Rekstur Herjólfs að mestu samkvæmt áætlun

Til þess að ferðaþjónustan nái að blómstra og til að lengja ferðamannatímabilið þarf öruggar samgöngur og öfluga markaðssetningu á því sem við höfum uppá að bjóða, segir framkvæmdastjóri Herjólfs

26.Ágúst'21 | 18:07
hordur_herjolfur

Hörður Orri Grettisson

Um næstu mánaðarmót tekur gildi vetraráætlun Herjólfs. Eyjar.net ræddi við Hörð Orra Grettisson, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. um reksturinn, stutt ferðamannatímabil og um félagið, sem er Eyjamönnum svo gríðarlega mikilvægt.

Ferðatímabilið því miður ennþá aðeins þrír mánuðir

Ég heyri af óánægju einhverra bæjarbúa og hagsmunaaðila um að setja eigi á vetraráætlun um næstu mánaðarmót. Heyrir þú af slíku?

Nei, ég hef ekki orðið var við þá óánægju. Þó að reksturinn í dag stjórnist fyrst og fremst af samfélagslegum hagsmunum þarf að haga honum þannig að hann gangi upp, á ári hverju ferðast 70% af okkar farþegum í júní, júlí og ágúst hina níu mánuði ársins ferðast 30% af okkar farþegum. Hér í Eyjum er ferðatímabilið því miður ennþá aðeins þrír mánuðir.

Tilgangur fyrirtækisins er að tryggja góðar og öflugar samgöngur við Eyjar allt árið um kring og við teljum að þeim tilgangi sé náð þó að við fækkum um eina ferð á dag á vetraráætlun og siglum sex ferðir í stað sjö. Við bindum þó miklar vonir við það, að með samstilltu átaki okkar Eyjamanna og þegar við komumst út úr þessum heimsfaraldri að okkur séu allir vegir færir í að lengja ferðamannatímabilið í báða enda og sigla fulla áætlun allt árið um kring, því hér höfum við svo ótúlega margt uppá að bjóða.

Mun taka smá tíma en mun skila sér

Undanfarin ár hefur skipið varla misst úr ferð í september og október, en samt dregur verulega úr að ferðamenn heimsæki okkur þá. Jafnvel þó að fjöldi erlendra ferðamanna sé á landinu. Hverja telur þú skýringuna á því vera?

Ég tel að góðar samgöngur séu lykillinn að blómlegri byggð hér í Eyjum og séu helsta forsenda þess að samfélagið hér vaxi. Góðar samgöngur auka lífsgæði okkar sem hér búum og gera fyrirtækin sem hér starfa samkeppnishæfari. Til þess að ferðaþjónustan nái að blómstra og til að lengja ferðamannatímabilið þarf öruggar samgöngur og öfluga markaðssetningu á því sem við höfum uppá að bjóða. Nýting Landeyjahafnar hefur stóraukist með tilkomu nýs skips og Ferðamálasamtökin í samstarfi við bæjaryfivöld hafa ráðist í markaðsátök til að auglýsa Vestmannaeyjar. Þetta tvennt hefur gengið vel seinustu misserin og er lykillinn að því að lengja ferðamannatímabilið hér í Eyjum til framtíðar, það mun taka smá tíma en mun skila sér.

Erum bjartsýn á að það takist að koma á jafnvægi í rekstrinum

Hvernig gekk reksturinn á fyrri hluta ársins?

Reksturinn gengur að mestu samkvæmt áætlunum það sem af er ári. Í janúar, febrúar og mars vorum við með góða flutninga miðað við fyrri ár. Apríl, maí, júní og júlí hafa svo ekki komið neitt sérstaklega út hvað varðar flutninga og bara árið 2020 sem við flytjum færri farþega á því tímabili. Okkar rekstur og áætlanir miðast við það að koma á jafnvægi í rekstrinum á þessu ári og erum bjartsýn á að það takist, segir Hörður Orri Grettisson.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.