Skref í rétta átt

- Bæjarstjórn Vestmannaeyja segir í bókun sinni að drög að samkomulagi ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um yfirfærslu starfsfólks sé skref í rétta átt

29.Mars'21 | 07:23
Elló

Bæjarstjórn hvetur Heilbrigðisráðuneytið til þess að taka þátt í því að tryggja störf starfsfólks Hraunbúða og gæta að réttindum þeirra. Ljósmynd/TMS

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri fór yfir á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku stöðu viðræðna við ríkið um yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. 

Um er að ræða viðræður við Heilbrigðisráðuneytið um réttindi starfsfólks við yfirfærsluna og viðræður við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um ýmis hagnýt atriði við yfirfærsluna. Viðræður við Heilbrigðisráðuneytið um réttarstöðu starfsfólks ganga út á að störf og réttindi alls starfsfólks Hraunbúða verði tryggð við yfirfærsluna.

Á fundi sem haldinn var með ráðuneytinu á miðvikudag kom fram að fyrir liggur yfirlýsing frá heilbrigðisráðherra um flutning allra starfsmanna (utan deildarstjóra öldrunarmála) til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ráðuneytið lagði jafnframt fram drög að samkomulagi um yfirfærslu starfsfólks, en Vestmannaeyjabær og Fjarðabyggð sendu athugasemdir sem til stóð að ræða við ráðuneytið á fundi í dag (á fimmtudaginn sl.).

Heilbrigðisráðuneytið afboðaði hins vegar fundinn og neitaði sveitarfélögunum um fund þann dag.

Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar segir að það séu vonbrigði að ríkið skuli ekki koma að neinu leiti til móts við kröfur Vestmannaeyjabæjar varðandi fjármögnun á rekstri Hraunbúða. Bæjarstjórn leggur höfuðáherslu á að undirbúningur, viðræður og vinna við yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verði áfram með hagsmuni heimilisfólks og starfsfólks að leiðarljósi.

Mikilvægt er að yfirfærslan gangi eins vel fyrir sig og kostur er, en jafnframt tryggt að starfsfólk haldi störfum sínum og réttindum við yfirfærsluna. Það eru vonbrigði að Heilbrigðisráðuneytið neiti að beita lögum um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum við yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og tryggja þannig störf og réttindi starfsfólks, en drög að samkomulagi ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um yfirfærslu starfsfólks er skref í rétta átt.

Það er eðlilegt og mikilvægt að sveitarfélögin fái tækifæri til að gera viðeigandi athugasemdir við samningsdrögin sem varðar hagsmuni starfsfólks, sveitarfélags og þjónustuþega. Hvetur bæjarstjórn Heilbrigðisráðuneytið til þess að taka þátt í því að tryggja störfin og gæta réttinda þessa mikilvæga starfsfólks. Jafnframt brýnir bæjarstjórn það fyrir aðilum að ljúka þessari vinnu hratt og örugglega.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.