Minning: Kristinn Guðni Ragnarsson
4.Nóvember'20 | 06:50Æviágrip. Kristinn Guðni Ragnarsson pípulagningameistari fæddist í Vestmannaeyjum 08. desember 1962. Hann lést á heimili sínu 25. október 2020.
Foreldrar hans voru Ragnar Guðnason sjómaður frá Steini f. 07. janúar 1942 í Vestmannaeyjum og Ásta Kristinsdóttir f. 08. ágúst 1942 frá Skjaldbreið í Vestmannaeyjum.
Kristinn Guðni átti eina systir, Guðrún Bjarný f. 06. október 1959 í Vestmannaeyjum. Eiginmaður hennar var Þorvarður Vigfús Þorvaldsson f. 20. nóvember 1956 d. 09. janúar 2015.
Kristinn Guðni giftist Sesselju Birgisdóttir f. 24. janúar 1962 í Keflavík, foreldrar hennar voru Guðrún Guðnadóttir húsmóðir í Keflavík, f. 3. september 1932, d. 02. apríl 1982 og Birgir Axelsson, fiskverkandi í Keflavík f. 21. ágúst 1932, d. 14. desember 2001.
Athöfninni hefst klukkan 13.00 í dag og verður henni streymt á netinu.
Kristinn Guðni Ragnarsson, minning
Babú-babú öskruðu peyjarnir í Eyjum hlaupandi í halarófu gólandi í takt við sírenur slökkviliðsbílanna þegar kviknaði í og brunalúðurinn ómaði í fjöllunum svo það fór ekki fram hjá neinum hvað var í gangi. Kiddi var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að elta slökkviliðið þegar það var kallað út en afi hans og nafni, Kiddi á Skjaldbreið var slökkviliðsstjóri í Eyjum.
En það var ekki fyrr en Kiddi var kominn til sjós og léttlyndu félagarnir búnir að stofna æslafélagið Klakabandið að þeir fóru að kalla hann Kidda babú. Það þekkja fáir Eyjamenn Kristinn Guðna en nær allir vita hver Kiddi babú er. Þannig verða viðurnefnin að aðalnöfnum. Ég hef stundum verið að segja gömlum Eyjamönnum að Kristinn Guðni sé sonur hans Ragga í Steini og Ástu frá Skjaldbreið. Menn standa alveg á gati og kannast ekki við neinn Kristinn Guðna. Á hann Raggi í Steini peyja, ja hérna. Svo þegar maður segir já hann Kidda babú, já þú meinar, auðvitað veit ég hver hann er. Babú-inn, það þekkja hann allir. Þetta er stutta lýsingin á viðurnefnaútgáfu Eyjamanna.
Klakabandið var ekki klúbbur kórdrengja. Nei það var félagsskapur harðduglegra sjómanna, eyjapeyjar og pæjur sem kunnu tökin á lífinu þegar hart var sótt á sjóinn, tekjurnar miklar og skemmtanalífið í stórskalaútgáfu sem passaði vel við tekjurnar á sjónum. Þar var töluð hrein íslenska og engum hlíft og alls ekki þeim sem átti afa sem slökkviliðsstjóri. Austur-Þýskur Trabant var kostulegur bíll og Klakabandið pantaði sjö slíka til Eyja. Það mátti ekki minna vera. Þegar þeir höfðu keypt steríógræjur í bílanna kostuðu þeir tvöfalt verð því græjurnar voru dýrari en bílarnir. En þrátt fyrir dugnað á sjónum og mikilfenglegt Klakabandið gleymdi Kiddi ekki að undirbúa sig fyrir lífið. Hann náði að mennta sig sem pípulagningamaður milli úthalda og varð meistari í greininni 1988. Ég man vel eftir Kidda á þessum árum þó vinátta okkar hafi skotið rótum í Keflavík.
Hann var ótrúlega mikill Eyjamaður í sér og frá fyrstu kynnum fann ég hversu traustur maður hann var. Kiddi var öruggur með sig enda mikill verkmaður og hafði góða yfirsýn yfir verkefni sín sem pípulagningarmaður. Ég held að allt neftóbakið sem hann mokaði í fíngert nefið hafi opnað beina leið upp í heila, beint í æð fyrir hreina og klára hugsun. Hann tók samt stundum gamla Klakabandsfílinguna á þetta og við vinirnir áttum það sameiginlegt að vera stöðugt að taka á lífinu okkar, styrkleikum sem veikleikum.
Kiddi bætti meira í nefið þegar hann átti í vök að verjast í baráttunni við krabbann. Hann mætti þjáður til vinnu og mundaði rörtöngina með samanbittnar varir og svaraði verkjunum með stærri skömmtum af neftóbaki að hætti Týrara. Hann ætlaði að klára stóra verkið sem hann tók að sér hjá Bygg hvað sem það kostaði, hann var jaxlalegur í vinnugallanum með neftóbakstaumana niður á höku og var að gera bestu vertíðina í lífinu. Hann var alltaf klár í fyrstu bauju en það var ekki nóg því baráttan við veikindin var barátta upp á líf og dauða.
Síðustu dagarnir voru heima í faðmi fjölskyldunnar. Börnin hans öll elskuðu hann og yngstu peyjarnir kölluðu hann alltaf afa babú. Kiddi var stoltur af viðurnefninu, ánægður með gömlu vinina og fjölskylduna alla sem elskaði hann. Þegar við tókumst í hendur í síðasta skipti sagði hann, „þetta er allt aftur á bak Ási minn.“ En ég held að nú keyri hann Trabantinn með himinskautum, fulllestað nefið af tóbaki, steríógræjurnar í botni og tekur gömlu sírenuna á þetta og kallar út í kosmóið babú-babú.
Ég votta Sesselju, foreldrum Kidda og fjölskyldunni samúð.
Ásmundur Friðriksson.
Höfundur: Ásmundur Friðriksson.
F. í Reykjavík 21. jan. 1956. For.: Friðrik Ásmundsson (f. 26. nóv. 1934) skipstjóri og skólastjóri og Valgerður Erla Óskarsdóttir (f. 24. maí 1937). M. Sigríður Magnúsdóttir (f. 26. jan. 1958) matráður. For.: Magnús G. Jensson og Kristín Guðríður Höbbý Sveinbjörnsdóttir. Börn: Ása Hrönn (1982), Erla (1984), Magnús Karl (1991). Sonur Ásmundar og Sigurlaugar Sigurpálsdóttur: Friðrik Elís (1975). Stjúpdóttir, dóttir Sigríðar: María Höbbý Sæmundsdóttir (1977).
Gagnfræðapróf Skógaskóla 1973.
Stundaði netagerð og sjómennsku 1970-1972. Vann við hreinsun Heimaeyjar sumarið 1973. Verkstjóri hjá Viðlagasjóði við hreinsun og endurreisn og uppgræðslu Heimaeyjar 1974-1978. Framleiðslu- og yfirverkstjóri hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja 1978-1986. Sjálfstætt starfandi blaðamaður 1980-2003. Framkvæmdastjóri Samkomuhúss Vestmannaeyja 1986. Rak fiskvinnslufyrirtækið Kútmagakot ehf. 1988-2003. Framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur 2004. Verkefnastjóri Ljósanætur 2006. Verkefnastjóri í atvinnu- og menningarmálum hjá Reykjanesbæ 2008. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2009-2012.
Í þjóðhátíðarnefndum Vestmannaeyja 1974-1996. Formaður handknattleiksdeildar Þórs 1974-1978. Formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna, 1981-1984. Í stjórn SUS 1983-1987. Í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Eyjum 1982-1986.Formaður íþrótta- og tómstundaráðs Vestmannaeyja 1982-1986. Formaður ÍBV 1994-1999. Formaður knattspyrnudeildar ÍBV 1999-2002. Stofnandi og formaður hollvinasamtaka Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, NLFÍ, 2005-2011. Í stjórn Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ 2007-2008. Stofnandi Lista- og menningarfélagsins í Garði 2009. Stjórnandi listaverkefnisins Ferskir vindar í Garði 2010. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garði frá 2012.
Alþm. Suðurk. síðan 2013 (Sjálfstæðisflokkur).
Atvinnuveganefnd 2013-, velferðarnefnd 2013-.
Ritstjóri: Fylkir, málgagn sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum (1986-1988).
Minning: Ingimar Ágúst Guðmarsson
16.Janúar'21 | 11:51Minning: Páll Árnason
15.Janúar'21 | 10:15Á að loka framtíðina inni?
15.Desember'20 | 07:45Kjánahrollur
11.Nóvember'20 | 09:15Gerum meira en minna
7.September'20 | 14:48Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans
22.Maí'20 | 09:15Efnahagsaðgerðir í þágu Suðurlands
27.Apríl'20 | 11:10Sjálfbærni Íslands með garðyrkjuafurðir og olíu
24.Febrúar'20 | 08:53Minning: Leif Magnús Grétarsson Thisland
8.Janúar'20 | 14:20Erum á góðri leið, en viljum gera betur
31.Desember'19 | 11:50
Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net
31.Janúar'18Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn
17.September'19Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar
Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).