Alfreð Alfreðsson skrifar:

Til hamingju með daginn Færeyingar

19.Desember'20 | 14:03
jardgong_faereyjar

Í dag, laugardaginn 19. Desember 2020 vígja færeyingar Austureyjagöngin sem vakið hafa heimsathygli en þau tengja þrjár eyjar með hringtorgi.

Færeyingar vígja nýju glæsilegu neðarsjávargöngin sín, Austureyjar- og Sandeyjagöngin í dag. 

Í tilefni þess er kannski ástæða til þess að fara nokkrum orðum um munin á okkar og þeirra þjóðfélagi og jafnframt hvernig við höfum í gegnum tíðina getað leitað ráða hjá þessari úrræðagóðu þjóð sem allt virðist leika í höndunum á.

Sá hlær best

Íslendingar og færeyingar eiga það til að gera grín hvorir að öðrum og leikur þá tungumálið yfirleitt aðalhlutverkið, enda náskyld. Mörg orð hljóma skringilega og geta haft þveröfuga merkingu eftir því hvort málið á við. Íslendingar áttu það líka til að segja að víkingarnir „mikilfenglegu“ hafi skilið þá sjóveiku eftir í Færeyjum, færeyingar væru ekkert annað en sjóveikir víkingar.

Góðir lærifeður

Staðreyndin er sú, að færeyingar hafa kennt okkur margt og sagan sýnir okkur að enn kunna þeir að kenna þessari útnáraþjóð í norðri. Meðan landinn svalt var nægan mat að finna í hafinu kringum landið. Á ofanverðri nítjándu öld fóru færeyskir sjómenn að venja komur sínar til Íslands og hófu fiskveiðar hér. Svo rammt kvað að veiðum þeirra í austfirskum fjörðum að ráðamenn þeirra staða lögðu land undir fót og kvörtuðu við yfirvaldi fyrir sunnan, færeyingar væru að tæma fiskinn úr fjörðunum. Kringum 1930 er talið að á fjórða þúsund færeyingar stunduðu fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Þegar mest lét voru kringum 150 færeyskir bátar hér að veiðum, þeir byggðu upp aðstöðu til fiskvinnslu á fjörðum fyrir austan, réðu íslendinga til vinnu og hófu uppbyggingu byggðarlaga sem með tíð og tíma uxu þegar landinn fór að yfirgefa sveitir landsins í leit að betra lífi.

Íslendingar voru fljótir að sjá hvað bátar færeyinga voru vel byggðir og hentuðu vel við íslenskar aðstæður. Það varð til þess að íslendingar hófu að kaupa báta frá færeyjum eins og enginn væri morgundagurinn. Árið 1903 fengu Vestmannaeyingar færeying að nafni Jakob Biskupstöð til að koma til eyja og byggja bátana sína hér. Jakob breytti meira að segja byggingarlagi bátanna svo þeir hentuðu aðstæðum í kringum Vestmannaeyjar betur. Þarna lærðu eyjamenn handtökin af Jakob og framundan var blómlegt tímabil skipasmíða í Vestmannaeyjum, nokkuð sem við erum stolt af og sýnum í verki með glæsilegu viðhaldi eina bátsins sem eftir er og smíðaður er af okkar handsverksmönnum, sýningargripsins Blátinds sem skartar öllu sínu besta á eyðinu þar sem Ingólfur slátraði þrælunum forðum. Það er ýmsu slátrað á eyðinu.

Samtaða í stað sundrungar

Í dag lítum við ekki á víkingana sem námu Ísland sömu augum og gert hefur verið í gegnum tíðina. Margir þeirra voru siðblindir glæpamenn, morðingjar og þjófar sem hikuðu ekki við að ræna fólki, gera það að þrælum sínum og konur að ambáttum. Það skyldi þó ekki vera svo, að þeir sem urðu eftir í Færeyjum hafi ekkert litist á rumpulýðinn sem þeir voru í slagtogi við og ákveðið að verða frekar eftir en að fylgja þeim á heimsenda. Var vitið kannski skilið eftir í Færeyjum fyrir 1100 árum síðan?

Orkuframleiðsla á Suðurey

Á Suðurey búa 4600 manns. Þar er atvinnustarfsemi svipuð og í Vestmannaeyjum. Til að leysa orkumál sín reistu þeir fjórar vindmillur. Vindmillurnar skapa næga orku fyrir eyjuna, en öll umframorka er notuð til að dæla sjó í uppistöðulón og þegar vindurinn svíkur myllurnar tekur vatnið við raforkuframleyðslunni. Færeyingar eiga sínar vindmyllur sjálfir, engir norðmenn.

Neðansjávargöng og ferjur

Færeyingar vita að það er ekkert vit að ætla ferjum að sinna samgöngum þeirra til framtíðar. Síðasta virkið fellur þegar göng verða lögð til Suðureyjar. Þangað siglir ferjan Smyrill sem var byggður 2006. Smyrill hefur 23ja mílna siglingarhraða en milli Þórshafnar og Suðureyjar er svipuð vegalengd og milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Í ljósi þess að árið 2021 er að fara að líta dagsins ljós ætla færeyingar að láta byggja nýjan Smyril sem mun hafa yfir 30 mílna hraða og hann á að nægja þangað til göngin leysa hann, síðustu ferjuna af hólmi. Suðureyjagöng verða 26 kílómetra löng, 8 kílómetrum lengri en göng milli lands og eyja. Þannig hugsar þjóð sem lifir á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Þannig hafa færeyingar alltaf verið skrefinu á undan okkur. Samstaða þeirra er til fyrirmyndar og þeir hugsa til framtíðar.

Sameiningarkosningar

Framundan eru kosningar um sameiningu sveitarfélaga hér fyrir norðan okkur. Einhverra hluta vegna eru Vestmannaeyjar ekki inni í þessu dæmi. Hvernig væri að við færum í sameiningaviðræður.... við Færeyinga. Þá fengjum við kannski göng.... líklega til Færeyja.

Í dag, laugardaginn 19. Desember 2020 vígja færeyingar Austureyjagöngin sem vakið hafa heimsathygli en þau tengja þrjár eyjar með hringtorgi. Færeyingar, til hamingju með daginn. Framsýni ykkar er til mikillar fyrirmyndar.

 

Alfreð Alfreðsson

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).