Máli Sjómannafélags Íslands gegn Herjólfi og Jötni vísað frá

25.Mars'21 | 17:48
20210307_123954

Dómsmáli Sjómannafélags Íslands gegn Herjólfi og Jötni var vísað frá Félagsdómi. Ljósmynd/TMS

Í dag kvað Félagsdómur upp úrskurð í máli Sjómannafélags Íslands fyrir hönd tiltekinna skipverja í áhöfn Herjólfs gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, vegna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og Sjómannafélagsins Jötuns.

Aðalkrafa Sjómannafélagsins var að kjarasamningur á milli Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og Sjómannafélagsins Jötuns frá 12. febrúar 2020 yrði dæmdur ógildur. Rökin fyrir þeirri kröfu voru fyrst og fremst þau að það komi fram í kjarasamningnum sjálfum að hann taki gildi 2 vikum eftir atkvæðisgreiðslu um hann en ekki sé vitað til þess að komið hafi til þeirrar atkvæðisgreiðslu.  

Varakrafan var sú að tiltekið forgangsákvæði í kjarasamningi við Sjómannafélagið Jötunn verði dæmt ógilt og á þeirri forsendu að félagsmenn Sjómannafélags Íslands hafi ekki staðið að þessari breytingu og að Sjómannafélagið Jötunn geti ekki samið um starfskjör fyrir félagsmenn Sjómannafélags Íslands en að flestir starfsmenn um borð í Herjólfi hafi verið í Sjómannafélagi Íslands. 

Ófært að fjalla um dómkröfurnar án aðildar af hálfu þeirra er stóðu að gerð kjarasamnings sem dómkröfur stefnanda lúta að

Í niðurstöðu Félagsdóms segir að í máli þessu hefur stefnandi kosið að stefna annars vegar Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, vegna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og hins vegar Sjómannafélaginu Jötni, til viðurkenningar á ógildi kjarasamnings þessara aðila.

Fyrir liggur að stefndi, Sjómannafélagið Jötunn, er aðili að Alþýðusambandi Íslands, bæði með beinni aðild, en jafnframt í gegnum aðild sína að Sjómannasambandi Íslands.

Það er álit dómsins að framangreint ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 sé fortakslaust og gildi jafnt um stefnanda og stefnda í málum fyrir dóminum. Þannig var stefnanda samkvæmt skýru orðalagi umrædds lagaákvæðis ekki unnt að stefna Sjómannafélaginu Jötni eingöngu án milligöngu þeirra heildarsamtaka sem félagið á aðild að.

Þegar af þessum sökum ber að vísa máli þessu frá Félagsdómi, en ófært er að fjalla um dómkröfurnar án aðildar af hálfu þeirra er stóðu að gerð kjarasamnings sem dómkröfur stefnanda lúta að, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Að þessari niðurstöðu fenginni er rétt að stefnandi greiði stefndu málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 400.000 fyrir hvorn hinna stefndu í málinu.

Í úrskurðarorðum segir að máli þessu sé vísað frá Félagsdómi.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.