Sjúkraþyrla, augnlæknisþjónusta og hamingjuóskir til starfsfólks HSU

15.Janúar'21 | 07:42
hsu_eyjar

Starfsstöð HSU í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

Á fundi bæarráðs Vestmannaeyja á miðvikudaginn síðastliðinn var umræða um heilbrigðismál. 

Fram kemur í fundargerð að bæjarstjórn hafi falið bæjarstjóra að kanna við heilbrigðisráðherra hvernig vinnu miðar við tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu. 

Heilbrigðisráðherra hafi fullan skilning á óþreyju íbúa Vestmannaeyja eftir sjúkraþyrlu

Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um svar heilbrigðisráðuneytisins dags. 22. desember sl., þar sem m.a. kemur fram að tveggja ára tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi hafi átt að hefjast á miðju ári 2020 þegar búið væri að tryggja fjármagn til verkefnisins.

Vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, hafi ekki tekist að tryggja fjármagn til verkefnisins og frekari undirbúningur hafi þannig ekki farið fram. Fækkun ferðamanna í kjölfar faraldursins hafi auk þess valdið því að þrýstingur vegna fjölda ferðamanna og slysa á Suðurlandi hefur minnkað en slíkt ástand er líklega tímabundið. Heilbrigðisráðherra hafi fullan skilning á óþreyju íbúa Vestmannaeyja eftir sjúkraþyrlu og muni áfram vinna málinu brautargengi og koma því til framkvæmda.

Strandi á Sjúkratryggingum Íslands

Auk þess greindi bæjarstjóri frá stöðu mála hvað varðar augnlæknisþjónustu í Vestmannaeyjum. Samningsgerð milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þjónustuaðila og Sjúkratrygginga Íslands mun vera nánast lokið, en svo virðist sem lokahnykkurinn strandi á Sjúkratryggingum Íslands og því mikil hætta á að tímafrestur varðandi fjármögnunarloforð renni út áður en samningur klárast.

Starfsfólk HSU átti stóran þátt í að kveða niður Covid-19 bylgjuna í Vestmannaeyjum í vor

Í niðurstöðu segir að bæjarráð þakki upplýsingarnar og hvetur heilbrigðisráðuneytið til að ráðast í tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurland sem fyrst.

Bæjarráð hvetur samningsaðila til að ljúka samningum hið allra fyrsta þannig að fyrirliggjandi fjármögnun á dýrum tækjabúnaði og upphafskostnaði hverfi ekki út um gluggann. Óeðlilegt er að samingur strandi á tæknilegri fyrirstöðu hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar allar aðrar forsendur virðast liggja fyrir.

Loks vill bæjarráð óska starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til hamingju með útnefninguna; Sunnlendingar ársins 2020, skv. lesendum sunnlenska.is. Starfsfólk stofnunarinnar er vel að þessum heiðri komið. Bæjarráð vill beina sérstökum hamingjuóskum til starfsfólks HSU í Vestmannaeyjum, sem átti stóran þátt í að kveða niður Covid-19 bylgjuna í Vestmannaeyjum í vor, segir að endingu í afgreiðslu bæjarráðs.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.