Ingi studdi ekki afgreiðslu stjórnar KSÍ

27.Október'20 | 11:43
ingi_s

Ingi Sigurðsson situr í stjórn KSÍ.

Aukafundur var haldinn innan stjórnar KSÍ í síðustu viku þar sem reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsótta sem tók gildi 20. október 2020 var á dagskrá.

Fram kemur í bókun stjórnar að stjórn KSÍ hafi farið ítarlega yfir stöðu Íslandsmóta í knattspyrnu og bikarkeppni karla og kvenna vegna takmarkana og banns við æfingum og keppni samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar heilbrigðisráðuneytisins. Þá hefur mótanefnd vaktað þróun mála, fjallað um stöðuna og verið stjórninni til ráðgjafar. Á grundvelli ítarlegrar umræðu samþykkir stjórn KSÍ að mótum meistaraflokka verði haldið áfram í öllum deildum að því tilskyldu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember nk. Í því skyni að draga úr umfangi þeirra leikja sem óleiknir eru samþykkir stjórnin að keppni skuli hætt í öllum yngri flokkum og í eldri flokkum (40+ og 50+). Stjórnin felur mótanefnd að gefa út niðurröðun þeirra leikja sem fyrirhugað er að leika í nóvember.

Stjórn KSÍ hefur áður ályktað um að leitað verði allra leiða til að ljúka mótum í meistaraflokki samkvæmt mótaskrá auk þess sem stjórn ÍTF hefur ályktað á sama veg. Þá hefur verið rætt við fulltrúa fjölmargra félaga og þar hafa komið fram mismunandi sjónarmið.

Ljóst er að þau áform KSÍ að halda áfram keppni ef kostur er, eru háð óvissu og áformin lögð fram í þeirri von að úr því ástandi rætist sem nú blasir við. Með hliðsjón af því og þróun mála næstu daga mun stjórn KSÍ taka ákvörðun um Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna eins fljótt og auðið er.

Standi reglur yfirvalda ekki vegi fyrir því að unnt verði að hefja keppni að nýju í byrjun nóvember munu KSÍ og aðildarfélögin vinna samkvæmt öllum reglum sem settar verða af heilbrigðisyfirvöldum og kappkosta um að fylgja áfram ítrustu sóttvarnarúrræðum.

Veruleg óvissa um hvað tekur við í sóttvarnaraðgerðum yfirvalda þegar núverandi aðgerðum lýkur

Ingi Sigurðsson lagði fram bókun vegna málsins þar sem segir að hann styðji ekki afgreiðslu stjórnar KSÍ í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi í Covid-19 faraldrinum og einnig núverandi stöðu og mögulegt framhald mótamála. Það er uppi veruleg óvissa um hvað tekur við í sóttvarnaraðgerðum yfirvalda þegar núverandi aðgerðum lýkur. Einnig er veruleg óvissa uppi með það hvort og þá hvernig mögulegt verður að ljúka mótahaldi allra deilda með ásættanlegum hætti, og þar koma margir þættir inn. KSÍ og aðildarfélög sambandsins hafa náð að komast eins langt með mótahald og raun ber vitni þrátt fyrir verulegar áskoranir á tímabilinu. Það er vel og þar sem fyrir liggur að engir leikir verða leiknir fyrr en í allra fyrsta lagi vel inn í nóvember þá er uppi veruleg óvissa hvað varðar mótahald á þessum tíma ársins, nokkuð sem ekki þekkist hérlendis varðandi lengd keppnistímabils. Þá verða einnig liðnar rúmar 4 vikur frá því öll lið höfðu tök á að æfa við sem mest eðlilegar aðstæður og því allar aðstæður nú ólíkar varðandi æfingar og keppni komandi fram á þennan tíma ársins. Að mínu mati eiga almannahagsmunir og almenn heilsa að vega verulega stóran þátt í þeirri ákvörðun sem þarf að taka í ljósi gildandi ástands í Covid-19 faraldrinum.

Ég er hins vegar sammála því að í dag komi fram ákvörðun stjórnar KSÍ varðandi framhaldið þar sem reglugerð ráðherra er komin fram, því það er mikilvægt að aðildarfélög sambandsins séu ekki lengur en þörf krefur í óvissu um framhald mótamála, segir að endingu í bókun Inga.

Tags

KSÍ COVID-19

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.