Hildur Sólveig Sigurðardóttir skrifar:

Trúnaðarbrestur innan bæjarstjórnar

19.Nóvember'20 | 13:47
hss_ads_2020

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Undirritaðri kom það í opna skjöldu við lestur fundargerðar bæjarráðs að tölvupóstur sem ég sendi persónulega á bæjarstjóra í byrjun nóvember var gerður að opinberu fylgiskjali á vefsíðu sveitarfélagsins að mér forspurðri.

Innihald tölvupóstsins upplýsandi

Í tölvupóstinum voru engin hernaðarleyndarmál, þar var einfaldlega verið að óska eftir upplýsingum um kostnað vegna stöðugilda, forsendum ákvörðunartöku vegna ráðningamála og upplýsingum um upphæðir vegna hagræðinga. Eitthvað sem sannarlega er hlutverk kjörins fulltrúa í minnihluta að spyrjast fyrir um í aðdraganda umræðna um fjárhagsáætlun og hefði jafnvel verið enn fróðlegra fyrir áhugasama ef svör bæjarstjóra hefðu fylgt með en bæjarráð virðist ekki telja að þær upplýsingar eigi erindi við almenning.

Upplýsingaflæði takmarkað                             

Þessi vinnubrögð bæjarráðs koma í kjölfarið á því að undirrituð bókaði afgerandi á síðasta bæjarstjórnarfundi um hversu mikið hefur hægt á upplýsingaflæði til kjörinna fulltrúa eftir að þeim var gert að beina öllum fyrirspurnum sínum til bæjarstjóra, pólitískt kjörins embættismanns, en ekki til annarra óháðra starfsmanna sveitarfélagsins. Slíkt lengir boðleiðir enda bæjarstjóri væntanlega einn uppteknasti starfsmaður sveitarfélagsins. Í 18. grein bæjarmàlasamþykktar stendur skýrt að bæjarfulltrúi skuli eiga eðlilegan aðgang að skrifstofu, stofnunum og starfsfólki bæjarfélagsins í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi bæjarfélagsins og rekstur. 

Grefur undan trúnaði sem hefur verið til staðar til þessa

Þau vinnubrögð sem bæjarráð sýndi af sér með birtingu þessa tölvupóstar í leyfisleysi eru til þess fallin að valda verulega skertu trausti á samskiptum og trúnaði kjörinna fulltrúa við æðsta embættismann sveitarfélagsins. Samskiptum og trúnaði sem hafa haldið vel hingað til í málum sem snúa að miklum hagsmunum samfélagsins og hafa einkennt umræður og ákvarðanatöku vegna t.d. samgöngumála og heilbrigðismála. Héðan í frá mun undirrituð þó þurfa að muna að öll mín framtíðarsamskipti við bæjarstjóra í gegnum tölvupóst munu hugsanlega verða birt opinberlega án þess að ég hafi svo mikið sem andmælarétt.

Vegið að jafnræðisreglu

Í bæjarráði kemur einnig fram: ,,Auk þess er eðlilegt þegar einn bæjarfulltrúi óskar eftir upplýsingum, að aðrir bæjarfulltrúar fái sömu upplýsingar, til þess að geta kynnt sér efni sem um ræðir. Þessi leið er því fyrst og fremst hugsuð til að efla fagmennsku við meðferð fyrirspurna og upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa”.  Varla er undirrituð eini bæjarfulltrúinn sem hefur sent fyrirspurnir til bæjarstjóra um hin ýmsu málefni? Aldrei á kjörtímabilinu hafa áður verið opinberaðar með sama hætti fyrirspurnir annarra kjörinna fulltrúa og því eru fyrirspurnir undirritaðrar teknar út fyrir sviga. Ég geri því fastlega ráð fyrir að á fundum bæjarráðs héðan í frá verði liður þar sem allar fyrirspurnir allra bæjarfulltrúa til bæjarstjóra hvar sem í flokki þeir standa verði bókaðar inn sem fylgigögn ef fylgja á þessum orðum bæjarráðs og stjórnarskrárvarinnar jafnræðisreglu. 

Valkvætt gegnsæi

Núverandi meirihluti bæjarstjórnar boðaði í aðdraganda kosninga aukið gegnsæi en það gegnsæi virðist vera valkvætt. Það er í lagi að birta fyrirspurnir ákveðinna bæjarfulltrúa en ekki allra. Það eru bara birtar fyrirspurnir en ekki svör. Í öðrum lið á sama fundi bæjarráðs var tekið fyrir erindi frá PWC þar sem óskað var eftir því að bréf frá þeim yrði tekið til efnislegrar umræðu og að því yrði svarað, samt er hvorki það bréf né svar gert opinbert þó óskað hafi verið sérstaklega eftir að efni þess væri rætt í bæjarráði. Af hverju skyldi það vera?

Samstarf er ekki einstefnugata

Að lokum má ég til með að nefna bókun formanns bæjarráðs við þetta mál, sem ég mun ekki fara fram á að hann dragi til baka líkt og hann fór fram à við mig à síðasta bæjarstjórnarfundi, því ég vil standa vörð um mál- og tjáningarfrelsi allra starfsmanna sveitarfélagsins, hvar svo sem í flokki þeir standa enda grunnmannréttindi í lýðræðissamfélögum. Í bókuninni óskar formaðurinn þess að samstarfið væri meira með þeim hætti sem það er á Akureyri, en gleymir hentuglega að þar var gerður samstarfssáttmáli, embættum og ábyrgð skipt meðal fulltrúa allra framboða. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa teygt sig langt í óskum um aukið samstarf á kjörtímabilinu, formlega óskað eftir varaformennsku í ráðum og nefndum sveitarfélagsins eins og hefð var fyrir minnihluta à síðasta kjörtímabili þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta. Því var hafnað m.a. af formanni bæjarráðs. Eins þegar formannsskipti voru á kjörtímabilinu í ráði buðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fulltrúa sinn en aftur var þeim hafnað, m.a. af formanni bæjarráðs. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið, eru og munu ávallt vera reiðubúnir til samstarfs um hagsmuni Vestmannaeyjabæjar og munu nú sem áður berjast fyrir samfélaginu af öllum mætti. Þrátt fyrir hindranir meirihlutans og sífelldar tilhæfulausar staðhæfingar formanns bæjarráðs um að samstarfi sé lokið. Því er ekki og verður aldrei lokið amk. af okkar hálfu. Undirrituð er oddviti þess framboðs sem flestir íbúar lögðu traust sitt á í síðustu kosningum og mun áfram leggja sig alla fram líkt og aðrir kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að vinna að hagsmunum íbúa og bæjarfélagsins eftir þeirri stefnu og hugsjónum sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á.

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokks Vestmannaeyja

 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).