Minning: Páll Árnason

15.Janúar'21 | 10:15

Palli Árna múrari var innangirðingarmaður frá Vesturhúsum en lengst af bjó á Auðsstöðum við Brekastíg. Palli var 15 ára þegar faðir hans lést og móðir hans þá sjúklingur og hann sendur í fóstur hjá móðursystur sinni á Vesturhúsum. 

Þar voru fyrir 16 börn og einn munnur í viðbót ekki málið frekar en að 6 frændur deildu litlu herbergi og öllu varð að deila jafnt. Palli var vel af Guði gerður, glæsimenni, hár á velli og dökkur á brún og brá. Hann var gæddur góðum hæfileikum sem hann ræktaði með sér af dugnaði sem hann var þekktur af til allra verka. Tónlistina fékk hann í vöggugjöf og spilaði eins og engill á píanó og fáir Eyjamenn höfðu roð við honum við skákborðið.

Hann var glaðsinna prúðmenni og sögumaður góður. Sögustundirnar af Ása í bæ, samferðamönnum hans og snillingum sem voru vinir hans voru kostulegar stundir, mikið hlegið og vísum slegið fram á bæði borð eins og enginn væri morgundagurinn og þeir runnu stundum saman dagur og nótt. Í slíkum veltingi naut skemmtileg röddin, hávær hláturinn og listræn líkamastjáning sín vel og hann hnippti hvað eftir annað fast í öxlina á mér og sagði, hefur þú heyrt þetta, hefur þú heyrt þetta!

Palli var handlaginn til allra verka, meistari í múr- og netagerð og sjómaður á trillunni sinni Árna Páls VE svo sjaldan féll honum verk úr hendi. Palli var líka snöggur til þegar einhver þurfti aðstoðar við og ef hann hefði metið lífsgæðin eingöngu eftir veraldlegum gæðum hefðu fleiri  fengið reikninga fyrir verkin sem hann vann en raun varð á. Hann var ríkari af hjálpsemi en peningum og nú á kveðjustund stendur góðmennskan upp úr. Palli múrari var samt alltaf að. Sinnti netagerð hjá Ingólfi á vetrarvertíðum, gerði út Árna Páls á sumrin og múraði inn á milli og það sem eftir var ársins. Það var samt alltaf tími til að taka eitt lag á píanóið, eina bröndótta skák við Stebba í Höfðanum og svo var hann svo andskoti skemmtilegur í góðra vina hópi.

Það var áfall þegar hann greindist með parkinson 52 ára gamall sem reyndist honum erfiður förunautur. Það var mögnuð saga hvernig hann tókst við veikindin. Ég og afastrákarnir okkar löbbuðum með honum á Hraunbúðir og þá kom sér vel reynslan að stíga ölduna á trillunni í kröppum sjó. Þegar verst lét var varla stætt. Og þó ég héldi að hann væri að falla fyrir borð náði hann alltaf að stíga ölduna og við náðum inn í herbergið hans í kröppum dansi. Þar settist hann við píanóið og náði með erfiðismunum að fletta nótnabókinni. Þarna náði hugur og hönd aftur sambandi og Palli sló hinn sanna hljóm og spilað eins og engill hvert lagið á fætur örðu. Ógleymanleg stund fyrir okkur peyjana. Magnað hvað tónlistinn sló parkinson alveg út meðan fingurnir snertu nótnaborðið.

En lífstóninn þagnaði eftir 23ja ára strögl við sjúkdóminn og Palli Árna hélt í sinn síðasta róður. Ég og afastrákarnir okkar eigum góðar minningar um afa Palla á Auðsstöðum. Hann var Eyjamaður af bestu gerð.

Við Sigga vottum tengdasyni okkar Guðmundi Árna, Maríu Höbbý og strákunum, Kristni og fjölskyldunni samúð.

 

Sigríður og Ásmundur Friðriksson.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).