegum sölulista sem starfshópurinn leggur til. Að minnsta kosti óskum við þess að þjóðkirkjan eigi áfram eignir í Vestmannaeyjum til að viðhalda þó ekki sé nema viðveru sóknarprests og prests í Vestmannaeyjum. Ellegar er mikil hætta á því að þjónusta þjóðkirkjunnar skerðist svo um munar sem og ásýnd þjóðkirkjunnar í Vestmannaeyjum.” segir í umsögn prestana til kirkjuþings.

Prestssetrið á Smáragötu.

 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.