Guðbjartur Ellert kveður Herjólf sáttur

3.Nóvember'20 | 13:53
bjartur_sv_hv

Guðbjartur Ellert Jónsson á kæjanum í Eyjum.

Talsvert hefur gustað um Herjólf ohf. síðan félagið var stofnað árið 2018. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri hefur leitt félagið nánast frá stofnun þess. Hann hefur nú ákveðið að róa á önnur mið. 

Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Guðbjart Ellert um félagið sem er eitt mest umtalaða fyrirtækið í Vestmannaeyjum, lífið í Eyjum og ákvörðun hans um að segja skilið við Herjólf ohf. á þessum tímapunkti.

Félaginu tókst að ná markmiðum sínum um aukna þjónustu

„Frá því að ég kom til starfa fyrir Herjólf ohf. í október 2018 má segja að margt hafi drifi á daga framkvæmdastjóra og starfsmanna félagsins. Mikil óvissa ríkti um afhendingu nýju ferjunnar og urðu lyktir þær að félagið hóf rekstur á Herjólfi III og er honum siglt til júlíloka 2019. Herjóflur nýji kemur til Vestmannaeyja um miðjan júní sama ár. Félagið er því á háönn að halda úti reglubundnum siglingum og á sama tíma að gera nýju ferjuna rekstrartæka. Fylgikvillar hafa vissulega verið nokkrir en eins og gefur að skilja þá fylgir nýjum skipum alltaf einhverjir byrjunarerfiðleikar.  Nýi Herjólfur hefur tvisvar farið í slipp, annars vegar á Akureyri í september 2019 og svo núna nýlega í Hafnarfirði. 

Nauðsynlegir innviðir hafa ekki að fullu verið klárir og má m.a. nefna að fyrst núna er nýlokið við að koma rafhleðslubúnaði upp í Landeyjum en í byrjun árs var þessi búnaður kominn upp í Vestmannaeyjum. Það er því fyrirséð að forsendur frá því að ferjusiglingar hófust hjá félaginu 30. mars 2019 hafa tekið miklum breytingum á þessu tímabili.  

Engu að síður hefur félaginu tekist að ná markmiðum sínum um aukna þjónustu í samgöngum milli Vestmannaeyja og lands. Ég held að það hafi tekist nokkuð vel við erfiðar aðstæður. Það er mikilvægt fyrir samfélag eins og Vestmannaeyjar að geta treyst á góðar samgöngur til framtíðar.” segir Guðbjartur.

Var varaður við

Nú hefur þú tekið ákvörðun um að hætta störfum fyrir félagið. Hvað var til þess að þú ákveður það nú?

Já það er rétt. Við hjónin tóku þessa ákvörðun en hún var ekki einföld. Þegar ég réð mig til starfa í október 2018 gerði ég mér grein fyrir að verkefnið var háð samningum um ferjusiglingar en sveitarfélagið hafði gert samning við ríkið um 2ja ára samning. Nú eru liðin tvö ár og tímabilið búið að vera krefjandi og hver nýr dagur viðburðaríkur. Ég gaf allt í þetta verkefni enda spennandi á margan hátt en líka gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið. Þannig að eftir góða umhugsun tókum við ákvörðun um að taka nýja stefnu og flytja að nýju á heimaslóðir. Þessi tímamót eru líka best til þess fallinn fyrir félagið að gera breytingar.

Kom þér eitthvað á óvart þegar þú flytur hingað og tekur til starfa?

Nei, í rauninni ekki en viðtökur íbúa og samfélagsins hafa verið góðar og ég hef ekki fundið annað en velvilja og ánægju. Ég var vissulega varaður við að ég væri að taka að mér erfiðasta verkefnið sem hægt væri að finna í Eyjum en ég hef ekki fundið fyrir því. Kannski vegna þess að markmið félagsins hefur alltaf verið skýrt og okkur tókst að auka og bæta þjónustu við samfélagið. En utan vinnunnar þá féll ég fyrir Eyjum enda mikil fegurð og svo allt öðruvísi en umhverfið sem ég kom úr.

Tækifæri skapast ekki fyrr en stöðuleiki og öruggar samgöngur eru til staðar

Þegar þú lítur til baka – er þá eitthvað sem þú hefðir viljað hafa gert öðruvísi hjá félaginu?

Já, já, auðvitað eru alltaf einhverjir hlutir sem maður hefði viljað gera með öðrum hætti en í stóra samhenginu skiptir það ekki máli. Verkefnið er skýrt og markmiðin liggja fyrir. Það eitt og sér skiptir höfuð máli. Félaginu hefur tekist að halda þeirri stefnu og ég er þess fullviss að sú vegferð mun halda áfram.

Telur þú sóknarfæri fyrir Herjólf og samgöngur milli lands og Eyja?

Já, alveg klárlega. Herjólfur er eina samgöngukerfið sem er til staðar og með þessari nýju ferju og bættum aðstæðum í Landeyjahöfn þarf að tryggja tíðar brottfarir. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þar sem samgöngur eru lélegar eða ábótavant þar fyrst byrjar hningun. Við þekkjum brotthættar byggðir og því er mikilvægt að íbúar í Eyjum og fyrirtæki sem hér vilja vaxa og dafna hafi sömu tækifæri og aðrir á landinu. Óháð fjölda farþega í ferð á að sigla og sigla. Tækifæri skapast ekki fyrr en stöðuleiki og öruggar samgöngur eru til staðar. Ég veit að innan einhverra ára og svona þegar áhrif Covid veirunnar er lokið mun þurfa að fjölga ferðum milli lands og Eyja sem vonandi mun gefa góða innspýtingu inn í efnahagslífið í Eyjum að nýju.

Þakklátur samfélaginu og samstarfsfólki

Hvað tekur við hjá Bjarti og frú?

Það er góð spurning en við stefnum á að flytjast búferlum til Akureyrar og ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að ég gefi mér góðan tíma í að sinna mínum nánustu og fjölskyldu sem hefur kannski fengið að sitja of lengi á hakanum.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri til bæjarbúa í Eyjum?

Já, ég tel mikilvægt og vona að samfélagið geti sameinanst um það sem skiptir máli í rekstri Herjólfs og styðji þá sem skipa framlínuna á hverjum tíma. Vissulega hafa allir skoðun á málefnum ferjunnar og þá þjónustunnar sem veitt er en stóra málið er siglingaáætlun og tíðar brottfarir. Þetta er það sem skiptir máli fyrst og fremst og er fyrir alla. Annað er í raun aukaatriði.

En að lokum langar mig að þakka, samstarfsfólki mínu, öllu því góða stjórnarfólki sem ég hef starfað með og hefur lagt mikið á sig við erfiðar og krefjandi aðstæður, bæjarstjóra, bæjarráði, kjörnum fulltrúum og síðast en ekki síst öllum íbúum samfélagsins fyrir samferðina, segir Guðbjartur Ellert Jónsson fráfarandi framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).