Enn tekist á um verkferla við ráðningu hafnarstjóra

21.September'21 | 06:59
IMG_2769

Frá fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Ljósmynd/TMS

Verkferlar við ráðningu hafnarstjóra, voru til umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. 

Þar lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem segir að lög kveði á um að hafnarstjórn ráði hafnarstjóra. Hafnarstjórn fól á engum tímapunkti starfsmannasviði að leiða ráðningarferlið. Það er miður að í stað þess að farið hafi verið yfir verklagið fullyrðir meirihlutinn áfram að ekkert sé athugunarvert.

Segja mikilvægt að virða hlutleysi og faglega vinnu stjórnenda og starfsfólks

Í framhaldi lögðu bæjarfulltrúar E og H lista fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti E- og H- lista harmar það að fulltrúa D lista dragi heilindi og faglega vinnu starfsfólks Vestmannaeyjabæjar í efa á pólitískum vettvangi, þar sem umrætt starfsfólk hefur ekki tækifæri á bera hendur fyrir höfuð sér. Það er kjörnum fulltrúum ekki til sóma að draga í efa að framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og mannauðsstjóri Vestmannaeyjabæjar hafi ekki farið að lögum og reglum við ráðningu hafnarstjóra.

Engar athugasemdir bárust um ráðningarferlið í aðdraganda þess, hvorki við auglýsinguna, sem var í birtingu í hálfan mánuð á öllum vefmiðlum Vestmannaeyja og á landsvísu, né þann hóp eða þá vinnu sem lá fyrir um mat á umsóknum. Ráðningarferlið var mjög ítarlegt og faglega staðið að verki. Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, mannauðsstjóri Vestmannaeyjabæjar og ráðningarskrifstofa Hagvangs, önnuðust matið. Umsóknir voru metnar þar sem hæfnisþáttum var gefið ákveðið vægi. Allir umsækjendur voru boðaðir í viðtöl og þegar búið var að meta umsækjendur voru tveir hæfustu boðaðir í framhaldsviðtal og þeir beðnir um að halda kynningu á stöðu og framtíðarsýn hafnarinnar. Leitað var umsagnar umsagnaraðila, lagt var fyrir umsækjendur persónuleikapróf og unnin var ítarleg greiningarskýrsla.

Niðurstöður matsins voru kynntar ítarlega fyrir framkvæmda- og hafnarráð og ræddar í framhaldinu. Eftir þá vinnu var ákveðið að ráða Dóru Björk Gunnarsdóttur, sem metin var hæfust, sem hafnarstjóra, án mótatkvæða í ráðinu.

Það var ekki fyrr en niðurstaða hópsins á matinu lá fyrir og var kynnt framkvæmda- og hafnarráði, mánuðum eftir að ákveðið var að auglýsa starfið, að fulltrúar D lista fóru að efast um lögmæti ráðningarinnar. Augljóst er að fulltrúar D lista eru að leita leiða til að draga mat og vinnu valnefndarinnar og ráðsins í efa. Leiða má að því líkur að sá umsækjandi sem þótti hæfastur til starfsins var þeim ekki þóknanlegur.

Minnt er á 7. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Þar er m.a. kveðið á um að kjörnir fulltrúar skuli í störfum sínum virða hlutverk starfsfólks Vestmannaeyjabæjar. Kjörnir fulltrúar hafa ekki boðvald yfir einstaka starfsfólki Vestmannaeyjabæjar.

Mikilvægt er að virða hlutleysi og faglega vinnu stjórnenda og starfsfólks Vestmannaeyjabæjar. Þetta er enn ein atlaga sjálfstæðismanna að starfsfólki Vestmannaeyjabæjar, segir í bókun meirihlutans.

Segja starfsmenn sveitarfélagsins notaða sem stuðpúða

Fulltrúar D lista lögðu að endingu fram eftirarandi bókun: Hér er einungis verið að gagnrýna vinnubrögð fulltrúa E og H lista í málinu. Afgreiðsla málsins var ekki gerð í umboði hafnarstjórnar líkt og lögum samkvæmt. Enn og aftur er verið að nota starfsmenn sveitarfélagsins sem stuðpúða fyrir gagnrýni minnihlutans á störf pólitískra fulltrúa.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...