Endurflytja þingsályktunartillögu um þyrlupall

22.Febrúar'21 | 08:02
Thyrla-a-Hamarsvegi-Vestm-23.01.17_hsu_mynd_cr

Fyrirséð er að þyrla verður áfram mikilvægt öryggistæki fyrir sjúkraflug frá Eyjum þegar flugvöllurinn er lokaður. Ljósmynd/HSU

Tillaga til þingsályktunar um þyrlupall á Heimaey hefur nú verið lögð fram að nýju á Alþingi. 

Flutningsmenn tillögunnar eru Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Liður í að bæta öryggið í Eyjum

Ásmundur Friðriksson, fyrsti flutningsmaður tillögunnar segir að hann og fleiri þingmenn hafi talað fyrir meira öryggi í heilbrigðismálum á landsbyggðinni.

„Ekki síst í Vestmannaeyjum sem eru mér oft hugleiknar. Endurflyt ég þessa þingsályktunartillögu ásamt fleiri þingmönnum sem er liður í að bæta öryggið í Eyjum eins og fram kemur í greinagerðinni. Vonandi nær þingsályktunin í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd og Ísavía verði falið að gera þyrlupall í Eyjum.” segir hann.

Nánast lengsta mögulega flugleið frá landsbyggðinni til Eyja

Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera nú þegar ráðstafanir til að Isavia geti hannað og staðsett þyrlupall á Heimaey til að auka enn frekar öryggi í sjúkra- og neyðarflugi til Vestmannaeyja. Verkinu verði lokið ekki síðar en árið 2022.

Í greinargerð með tillögunni segir að þingsályktunartillaga þessi hafi áður verið lögð fram á 149. löggjafarþingi og á 150. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju lítillega breytt.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa farið tugi ferða á undanförnum árum til Vestmannaeyja í sjúkraflug þegar engin önnur leið er fær á milli lands og Eyja. Sjúkraflugferðir til Vestmannaeyja eru um 100 á ári en flugið er mörgum annmörkum háð. Það tekur um það bil tvær klukkustundir að undirbúa og koma sjúkraflugvél til Eyja frá því að útkall kemur og þar til vélin lendir í Eyjum.

Staðsetning sjúkraflugs á Akureyri er nánast lengsta mögulega flugleið frá landsbyggðinni til Eyja. Veður breytast eins og hendi sé veifað í Vestmannaeyjum og það gerist að sjúkraflugvél sem lögð er af stað til Eyja á ekki möguleika á að lenda þar. Þar getur verið mjög misvindasamt, skýjahæð undir 500 fetum og oft krefjandi aðstæður sem sjúkraflugvél ræður ekki við. Við þær aðstæður þarf að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja sjúka eða slasaða til Eyja.

Mikilvægur öryggisventill sem alls ekki má bregðast þegar neyðarástand skapast

Þyrlur Gæslunnar hafa oft farið við afar erfiðar aðstæður til Eyja og oft er flugvöllurinn lokaður fyrir allri umferð og þarf þyrlan í slíkum neyðartilvikum að notast við Hamarsveg, vestan Dverghamars, sem lendingarstað. Ekkert merkt svæði eða lendingarpallur er í Vestmannaeyjum í slíkum tilfellum og mikilvægt að auka öryggi íbúanna með gerð þyrlupalls. Staðsetningu þyrlupalls þarf að ákveða í samráði við Isavia í Vestmannaeyjum, yfirstjórn sjúkraflutninga HSU, Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands og skipulagsyfirvöld í Vestmannaeyjum.    

Í Vestmannaeyjum búa rúmlega 4.300 manns við áhættusækið atvinnulíf og skerta sjúkrahúsþjónustu í alvarlegustu tilfellum. Fæðingarþjónusta er rekin með ljósmæðravakt, en ekki er rekin sérfræðiþjónusta lækna allan sólarhringinn. Sjúkraflug er því mikilvægur öryggisventill sem alls ekki má bregðast þegar neyðarástand skapast í Eyjum.

Fyrirséð er að þyrla verður áfram mikilvægt öryggistæki fyrir sjúkraflug frá Eyjum þegar flugvöllurinn er lokaður, Herjólfur ekki í siglingum og Landeyjahöfn jafnvel lokuð. Þá er uppi óvissa um áætlunarflug til Vestmannaeyja. Það er því mikilvægt að búa þannig að þyrlufluginu að besta mögulega aðstaða verði gerð sem fyrst og nýtist þegar flugvöllurinn í Eyjum lokast vegna veðurfarsaðstæðna sem enginn ræður við eins og gerist iðulega fyrirvaralítið í Eyjum, segir í greinargerð með tillögunni.

 

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).