Georg Eiður Arnarson skrifar:

Vertíðin 2017

6.Júlí'21 | 12:40
Georg_opf

Greinarhöfundur á sjónum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

 Að undanförnu hafa borist fréttir um það að þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð á aflaheimildum, þá hafi stórútgerðin væntingar um það að þrátt fyrir minni kvóta þá muni þeir jafnvel halda óbreyttum hagnaði og jafnvel bæta í, vegna þess að hin hliðin á minni afla er oft á tíðum hærra afurðarverð.

En um þessa hlið útgerðarinnar fjallaði ég um í grein sem ég skrifaði sumarið 2017 og birti hér aftur í heild sinni.

Ótrúlega sérstök vertíðin 2017 fyrir marga staði. Fyrst þetta langa verkfall sem stóð frá því um miðjan des. 2016 til um miðjan febr. 2017, en að sögn flestra sjómanna sem ég hef rætt þetta við, þá skilaði þetta nákvæmlega engu. Loðnuvertíðin sem fylgdi svo í kjölfarið var afar sérstök í marga staði, því eins og sumir kannski muna, þá fann Hafró nánast enga loðnu s.l. haust og því útlit fyrir að það yrði jafnvel ekkert veitt samkv. Því. Það voru síðan útgerðarmenn sjálfir sem gripu inn í og lögðu Hafró til fjármagn til að fara í nánari rannsóknir sem aftur skiluðu sennilega einni bestu loðnuvertíð í mörg ár, með vertíð upp á ca. 22 milljarða króna og frekar furðulegt að hugsa sér, að ef farið hefði verið eftir tillögum Hafró frá því um haustið, þá hefði sennilega ekkert verið veitt. Reyndar hef ég heyrt í nokkuð mörgum sjómönnum á uppsjávarskipum sem telja að þessi góða veiði í nótina á vertíðinni hafi að hluta til amk verið vegna þess að ekki var búið að fara og trolla í gegn um loðnuna eins og yfirleitt er gert í upphafi loðnuvertíðar og þannig dreifa loðnunni, en í staðinn fékk hún tækifæri til þess að þétta sig, sem svo aftur skilaði þessari frábæru loðnuvertíð. Aflabrögðin á bolfiskskipunum voru ævintíarleg eins og síðustu ár og gott dæmi um það er aflaskipið Vestmannaey, sem fiskaði á tímabilinu 15. febrúar til 30. apríl, eða á aðeins 10 vikum, 1600 tonn af slægðum fiski, sem miðað við fisku upp í sjó væri þá yfir 2000 tonn og með aflavermæti upp á 350 milljónir. Ef tekið er tillit til þess tíma sem fer í að sigla til og frá miðunum, tímann sem fer í löndun, lögbundin frí, sem og tímabil þar sem skipið var sent til annara veiða en að veiða þorsk á miðunum við Eyjar, þá má reikna með að skipið hafi verið aðeins 6-7 vikur á miðunum til að ná þessum afla, sem hlýtur að teljast amk. Íslandsmet ef ekki heimsmet. Ég hringdi eitt sinn í törninni í Bigga á Vestmannaey og spurði hann út í, hvernig hann sæi fyrir sér muninn á því, hvernig lóðaði á fiskimiðunum núna og síðan aftur á þeim tíma þegar hann var að byrja á sjó fyrir daga kvótakerfisins, þegar við vorum að veiða upp undir helmingi meiri þorsk heldur en í dag og svar hans var þannig, að í dag lóðar einfaldlega miklu meira heldur en í gamla daga. Svarið kom mér ekki á óvart, enda man ég vel eftir því þegar ég var að byrja í útgerð og þeir sem eldri voru töluðu um að þetta snaga fiskirí sem við vorum í á þeim tíma (kring um 90) væri frekar leiðinlegt vegna þess, að á árum áður hefðu menn einfaldlega fiskað bara á drullunni. Merkilegt nokkuð, sl. 3 ár hefur verið algjört mok á öll veiðarfæri á drullunni í kring um Eyjar, en stóra spurningin er þessi, hvers vegna leggur Hafró ekki til verulega aukningu í þorskveiðum? Í gegn um árin hef ég oft heyrt þær samsæriskenningar að það séu í raun og veru ekki Hafró sem stjórni því hversu mikið er leyft að veiða, heldur sér stórútgerðin, eða þeir sem hafa mestu aflaheimildina í þorski, sem stjórni á bak við tjöldin. Ekki þekki ég þetta en, ef ég reyni að setja mig í spor útgeraraðila sem ræður yfir miklum aflaheimlidum í þorski, þá er ég ekkert viss um að ég hefði áhuga á að fá meiri kvóta til að veiða með tilheyrandi kostnaði, heldur hefði ég sennilega miklu meiri áhuga á að fá hærra verð fyrir það sem ég mætti veiða. Auk þess er að sjálfsögðu miklu auðveldara að sækja kvótann og minni kostnaður við að sækja hann úr hafini, þegar magnið í hafinu er miklu meira en úthlutaðar aflaheimildir. Auk þess skiptir miklu máli fyrir þá sem eiga mesta kvótann í dag og eru að leigja mikið af kvóta frá sér, að ekki sé aukið við kvótann, vegna þess að það myndi einfaldlega lækka leigu verðið sem að skiptir miklu fyrir sumar útgrerðir í Vestmannaeyjum, enda þekkt að margar útgerðir í Eyjum leigja mikið af kvóta frá sér. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja, en klárlega minnkar það tekjur sjómanna og fiskverkafólks sem og bæjarins. Það er víða mikill uppgangur hjá útgerðinni í Eyjum og eins gott, enda útgerðin lífæð Eyjamanna. Mikið byggt, sem er bara af hinu góða. Það eins sem ég hefði viljað segja að lokum er, að ég harma það að sumar útgerðir, sem jafnvel skila miklum hagnaði ár eftir ár, noti hagnaðinn því miður allt of mikið til fjárfestinga í öðrum bæjarfélögum á meðan tækifærin eru út um allt hér í Eyjum og maður fær það stundum á tilfinninguna, að hinar stærri útgerðir hér skilji ekki alveg þá ábyrgð og skyldur sem þær bera á því samfélagi okkar, sem viljum eiga heima í Vestmannaeyjum. Óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags. Georg Eiður Arnarson

Reyndar svolítið merkilegt að ég mundi vel eftir þessari grein minni, en fann hana hins vegar ekki inni á blogginu hjá mér, heldur þurfti að fara aðra leið til að grafa hana uppi, en eins og fram kemur í greininni, þá eru hagsmunir stórútgerðarinnar ekkert endilega tengdir auknum aflaheimildum, heldur miklu frekar hærra afurðarverði og að sjálfsögðu mun kvótaleigan fara upp úr öllu valdi við þennan niðurskurð og gera þar með líf leiguliðana enn erfiðara, en að sjálfsögðu muni tekjur sjómanna sem landa á föstum verðum minnka með minni afla og augljóslega líka landverkafólks, en þetta er nú einmitt lykillinn að því og þeirri ástæðu að stórútgerðin vilji engu breyta. Almennt viðurkenna þó allir sem ég hef talað við að undanförnu, að það þurfi að fara rækilega yfir bæði útreikninga og aðferðarfræði Hafró en áhuginn er kannski ekkert svo mikill þegar menn halda sínum hlut, alveg sama hversu mikið er skorið niður.

Vonandi verða alvöru breytingar eftir kosningarnar í haust og ef það er eitthvað sem ég hefði klárlega viljað sjá breytast á næsta kjörtímabili, þá er það það að áður en kjörtímabilinu verður lokið, þá verðum við aftur komin inn í það farsæla kerfi byggðum landsins til góðs að setja á frjálsar handfæraveiðar, enda augljóst að veður og tíðarfar sér alveg um að hamla þeim veiðum og ekki munum við tæma miðin með vistvænum handfærum.

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...