Bærinn í eignaskiptum

- skiptir á sléttu :: lætur frá sér 819 fermetra og fær 381 fermeter í staðinn

9.September'21 | 20:00
20210909_133855

Vestmannaeyjabær seldi efri hæðina á Strandvegi 30 á 55 milljónir.

Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar voru til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Bæjarstjóri upplýsti þar um sölu húsnæðis í eigu Vestmannaeyjabæjar.

Fram kemur í fundargerðinni að önnur hæðin að Strandvegi 30 hafi verið seld. Þar nýttu meðeigendur í húsinu forkaupsrétt sinn skv. samningi þar um. Þá er tekið fram í fundargerðinni að við þau viðskipti hafi Vestmannaeyjabær eignast góða geymslu við Tangagötu, sem nýtt verður sem geymsluhúsnæði fyrst um sinn.

Í niðurstöðu ráðsins segir að bæjarráð samþykki fyrirliggjandi kauptilboð í aðra hæð Strandvegar 30.

Kaupverð beggja eigna 55 milljónir

Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar segir í samtali við Eyjar.net að kaupverð beggja eigna sé 55 milljónir kr. „Fengnir voru löggiltir fasteignasalar til þess að meta virði annarar hæðar að Strandvegi 30, þar sem forkaupsréttarákvæði sem voru fyrir á húsinu, gera ráð fyrir að fyrir liggi mat löggiltra aðila ef til þess kemur að nýta forkaupsréttinn.” segir hann.

Angantýr segir að Vigtin fasteignafélag ehf. hafi nýtt þinglýstan forkaupsrétt sinn á annari hæð Strandvegar 30 og samdi við Miðstöðina um að réttindi og skyldur skv. kaupsamningi verði framseldar til Miðstöðvarinnar og ekki verði heimilt að byggja ofan á 2. hæðina.

„Við þessi viðskipti eignast Vestmannaeyjabær geymsluhúsnæði að Tangagötu 7, sem er suðurendi þriggja eininga húss. Til stendur að færa safnmuni í þá aðstöðu til varðveislu. Þægilegra aðgengi er að því húsnæði og því hentugra að nálgast safnmuni í eigu Vestmannaeyjabæjar. Engin önnur ákvörðun liggur fyrir um framtíð húsnæðisins, en staðsetning hússins er betri fyrir bæinn.”

Hann segir að störfum sé svokallaður húsnæðishópur, sem bæjarstjórn ákvað á fundi sínum þann 3. desember sl., að skipa.

„Húsnæðishópnum var falið að meta húsnæðisþörf fyrir starfsemi bæjarins og móta tillögur í þeim efnum. Hlutverk starfshópsins er m.a. að meta húsnæðisþörf þeirra stofnana Vestmannaeyjabæjar sem fyrirhugað er að flytji starfsemi sína annað á næstu árum og leggja fram tillögur um hvernig skuli ráðstafa því húsnæði sem verður til vegna þessa, þ.e. bjóða það til sölu, leigu, annarrar notkunar eða niðurrifs. Sérstaklega átti að horfa til húsnæðis 3. hæðar Fiskiðjuhússins, gömlu slökkvistöðvarinnar, tónlistarskólans, Rauðagerðis, 2. hæðar á Strandvegi 30, hluta af aðstöðu umhverfis- og framkvæmdasviðs við höfnina og Þórsheimilis.” segir Angantýr. 

Hann segir að húsnæðishópurinn hafi lagt fram minnisblað um húsnæðismál sem bæjarráð tók fyrir á fundi sínum þann 27. maí sl. Þar komu fram ýmsar tillögur um ráðstöfun húsnæðis, sem er ýmist laust eða er að losna. Minnisblaðið má sjá hér.

Samræmist vel tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Í bókun frá Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, fulltrúa D lista segir að undirrituð samþykki sölu fasteignanna sem samræmist vel tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við síðustu fjárhagsáætlanagerð um að farið yrði í heildarendurskoðun á húsnæðisþörf sveitarfélagsins með það að markmiði að selja, leigja eða rífa fasteignir og draga þar með úr íþyngjandi og vaxandi rekstrarkostnaði fasteigna.

Kaupa á tvöföldu fasteignamatsverði en selja undir fasteignamati

Ef bornar eru saman fasteignirnar tvær sést að húsið sem bærinn átti að Strandvegi 30 er skráð 819 fm. að stærð. Gólfflötur hæðar er um 800 fm. Fasteignamat er 67,4 m.kr og brunabótamat er 161,7 m.kr. 

Vestmannaeyjabær kaupir suðurbilið á Tangagötu 7. Sú fasteign er 381, fm. að stærð. Fasteignamat er 27,8 m.kr og brunabótamat er kr. 40,7 m. Tekið er fram í verðmati sem er í undirgögnum með fundargerðinni að skv. teikningum og skoðun sé þessi hluti minni í fm. líklega um 350 fm. Grunnflötur er 209 fm og lofthæð 7,5 m.

Samkvæmt þessu seldist eignin á Tangagötu á tvöföldu fasteignamatsverði á meðan eignin á Strandvegi seldist undir fasteignamati.

Metið á bilinu 32 milljónir til 65,5 milljónir króna

Ekkert verðmat var hins vegar gert opinbert yfir fasteignina á Strandvegi 30. Eyjar.net óskaði eftir að fá þau verðmöt, en líkt og fram kemur í viðtalinu við Angantý hér að ofan voru gerð verðmöt yfir þá fasteign einnig. Hér að neðan má skoða þau þrjú verðmöt sem lögð voru til grundvallar verðlagningunni á umræddri fasteign.

Angantýr segir að verðmöt fasteignasalanna hafi verið á bilinu 32 milljónir til 65 milljónir króna. „Meðaltal verðmata nam 48,3 m.kr., en samkomulag náðist um söluverð að fjárhæð 55 m.kr., 7,3 milljón krónum hærra verð en meðaltal verðmata nam.” segir hann.

Aðspurður um þegar svona mikill munur sé á verðmötum, hvort ekki hafi komið til álita að auglýsa umrædda eign til sölu á almennum markaði, þá með þeim kvöðum sem á henni eru segir Angantýr að samkvæmt samkomulagi því sem gert var 1. desember 2016 þá bar Vestmannaeyjabæ að bjóða Vigtinni fasteignafélagi ehf. eignina til kaups á verði sem ákveðið skyldi skv. mati löggilts fasteignasala. „Sala á almennum markaði hefði ekki getað komið til fyrr en það lá fyrir að Vigtin fasteignafélag ehf. hefði ekki viljað kaupa eignina á matsverði skv. samkomulaginu. Á það reyndi ekki.”

 

Tangagata 7.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).