Eftir Írisi Róbertsdóttur

Árið sem aldrei gleymist

30.Desember'20 | 13:00
iris_roberts

Íris Róbertsdóttir

Mér fannst ég vera vitni að miklum tímamótum í gær þegar ég fékk að vera viðstödd fyrstu covid-19 bólusetninguna á Hraunbúðum, degi eftir að bóluefnið kom til landsins. 

Það var eins og þessi viðburður markaði í senn lokin á langri þrautagöngu og upphaf á öðru og skemmtilegra ferðalagi. Munum þó að enn er ekki runnin upp sú stund að við getum hallað okkur aftur og slakað á. Við þurfum enn um sinn að halda vöku okkar og verjast smiti. En það er búið að kveikja ljósið við endann á göngunum.

Árið sem nú er senn liðið einkenndist af verkefnum og vandamálum sem engan gat órað fyrir við upphaf þess. Á þessu ári höfum við upplifað ástand sem er ólíkt öllu því sem við höfum áður þekkt. Af því leiðir að við gátum ekki nema að takmörkuðu leyti notfært okkur fyrri reynslu til að takast á við þetta; hún er ekki fyrir hendi. Þetta hefur ekki gerst áður. Ekki svona.

Hópsýking tekin föstum tökum

Ég hef setið fundi aðgerðastjórnar reglulega frá því í byrjun mars og auðvitað lærðist okkur margt þegar líða tók á árið. Það kom að gagni þegar við hér í Eyjum fengum okkar skerf af ástandinu í stóru hópsýkingunni sem hér kom upp í vor. Hún var okkur öllum erfið en var tekin föstum tökum og stóð starfsfólk HSU í Eyjum vaktina með miklum sóma á  þessum erfiða tíma.

Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining lögðu sitt af mörkun með mjög umfangsmikilli skimun sem varð til þess að við náðum ótrúlega fljótt tökum á ástandinu. Ég er mjög þakklát Kára fyrir að verða við óskum okkar um að koma til hjálpar. Síðast en ekki síst þá lögðum við, Vestmannaeyingar, mikið á okkur til að stöðva framgang veirunnar í vor og tókum öll virkan þátt í þeim hertu aðgerðum sem hér var gripið til. Við sýndum að við erum sterkt samfélag og höfum oft þurft að takast á við stór og vandasöm verkefni í sameiningu. Þetta var eitt að þeim og við kláruðum það líka.

Það var líka gleði

En á þessu ári gerðist líka margt sem ekkert tengist kórónaveirunni þótt hún hafi litað líf okkar sterkum litum þetta árið. Margt jákvætt gerðist í bæjarlífinu.  Karlalið ÍBV í handbolta vann bikarmeistaratitilinn í byrjun mars eins og alkunna er.  Við fengum gott sumar þrátt fyrir takmarkanir; áttum tvo góða mánuði þar sem mikið var um að vera. Stóru fótboltamótin voru haldin í júní og Goslokahátíð var haldin þótt með öðru sniði væri en venjulega. Og fjölmargir heimsóttu okkur yfir hásumarið. Vestmannaeyjabær fór í markaðsátak með ferðaþjónustunni sem heppnaðist afar vel og mun verða framhald á þeirri samvinnu. En það var ekki haldin Þjóðhátíð sem var auðvitað mjög skrýtin upplifun fyrir okkur sem höfðum aldrei orðið fyrir slíku ''messufalli''. Sumir héldu reyndar einhverskonar garðhátíðir, svona rétt til að viðra tjöldin. Við erum einnig að horfa fram á táknrænan Þrettándahátíð eftir rúma viku sem verður auðvitað ekkert lík okkar hefðbundnu og einstöku Þrettándahátíð.

Samgöngur

Þetta var mjög sérstakt ár í samgöngum. Fyrsti veturinn með nýjan Herjólf sem nú er loksins farinn  að sigla á rafmagni eingöngu þegar farið er í Landeyjahöfn. Unnið er frágangi á nýjum samningi um rekstur Herjólfs og verður hann til árins 2023. Landeyjahöfn var í fyrsta skiptið opin yfir allan veturinn, þ.e. hún lokaðist aldrei vegna þess að dýpið væri ekki nægjanlegt. Þetta er auðvitað gríðarlega miklivægt og höfnin hefur heldur ekki lokast núna í haust og vetur út af dýpi. Búið er að ljúka forúttekt á Landeyjahöfn og nú er að fylgja málinu eftir; klára útfærslu á leiðum til úrbóta og ráðast í framkvæmdir. Svo þarf að huga að því að ljúka rannsóknum varðandi hugsanleg jarðgöng milli lands og Eyja svo hægt sé að horfa til framtíðarlausna í samgöngumálum.

Flugsamgöngur okkar komust í uppnám vegna faraldursins eins og aðrar samgöngur. Flugfélagið Ernir hætti áætlunarflugi hingað í september vegna þess að eftirspurnin hafði hrapað en nú hefur tekist að koma á lágmarksflugi milli lands og Eyja í vetur. Ég vil þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir skilning og aðstoð í þeim efnum. Air Iceland Connect mun annast þetta lágmarksflug í vetur og hefja svo áætlunarflug á markaðslegum forsendum í vor.

Mikil uppbygging og jákvæður baráttuandi

Framkvæmdir á vegum Vestmannaeyjabæjar hafa sjaldan verið meiri á einu ári en á því sem nú er að líða og nema þær rúmlega 700 milljónum króna. Á árinu var hafin bygging á nýrri slökkvistöð sem var löngu tímabær og einnig var haldið áfram með byggingu þjónustuíbúða við Strandveg. Mikið hefur verið lagt í að bæta umhverfi og aðstöðu bæjarbúa og má þar nefna uppbygginu á lóð Hamarsskóla og nýjan hreystivöll við íþróttahúsið. Miklar framkvæmdir hafa einnig verið í íþróttahúsinu sjálfu, sem komu óvænt upp en hafa tekist vel. Það var meðvituð ákvörðun bæjarins að halda uppi framkvæmda- og atvinnustigi í Vestmannaeyjum á þessu mjög svo sérstaka ári. Það er jákvæður uppbyggingarandi sem einkennir samfélagið okkar í dag.

Verið er að byggja íbúðarhúsnæði í stórum stíl og spennandi verkefni eru á teikniborðinu varðandi uppbyggu hjá fyrirtækjum, m.a. nýtt frystihús í botni Friðarhafnar og baðlón í nýja hrauninu svo eitthvað sé nefnt.

Framtíðarsýn

Á árinu sem er að líða var líka lögð áhersla á að horfa til framtíðar og í upphafi árs var stofnaður hópur um frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi í tengslum við 3. hæð Fiskiðjunnar og hópurinn skilaði af sér í mars. Unnið var áfram að verkefninu og komu fleiri aðilar að þeirri vinnu og skiluðu aðgerðaáætlun með verkefnum og  uppbygginu á aðstöðu fyrir nýsköpun- og frumkvöðlastarf og aðra mikilvæga starfsemi. Afraksturinn er fjöldi verkefna sem skapað geta atvinnu í Vestmannaeyjum og jafnframt verðmæti fyrir samfélagið. Nauðsynlegt er að huga að innviðum og var það mikilvægt skref að hefja vinnu við ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum á þessu ári. Því stóra verkefni verður haldið áfram á því næsta. Áhersla bæjarstjórnar, á þessu kjörtímabili,  hefur einnig verið á fræðslu- og fjölskyldumál og gott dæmi um það er átak sem ráðist  hefur verið í varðandi tölvu- og upplýsingavæðingu GRV. Á næsta ári verður Grunnskóli Vestmannaeyja þátttakandi í metnaðarfullri menntarannsókn sem kynnt verður betur á nýju ári.

Bjartsýn á næsta ár

Rekstur sveitarfélagsins hefur gengið vel þrátt fyrir erfitt ár og staða bæjarsjóðs verður því áfram sterk. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu líka á næsta ári í þeirri fjárhagsáætlun sem samþykkt var nú í desember. En það skiptir líka miklu máli að veita áfram góða þjónustu við bæjarbúa og halda uppi öflugri hagsmunagæslu fyrir okkar góða sveitarfélag gagnvart ríkisvaldinu.

Vonir standa til þess að á næsta ári verði loðnuvertíð eftir loðnubrest tvö ár í röð. Þetta skiptir okkar samfélag miklu máli.  Ég vil horfa bjartsýn til næsta árs. Á því ári verður ný slökkvistöð vígð og sömuleiðis þjónustuíbúðir við Strandveg. Gaman verður að fylgjast með undirbúningi að stækkun Hamarsskóla, framgangi ljósleiðarverkefnis og uppbyggingu í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Við erum heppin að búa á þessari eyju. Við erum samfélag sem stendur saman þegar mikið bjátar á. Við erum líka „vertíðarfólk“;  tökum verkefnin oft með áhlaupi og það gerðum við sannarlega árið 2020. Tökum fagnandi á móti nýju ári sem færir okkur ný tækifæri og nýjar áskoranir.

Ég vil þakka Eyjamönnum öllum samfylgdina á þessu afar sérstaka ári og óska ykkur öllum velfarnaðar á nýja árinu.

 

Íris Róbertsdóttir

bæjarstjóri

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.