Bæjarstjórn ekki einhuga um aðstoð til flugfélags

27.Febrúar'21 | 10:48
air_ice_tms

Samþykkt var að sumarstarfsmenn bæjarins hjálpi til við afgreiðslu flugvéla þrjá virka daga í viku. Ljósmynd/TMS

Meirihluti bæjarstjórnar telur eðlilegt að Vestmannaeyjabær verði við erindi Air Iceland Connect sem óskað hefur eftir því að sumarstarfsmenn bæjarins hjálpi til við afgreiðslu flugvéla þrjá virka daga í viku í um 2 klukkustundir í senn þá daga sem flogið verður til Vestmannaeyja.

Þetta segir í bókun frá fulltrúum E og H lista, sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja á fimmtudaginn var. Jafnframt segir í bókuninni að bæjarráð hafi verið samhljóða við erindinu enda sé það fyrst og fremst hugsað til þess að liðka fyrir því að áætlunarflug á markaðslegum forsendum til Vestmannaeyja geti vaxið og dafnað.

Sjá einnig: Vestmannaeyjabær aðstoðar Air Iceland Connect með starfsfólk

Minnihlutinn klofinn í málinu

Eftir fundarhlé lögðu Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem segir undirrituð fagni því að Air Iceland Connect sýni flugsamgöngum við Vestmannaeyjar áhuga á markaðslegum forsendum. Við getum ekki samþykkt þær hugmyndir þar sem gert er ráð fyrir að skattgreiðendur í Vestmannaeyjabæ beri kostnað starfsmanna fyrirtækis í eigu þriðja aðila.

Sé það vilji bæjaryfirvalda að styðja við rekstur flugfélagsins væri eðlilegra að gera slíkt með útseldri þjónustu starfsmanna Vestmannaeyjabæjar, t.d. Vestmannaeyjahafnar eða Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyja. Undirrituð standa með flugsamgöngum og vilja veg þeirra sem mestan en ítreka mikilvægi gegnsæis hvað varðar fjárhagslegan stuðning Vestmannaeyjabæjar til einkafyrirtækja.

Málið var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa E og H lista og atkvæði Helgu Kristínar Kolbeins fulltrúa D lista. Tveir fulltrúar D lista sátu hjá.

Njáll Ragnarsson, fulltrúi E lista gerði grein fyrir atkvæði sínu með bókun. Í bókuninni segir að það sé ekki rétt að fullyrða að í þessu verkefni felist fjárhagsleg skuldbinding af hálfu sveitarfélagsins.

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.