Eftir Hildi Sólveigu Sigurðardóttur

Krefjandi en lærdómsríkt ár

29.Desember'20 | 09:50
IMG_1290

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Árið sem senn er á enda hefur án efa verið það súrrealískasta sem ég hef upplifað og vonandi mun koma til með að upplifa á minni ævi. Árið byrjaði vel, ég uppfyllti gamlan draum ömmu minnar og flutti nýárspredikun í Landakirkju. 

ÍBV urðu eftirminnilega bikarmeistarar í handknattleik karla og er klárlega einn af hápunktum ársins. Fjölskyldan upplifði sorg á árinu við fráfall Ágústu tengdaömmu sem sárt var að geta ekki kvatt á hefðbundinn hátt sökum fjöldatakmarkana. Árið einkenndist áfram af framkvæmdum á heimilinu eins og margir hafa nýtt þessa skrítnu tíma í, ég tók þátt í Puffin run og Vestmannaeyjahlaupinu en það er aðdáunarvert að ábyrgðaraðilar hafi náð að halda bæði hlaupin með miklum sóma án nokkurra afleiðinga. Fjölskyldan ferðaðist innanlands og heimsótti nýja spennandi staði í bland við gamla góða og við vorum þeirrar einstöku gæfu aðnjótandi í lok sumars þegar létti á sóttvarnarráðstöfunum að geta heimsótt kæra vini okkar til Danmerkur en einnig fengum við marga góða vini í heimsókn hingað í paradís. Þjóðhátíðin varð að heimahátíð og hlakka ég mikið til að geta tjaldað aftur í Herjólfsdal því þrátt fyrir að mikið hafi verið lagt upp úr að halda í hefðirnar er einfaldlega ekki hægt að leika þessa aldagömlu hefð eftir. 

Allir hafa lagst saman á árarnar

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur litað alla fleti ársins, sama hvar stigið er niður fæti og enginn kippir sér t.d. upp við að mæta grímuklæddu fólki eða að enginn heilsist með faðmlögum né handabandi. Sveitastjórnarstörfin voru mun fyrirferðarmeiri að mörgu leyti þetta árið, stíft var fundað þegar ástandið var erfitt hér í sveitarfélaginu hvað varðar smitfjölda en það hefur verið aðdáunarvert og lærdómsríkt að fylgjast með framlínustarfsfólki í sveitarfélaginu, bæði heilbrigðisstarfsfólki, kennurum í leik-, grunn-, og framhaldsskólum, nemendum og í raun öllu atvinnulífinu bregðast við af fordæmalausum sveigjanleika, aðlaga sig að breyttum veruleika og takast á við aðstæðurnar af æðruleysi og metnaði. Það kemur svo sem ekki á óvart í þessu sveitarfélagi að sjá alla leggjast saman á árarnar til að fleyta okkur yfir þessar erfiðu bylgjur en er sannarlega þakkarvert. 

Truflun á starfsemi sjúkraþjálfara

Í sjúkraþjálfuninni hefur árið verið að venju afar fjölbreytt, í byrjun ársins tók ég við styrk frá Landlæknisembættinu fyrir verkefnið Leiðarvísi líkamans þar sem stefnan var sett á að heimsækja fjölmarga grunnskóla og fræða um góða líkamsbeitingu, líkamsstöðu og líkamsvitund en kórónuveiran setti strik í þann reikning og náði ég eingöngu að heimsækja tvo grunnskóla áður en allt var sett í lás en næsta ár verður þeim mun annasamara fyrir vikið.  Almenn starfsemi sjúkraþjálfara truflaðist í fyrstu bylgju og gátum við ekki sinnt okkur störfum óhindrað en bráðaþjónusta, heimaþjónusta og fjarþjónusta í gegnum síma og/eða tölvur urðu þau störf sem við sinntum fyrst og fremst í þeim aðstæðum. Fyrirlestrar sem ég hef gjarnan tekið að mér fóru þetta árið nær allir fram í gegnum fjarfundarbúnað. Helst hef ég áhyggjur í dag af lokunum líkamsræktarstöðva sem hafa reynst fólki erfiðar og vona ég innilega að starfsemi þeirra geti hafist að einhverju marki sem allra fyrst því afleiðingar af auknu hreyfingarleysi munu reynast okkur sem samfélagi dýrkeyptar. 

Samvinna og átök í pólitíkinni

Fyrri hluti ársins einkenndist af mikilli samvinnu og tíðum fjarfundum í sveitarstjórn vegna viðbragða í tengslum við heimsfaraldur en það urðu líka mikil deiluefni innan bæjarstjórnar á borð við kaup á húsnæði Íslandsbanka, fjölgun bæjarfulltrúa, að setja eigi aftur á laggirnar stöðugildi hafnarstjóra, opinberun persónulegra tölvupósta ofl. En samvinna og samstaða jafnframt um aðra hluti á borð við nýjan samning Herjólfs ohf. um áframhaldandi rekstur ferjunnar, áætlunarflug yfir vetrartímann sem þarf þó að auka enn frekar enda flugið mikilvæg samgönguleið fyrir íbúa, nýja framkvæmdaaðila að eldri hugmynd um baðlón í Vestmannaeyjum, tillögu Sjálfstæðismanna við fjárhagsáætlunargerð; Veldu Vestmannaeyjar og margt fleira. Auk þess var ánægjulegt að stöðugildi lögreglustjóra var auglýst að nýju en í viðbrögðum við kórónaveirunni kom bersýnilega í ljós hversu mikilvægt það er að hafa lögreglustjóra í sveitarfélaginu í þeim aðgerðum sem grípa þurfti til. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hingað til og munu hér eftir halda áfram að berjast fyrir góðri og fjölbreyttri þjónustu við bæjarbúa, að fjölbreytt atvinnulíf fái að dafna í samfélaginu og á sama tíma er það keppikefli okkar að fara eigi vel með sameiginlega sjóði sveitarfélagsins, fjármuni sem íbúar afla með ósérhlífnum störfum sínum á degi hverjum. Því þótt hægt sé að kaupa sér tímabundnar vinsældir með fjárútlátum þá á endanum er hvert orð járnfrúarinnar Margaret Thatcher sannara: ,,eventually you run out of other people’s money”. 

Færumst nær frelsinu

Á þessum tímum hef ég verið afskaplega þakklát fyrir fjölskylduna mína því þegar takmarka þarf verulega þá aðila sem maður hefur samskipti við var gott að geta átt gæðastundir með maka, börnum og nánustu fjölskyldu. Ég sakna að sjálfsögðu gæðastunda með vinum og félögum og ekki síst ömmum sem dvelja á hjúkrunarheimilum en veit að fagnaðarfundirnir verða þeim mun meiri þegar allt fer að komast í hefðbundnari skorður. 

Ég vil að endingu óska bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári um leið og ég þakka einlæglega að komið sé að leiðarlokum þessa furðulega árs sem hefur þó kennt okkur eitt og annað, á borð við hversu mikilvægt er að njóta augnabliksins, það hefur opnað augu okkar fyrir möguleikum í fjarnámi og fjarvinnu, kennt okkur að meta það sem virkilega skiptir máli og síðast en ekki síst hversu dýrmætt frelsið okkar er, hvort sem það er til athafna, ferðalaga, viðskipta, hreyfingar eða samneytis við aðra. Slík inngrip í frelsi manna hafa líklega ekki sést nema í styrjöldum og í kjölfar þeirra en vissulega hefur mannkynið verið að heyja stríð við þessa veiru. En við sjáum fyrir lokin á styrjöldinni þar sem að mikilvægasti liðsaukinn, bóluefnið, er tilkomið þökk sé menntun, vísindum og lyfjafyrirtækjum og verður lykillinn að endurheimt þess dýrmæta frelsis sem við vorum farin að taka sem sjálfgefnu. 

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum 

 
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).