Alfreð Alfreðsson skrifar:

Stórskipahafnir

13.Apríl'21 | 17:06
farthegaskip_lodsinn_hofnin_l

Lóðsinn dregur hér farþegaskipið Prinsendam út úr höfninni. Prinsendam er með stærri skipum sem komið hafa í höfnina, 204 metrar á lengd.

Það hefur oft reynst okkar akkilesarhæll hve sundruð við erum. Við sjáum markmiðið en getum engan veginn valið leiðina að því. 

Gott dæmi um það er staðsetning nýs hátæknisjúkrahúss eins og það er kallað. Við vorum nálægt aldarfjórðung að velja því stað og völdum auðvitað rangan stað. Hvað annað. Við erum jú Íslendingar. Við rífumst um staðsetningu nýs flugvallar sem flestir eru sammála um að ekki þarf að byggja og höfum augastað á hraunbreiðu sem er staðsett í svona fimm kílómetra fjarlægð frá eldstöðvunum á Reykjanesi. Já, og nafnið hræðir ekkert, Hvassahraun. Þetta erum bara við.

Stórskipahöfnin norðan Eiðis

Stórskipahöfn norðan Eiðis hefur verið í umræðunni í svipaðan tíma og hátæknisjúkrahúsið fræga. Almennt virðast allir sammála um nauðsyn stórskipahafnar. Stærstu flutningaskip Íslendinga í dag geta ekki athafnað sig innan hafnar og því um eitt að ræða. Samt nær hugmyndin aldrei lengra en á teikniborð við Borgartún í Reykjavík, þar sem blýantsnagarar virðast keppast um að gefa þeim orðið sem fyrstur fer öfugu megin framúr á morgnana.

Þegar ekið er austur á ey má sjá þúsundir tonna af stórgrýti sem ekki nýtast við malarnám. Þessu grjóti væri hæglega hægt að aka út á Eiði til uppfyllingar fyrir komandi stórskipahöfn. Fyrir nokkrum árum síðan rifum við frystihús og var efninu ekið austur á hraun þar sem því var hent og lítið hugsað um þá sjónmengun sem af því hlaust. Víða erlendis telst slíkt efni hvalreki, því með því að mylja það aftur niður er hægt að endurnýta sement og sand sem íblöndunarefni. Þetta efni hefði hæglega verið hægt að nota í nefnda stórskipahöfn.

Mynd/Deiliskipulag frá 2015.

Viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip

Á skipulagi frá 2015 er viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip komið inn. Alltof mörg rök liggja fyrir því að banna skemmtiferðaskipum að leggja að bryggju norðan Eiðis, þungt atvinnusvæði og ilmurinn frá Löngu vega þar þungt, enda nauðsynlegt að farþegar skipanna séu í göngufæri frá bænum.

Í byrjun júní í fyrra hélt Cruise Iceland ársfund sinn á Siglufirði. Þá var útséð með að fá skemmtiferðaskip myndu leggja að bryggju í höfnum landsins. Grípum niður í erindi Péturs Ólafssonar hafnarstjóra á Akureyri: „Þetta er mjög þungt högg, það eru eftir 85 skip af 216 og á eftir að fækka. Högg um hálfan milljarð ef fer á versta veg.“ Svo mörg voru þau orð. Meðan ekki er hægt að taka á móti öllum skemmtiferðaskipum í Eyjum verður höfnin af hundruðum milljóna svo og þjónustufyrirtækin í Eyjum.

Margar flugur í einu höggi

Til þess að gera aðgengi að viðlegukanti austan við Skansinn sem best, tel ég að skynsamlegast væri að byrja að brjóta hraunið frá 1973 frá Kirkjuvegi austur fyrir Heimatorg. Oft hefur sú umræða komið upp að gaman væri að sjá hvernig rafalar gömlu rafveitunnar líta út í dag, bráðum 50 árum eftir gos. Þeir voru stoppaðir þegar hraunið lagðist á þá. Góðir sýningargripir þar og kjörið að vígja nýtt torg árið 2023 með nýjum fornminjum í austri. Frá gömlu sundlauginni er spölurinn á Skansinn stuttur svo og leiðin á viðlegukantinn góða. Auðvitað er þetta mikil einföldun því ljónin á veginum eru mörg en allt byrjar þetta með orðum. Þessi framkvæmd yrði mikil lyftistöng fyrir efnahagslíf Eyjamanna og yrði vafalaust uppspretta margra starfa. Nýtt gamalt byggingarsvæði sæi nú dagsins ljós.

Á næsta ári eru bæjarstjórnarkosningar. Hver er framtíðarsýn flokkanna í þessu máli. Saga Vestmannaeyja á síðustu öld er saga stórsigra. Þeirra sem lögðu grunninn að samfélaginu okkar minnumst við, nöfn þeirra gleymast ekki. Förum í huganum fram í tímann og reynum að gera okkur grein fyrir því hver samferðamanna okkar fær nafn sitt meitlað í stein eins og forfeður okkar. Hvað haldið þið?

Það er spurning hvort ekki sé kominn tími til að setja málefnið stórskipahafnir á dagskrá með heill byggðarlagsins í huga.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).