Sagan má aldrei gleymast

- Ef við verðum nógu stórhuga fyrir framtíð Eyjanna og minnumst sögu þeirra og mannlífsins mun það hafa afar jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna í Eyjum sem þarf stuðning til að vaxa og dafna, segir Ásmundur Friðriksson

19.Október'20 | 09:45
eldgos_Svabbi_ads

Barist við eldgos. Árið 2023 verða 50 ár liðin frá Heimaeyjargosinu. Ljósmynd/Svavar Steingrímsson

Í síðustu viku var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að reistur verði minnisvarði á Heimaey um eldgosin í Surtsey og Heimaey. Ásmundur Friðriksson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og hvatamaður að verkefninu.

Nýorðinn 17 ára þegar jarðeldarnir á Heimaey komu nánast upp í túninu heima

En hvernig sér Ásmundur þetta fyrir sét?

Árið 2023 verður einstakt af því leiti að þá verða 60 ár frá því að neðarsjávargosið sem myndaði Surtsey hófst og 50 ár frá jarðeldunum á Heimaey. Ég hugsa oft um þessa tíma, var 7 ára þegar Surtsey byrjaði og gjósa og 11 ára þegar því gosi lauk. Þá var ég rétt nýorðinn 17 ára þegar jarðeldarnir á Heimaey komu nánast upp í túninu heima. Alla tíð síðan hef ég verið mjög upptekinn af þessum atburðum. Í fyrstu bók minni skrifaði ég um reynslu mína í minni fyrstu bók og nú hef ég nánast lokið við bók sem fjallar um stórmerkilega atburði við upphaf Surtseyjargossins og uppákomu við Syrtling í júní 1965. Vegna tímaskorts og veirunnar kemur sú bók ekki út fyrir jólin heldur frestast fram á næsta ár.

Öll mín efnisöflun og vinna við þessa nýju bók hefur sannfært mig meir og meir um það að við Vestmannaeyingar megum ekki gleyma einhverjum merkustu eldgosum Íslands og jafnvel í heiminum á sögulegum tíma. Þetta er orðið svo sjálfsagt fyrir þá sem horfa á sköpunarverkið á hverjum degi og stór hluti íbúa í Vestmannaeyjum fæddist eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Þeirra upplifun er önnur en hjá þeim sem enn eru á lífi og muna þessa tíma og veröldina sem var og það er okkar að tryggja að þessir atburðir falli aldrei í gleymskunnar dá. 

Þessu tengt: Vilja reisa minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey

Sagan er ekki bara jarðfræði heldur stórmerkileg barátta við náttúruöflin þar sem mannslíf voru lögð að veði. Eyjamenn vildu að nýja eyjan yrði nefnd Vesturey og lögðu menn sig í hættu við að koma fyrir borða í mánaðargamalli eyjunni með nafninu Vesturey. Baráttan fyrir því nafni tapaðist fyrir kerfinu og eyjan nefnd Surtsey og ekki kölluð annað í dag.  

Árið 2027 verða 400 ár liðin frá Tyrkjaráninu

Telur þú sóknarfæri fyrir Eyjar þegar kemur að sögunni í kringum eldgosin? 

Ég sé fyrir mér mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum að minnast þessara tímamóta á veglegan hátt sem hefði áhrif til margra ára inn í framtíðina. Reisa hér listaverk sem vekti heimsathygli eða rannsóknarstöð sem kallar til Eyja fjölda áhugamanna og sérfræðinga um þá atburði sem vísindin og áhugafólk vill fræðast um á staðnum þar sem atburðirnir áttu sér stað. Það þarf stórhug Eyjamanna til að minnast þessara tímamóta með reisn sem kallar á fólk. Þingsályktunin mín kallar eftir fólki með slíka sýn á tillögum til ríkisstjórnarinnar af þessu tilefni.

Gleymum því ekki að árið 2027 verða 400 ár liðin frá Tyrkjaráninu sem var svakalegur hildarleikur. Það þarf að koma þeirri sögu fram með gagnvirkri alltumliggjandi sýningu sem færir áhorfandann inn í sögulegar aðstæður. Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika má bjóða þeim sem sækja Eyjar heim að taka þátt í átakamesta atburði á Heimaey þegar algersmenn drápu 36 Eyjamenn og höfðu með sér á brott 242 manns og seldu sem þræla á markaði í Algersborg en 200 manns náðu að fela sig á Heimaey. Við eigum að bjóða fólki að stíga inn í þennan hatrammasta hildarleik Íslandssögunnar sem gerðist í fámennu fiskimannsþorpi á Heimaey 16. júní 1627. Sýndarveruleikinn gerir ferðamenn að þátttakendum í þeim aðstæðum sem uppi voru, fylgjast með landtöku ræningjanna, fela sig í fiskibyrgjum í Fiskhellum, í Hundraðmannahelli og verða vitni og þátttakendur í átökum upp á líf og dauða.

Ef við verðum nógu stórhuga fyrir framtíð Eyjanna og minnumst sögu þeirra og mannlífsins mun það hafa afar jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna í Eyjum sem þarf stuðning til að vaxa og dafna. Góðar samgöngur eru lykillinn en duga ekki einar og sér.

Gott innlegg í eflingu Vestmannaeyja sem ferðamannastaðar

Hefur þú fengið viðbrögð við framkominni tillögu?

Tillagan er nýlega komin fram og ég hef engin viðbrögð fengið en trúi ekki öðru en ég fái viðbrögð frá bæjaryfirvöldum fljótlega. Ég hafði samband við forseta bæjarstjórnar í Eyjum, Elís Jónsson fyrir nokkru og sagði honum að þessi tillaga væri í vinnslu svo það kæmi ekki bratt að honum sem forseta bæjarstjórnar. Það verður vonandi áhugi að vinna að þessu máli sem gæti verið gott innlegg í eflingu Vestmannaeyja sem ferðamannastaðar og myndi auka áhuga vísindamanna á Vestmannaeyjum, jarðfræðinni þar og samfélaginu.

Býður sig fram í komandi kosningum

Nú styttist í þingkosningar og einhverjir farnir að tilkynna um framboð. Ert þú búinn að ákveða hvað þú hyggst gera í komandi kosningum?

Þegar kosið verður til Alþingis í september á næsta ári verð ég búinn að vera rúm 8 ár á þingi. Það er góður tími og ég hef aflað mér mikillar reynslu. Ég hef staðið með sjálfum mér og fylgt minni sannfæringu þó það hafi kostað mótvind. Þingið er mikil og skemmtileg vinna, háskóli lífs míns í mörgum málum og kannski eins og í handboltanum í gamla daga að það var alltaf eftir hvern leik að maður vissi að það var eitthvað sem maður gæti gert betur næst.  Þannig hugsa ég þingið að ég vil alltaf bætt mig og mun gefa kost á mér áfram í annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstu þingkosningar 2021.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).