Grímur Gíslason skrifar:

Vetrarvörn Vegagerðar

- Fyrri hluti athugasemda við varnarleik forstjórans

21.September'21 | 17:16
IMG_5018

Herjólfur. Ljósmynd/TMS

Það  vakti óneitanlega athygli hversu snögg  forstjóri Vegagerðarinnar var að stíga fram og grípa til varna fyrir stjórnendur Herjólfs og meirihluta bæjarstjórnar, vegna gagnrýni sem sett hefur verið fram á fækkun ferða með því að setja á vetraráætlun hjá Herjólfi 9 mánuði ársins. 

Það er reyndar alveg nýtt, og þar tala ég af reynslu, að Vegagerðin sé svo snör í snúningum að hún bregðist nær samdægurs við. Það hefði eflaust tekið lengri tíma ef um hefði verið að ræða ákvarðanatöku sem skipti máli en Guð láti gott á vita.

Sérstakt að sjá embættismanninn í þessu hlutverki?

Hitt er svo vert umhugsunarefni hvers vegna embættismaður ríkisins, æðsti embættismaður Vegagerðarinnar, grípur til slíkra varna vegna gagnrýni sem beint er að rekstaraðila Herjólfs og meirihluta bæjarstjórnar en ekki Vegagerðinni. Undirrituðum er að fullu ljóst að Vegagerðin reynir af fremsta megni að halda framlögum og útgjöldum ríkisins, vegna samgangna til Eyja, í eins miklu lágmarki og hún kemst upp með. Þess vegna vekur sérstaka athygli hve mikla gleði, með stjórnendur Herjólfs ohf. og meirihluta bæjarstjórnar, er að finna í skrifum forstjórans. Það vekur á hinn bóginn upp spurningar um hvort það sé vegna þess að þar á bæ sé fólk þægilegt í taumi og geri ekki kröfur umfram það sem þeim er skammtað?

Vanefndir Vegagerðarinnar ollu verulegum vandræðum

Forstjórinn talar í skrifum sínum um að rekstur Herjólfs hafi verið kominn í þrot á árinu 2020 og lætur að því liggja að það sé vegna 7 ferða heilsársáætlunar Herjólfs, sem fyrsta stjórn Herjólfs ohf kom á laggirnar. Það er augljóslega ekkert samhengi í þeirri sjálfsögðu ákvörðun að skipið sigli 7 ferðir á dag allt árið og tekjuhruns vegna heimsfaraldurs. Á hinn bóginn liggur fyrir að rekstur Herjólfs ohf var kostnaðarsamari fyrstu 2 rekstrarárin vegna vanefnda Vegagerðarinnar á samningum sem hún gerði, eins og farið verður yfir hér á eftir.

Í samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um yfirtöku á rekstri Herjólfs, sem var undirritaður 16. maí 2018, var gert ráð fyrir að Vestmannaeyjabær tæki við rekstri Herjólfs og hæfi siglingar með nýjum Herjólfi  eigi síðar en 8. október 2018. Mannaráðningar og undirbúningur rekstrar Herjólfs ohf miðuðust við efni samningsins svo að Herjólfur ohf gæti staðið við sínar skuldbindingar. Auðvitað kom svo í ljós að Vegagerðin gat ekki staðið við sinn hluta samningsins, þ.e. að afhenda ferju og höfn tilbúna til rekstrar á þeim tíma sem samið var um. Sífelld seinkun á afhendingu skips og hafnar leiddi óumflýjanlega til mikils kostnaðar fyrir Herjólf ohf. Það var t.d. ástæða þess að engar tekjur komu til rekstarins árið 2018 og því varð rekstrartap á því ári upp á 25,5 milljónir.

Viðaukasamningur undirritaður degi fyrir yfirtöku

Sífelld fundarhöld fóru fram með þáverandi stjórn Herjólfs ohf, einkum stjórnarformanni, undirrituðum og þáverandi framkvæmdastjóra, og Vegagerðinni allt árið 2018 og fyrstu mánuði árs 2019. Nýjar dagsetningar á afhendingu nýja skipsins urðu sífellt fleiri og skrítnari – en enginn þeirra stóðst framan af. Úr varð að ákveðið var að draga línu í sandinn og breyta samningi á þá lund að Herjólfur ohf tæki við rekstri á siglingaleiðinni til Eyja 30. mars 2019, hvort sem nýja skipið yrði tilbúið til afhendingar eða ekki. Um þetta þurfti reyndar að semja.

 Gengu samningaviðræður afar hægt þannig að ekki var gengið frá viðaukasamningi við samninginn frá í maí 2018 fyrr en síðdegis 29. mars 2019. Með öðrum orðum degi áður en Herjólfur ohf tók við rekstrinum. Í þeim viðaukasamningi var gengið frá ýmsum útistandandi málum og þar á meðal því að Vegagerðin myndi bæta Herjólfi ohf sannarlegan kostnaðarauka sem stafaði af seinkun á upphafi þjónustu og tafa á afhendingu nýrrar ferju.

Í þessum viðaukasamningi var gert ráð fyrir að nýr Herjólfur yrði tilbúinn til áætlanasiglinga í apríl/maí 2019. Reyndar varð raunin sú að ný ferja hóf ekki áætlunarsiglingar fyrr en í lok júlí 2019, nærri 10 mánuðum síðar en upphaflegi samningurinn gerði ráð fyrir.

Auðvitað raskaði þessi seinkun verulega öllum áætlunum og varð til mikils  kostnaðarauka fyrir rekstrarfélagið.

Ný framsækin hugsun varðandi gjaldskrá og áætlun

Þrátt fyrir framangreint ákvað þáverandi stjórn Herjólfs að kynna strax í október 2018  ferðaáætlun og gjaldskrá, sem tæki gildi þegar að félagið tæki við rekstrinum. Hvorki hin nýja gjaldskrá félagsins né ferðatíðnin var samkvæmt fyrirmælum Vegagerðarinnar. Við ákváðum einfalda gjaldskrá og afsláttarfyrirkomulag sem tók mið af hagsmunum bæjarbúa og fyrirtækja í Vestmannaeyjum. Þá tók gjaldskráin og ferðatíðnin mið af því að Vestmannaeyjar gætu orðið hluti af þeirri miklu uppbyggingu í ferðaþjónustu sem þá var til staðar á Íslandi og Eyjarnar höfðu að stórum hluta misst af.

Ég tel að yfirgnæfandi meirihluti íbúa í Eyjum sé ánægður með þá breytingu sem gerð var, þó svo að sumt forystufólk meirihluta bæjarstjórnar hafi ekki verið par hrifið af ákvörðuninni svo ekki sé dýpra í árina tekið.

Vegagerðin á fjöllum?

Vegagerðin var upplýst um þessar ákvarðanir, um ferðatíðni og gjaldskrá, eins og gera átti samkvæmt samningi. Hún benti á að þessar ákvarðanir væru ekki í samræmi við lágmarksáætlun og  þessi ákvörðun væri á ábyrgð félagsins en gerði ekki ágreining um málið. Vegagerðin ætti því varla að koma af fjöllum hvað þessa ákvörðun varðar eins og forstjórinn reynir að gera, en kannski eru menn á þeim bæ bara yfirleitt á fjöllum.

Kostnaðarauki vegna vanefnda Vegagerðarinnar en ekki vegna áætlunar

Gjaldskrárbreytingin þýddi talsvert meiri tekjur fyrir félagið. Á hinn bóginn var vandséð að 7 ferða áætlunin hefði verulega áhrif á reksturinn til lengri tíma enda sáralítill viðbótarkostnaður af sjöundu ferðinni við fyrirliggjandi fastan kostnað félagsins, eftir að skipið færi að sigla alfarið á rafmagni.

Kostnaðarauki varð hins vegar verulegur vegna vanefnda Vegagerðarinnar og einnig þeirrar staðreyndar að Samgöngustofa gerði aðra kröfu um mönnun en Vegagerðin hafði gert ráð fyrir. Upphaflegi samningurinn hins vegar tók mjög skýrt á því að kostnaðaraukning vegna fjölgunar í áhöfn lægi klárlega hjá Vegagerðinni.

Rekstur í árslok 2019 í góðu lagi og í samræmi við áætlanir

Þrátt fyrir áðurnefndar staðreyndir gekk rekstur Herjólfs ohf vel árið 2019 og var reyndar í fullkomnu samræmi við rekstraráætlun félagsins. Bókhaldslegt tap varð á rekstrinum upp á 16,5 milljónir en í raun var ekkert tap á rekstri félagsins. Félagið var með í höndunum kröfu á Vegagerðina vegna mönnunarmála og kostnaðarauka í samræmi við gerða samninga. Samkvæmt því sem ég kemst næst hefði þessi krafa getað legið nærri 150 milljónum króna og jafnvel hefði hún getað verið einhverjum tugum milljóna hærri hefði gerðum samningum verið fylgt eftir. Það þýðir að hagnaður af rekstri var í raun vel á annað hundrað milljónir króna hefði Vegagerðin greitt það sem henni bar samkvæmt samningum.

Hvers vegna var krafan ekki færð til eigna í bókhaldi?

Einhverra hluta vegna var þessi krafa ekki færð til eignar í bókhald félagsins, svo undarlegt sem það nú er. Hennar var getið í skýringum með ársreikningi þar sem fram koma að það væri mat stjórnenda að félagið ætti kröfu á Vegagerðina, vegna vanefnda, upp á 82 – 92 milljónir. Hefði þessi upphæð verið innheimt, að ég tali nú ekki um 150 milljónirnar eða jafnvel meira sem líklega hefði mátt setja fram á grundvelli samninganna, hefði staða félagsins verið vægast sagt afar góð í árslok 2019, þrátt fyrir að sigldar hafi verið 7 ferðir á dag samkvæmt áætlun í 9 mánuði á því herrans ári 2019.

Kannski var einhver undarleg pólitík á bak við þá ákvörðun að færa áðurnefnda kröfu ekki til eigna í bókhaldi félagsins?

Kolrangar fullyrðingar

Það er því algjörlega ljóst að rekstur Herjólfs ohf var langt frá því að vera í kominn í þrot í árslok 2019 og það bara kolrangt að halda því fram að rekstur Herjólfs ohf. hafi verið kominn í þrot á árinu 2020 vegna þess að: „ fyrri stjórn tók ákvörðun um að sigla 7 ferðir á dag án samráðs við Vegagerðina og án þess að hafa til þess fjármagn,“ eins og forstjóri Vegagerðarinnar orðaði það svo smekklega í varnargrein sinni fyrir stjórnendur Herjólfs og meirihluta bæjarstjórnar í Eyjum.

Það er ekki mikill bragur yfir slíkum varnarleik.

Látum gott heita í bili en áfram verður haldið að fara í saumana á Vetrarvörn forstjóra Vegagerðarinnar í öðrum pistli síðar í vikunni.

 

Grímur Gíslason

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).