Heimsóknarreglur yfir jólahátíðina á Hraunbúðum

16.Desember'20 | 18:37
elliheimilid_20

Hraunbúðir. Ljósmynd/TMS

Stjórnendur Hraunbúða hafa sett upp ákveðnar heimsóknarreglur fyrir jólahátíðina á Hraunbúðum út frá tilmælum almannavarna.  

Í tilkynningu á vef Hraunbúða segir að auðvitað sé freistandi að hafa reglurnar slakari hjá okkur því ekki hafa greinst smit á eyjunni síðustu vikurnar EN líklega er það mikilvægara nú sem aldrei fyrr að halda dampi og klára þetta tímabil heimsfaraldurs með ítarlegri aðgát. Markmiðið er alltaf að minnka líkurnar á að smit berist inn á heimilið.  Á eyjuna streymir  fólk frá öðrum stöðum á landinu og erlendis frá til að halda jólahátíðina með fjölskyldum sínum, við höfum því áhyggjur af því að auknar líkur séu á að sýking geti komið upp í samfélaginu.

Við erum að fara að upplifa öðru vísi jól, en við erum líka að ganga í gegnum okkar eina/síðasta heimsfaraldur í lífinu, við trúum því að minnsta kosti.  Það er ljós við enda ganganna og svo ótrúlega stutt í að bólusetningar hefjist og við getum farið að lifa frjálsara og eðlilegra lífi.  Við ræddum þetta við nokkra heimilismenn í vikunni og vorum að pæla í hvort við gætum ekki bara frestað jólunum en einni fannst besta hugmyndin að halda bara vel upp á hvítasunnuna í staðinn og önnur var viss um að það yrði risapartý um páskana.  En auðvitað höldum við jól, bara aðeins öðru vísi í ár. 

Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að njóta samveru, hátíðleika og væntumþykju þótt hátíðarkvöldverður á aðfangadagskvöld sé ekki snæddur saman. Samveran sjálf er svo mikilvæg.  Þið getið skapað ykkar eigin hátíðar- og jólastund með ættingja ykkar. Tökum sem dæmi að hægt er að sitja saman inn á herbergi íbúa og opna jólapakka, hlusta á jólatónlist og njóta hátíðleikans og þess að vera saman

Eftirfarandi verða reglur á Hraunbúðum um jólahátíðina :

 1. Mælst er gegn því að íbúar fari í boð til ættingja yfir jólahátíðina, ef íbúi fer út gilda ákveðnar reglur um sóttkví sem hægt er að kynna sér nánar hjá stjórnendum Hraunbúða.
 2. Eftir hádegi á aðfangadag verður opið fyrir heimsóknir milli kl 13:00-17:00
 3.  Eftir að íbúar og starfsfólk hafa snætt hátíðarkvöldverðinn kl 18 á aðfangadag er möguleiki á heimsóknum milli kl 20:00-22:00 og þá inn í einkarými íbúa/herbergi. Ath ekki er opið fyrir heimsóknir á matmálstímum. 

Njótið rafrænna samskipta. Sá sem kemur í heimsókn getur tengst öðrum ættingjum í gegnum netið. Þannig er hægt að skapa hátíðlega samverustund með fleirum en heimsóknargestinum sjálfum. Við erum að nota messenger.

 1. Tveir gestir hafa leyfi til að heimsækja hvern íbúa aðfangadag (24. des), jóladag (25. des), á annan í jólum (26.des), á gamlárdag (31.des) og á nýársdag (1.jan) á tímabilinu 13-17. 
 2. Sömu tveir gestir mega koma þessa daga en þurfa að skrá sig fyrirfram á vakt@vestmannaeyjar.is.
 3. Börn undir 18 ára hafa leyfi til að koma í heimsókn, en þá teljast þau annar af þessum tveimur gestum.
 4. Munið að spritta hendur við komu og áður en þið yfirgefið heimilið.
 5. Allir gestir þurfa að koma með andlitsgrímu (maska). Óheimilt er að koma með taugrímu.
 6. Vinsamlega hafið grímuna á ykkur allan tímann á meðan heimsókn stendur.
 7. Vinsamlega farið beint inn á herbergi íbúa, ekki stoppa og spjalla á leiðinni. Ef íbúi er ekki inni á herbergi þá biðjið þið starfsfólk að sækja hann, ekki gera það sjálf.
 8. Virðið 2ja metra regluna og forðist snertingu við íbúa.
 9. Heimilt er að fara með íbúa út í göngutúr í nærumhverfi á meðan heimsókn stendur.
 10. Undanþága frá þessu er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vaktstjóra

Vinsamlega EKKI koma inn á Hraunbúðir ef :

 • Þú ert í sóttkví eða einangrun.
 • Þú bíður eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
 • Þú ert með flensulík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
 • Þú varst erlendis fyrir minna en 14 dögum.

Mikilvægt er að þeir sem eru að koma í heimsókn sýni sérstaka aðgát varðandi fjölda þeirra sem þeir umgangast og sýni sérstaka aðgát nálægt eða forðist þá sem hafa verið erlendis og komið hafa frá höfuðborginni nýlega.

Kærar þakkir fyrir samstöðuna og gleðilega öðruvísi jólahátíð, segir í tilkynningu frá stjórnendum Hraunbúða.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.