Vegagerðin óskar eftir viðræðum um endurskoðun Herjólfssamnings

21.September'20 | 08:50
20200912_113435

Samgönguyfirvöld, þ.e. samgönguráðuneyti og Vegagerðin, hafa vitað af þeirri erfiðu rekstrarstöðu sem Herjólfur ohf. hefur staðið frammi fyrir í marga mánuði og hafa bæjaryfirvöld beðið óþreyjufull svara um framhaldið. Mynd/TMS

Heilmiklar áskoranir hafa verið í samgöngumálum Vestmannaeyja undanfarnar vikur. Eins og fram hefur komið er fjárhagsstaða Herjólfs mjög erfið, sem stafar af minni sértekjum vegna fækkunar ferðamanna og lægri fjárveitingum úr ríkissjóði en áætlanir gera ráð fyrir. 

Þá hefur jafnframt komið fram að forsvarsmenn Flugfélagsins Ernis ákváðu einhliða að hætta áætlunarflugi til og frá Vestmannaeyjum frá 5. september sl. svona hefst bókun bæjarstjórnar um samgöngumálin, en farið var yfir málin á fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn var.

Sjá einnig: Bæjarstjóri hefur fundað með öðrum flugfélögum um flug til Eyja

Vegagerðinni sé skylt að leita eftir breytingum á samningnum með vísan til breyttra forsendna

Samgöngumál hafa verið til umræðu á flestum fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þar að auki hafa allir bæjarfulltrúar ýmist tekið þátt í fundum eða verið upplýstir um framvindu viðræðna við ríkið og stjórn Herjólfs ohf.

Á þriðjudaginn var, barst bæjarstjóra bréf frá forstjóra Vegagerðarinnar, þar sem fram kemur að forsendubrestur sé á þjónustusamningi um rekstur Herjólfs ohf., sem rakinn er til umframmönnunar ferjunnar miðað við forsendur samningsins. Er í bréfinu jafnframt óskað eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ um endurskoðun samningsins og þess farið á leit að bæjaryfirvöld tilnefni fulltrúa til viðræðna við Vegagerðina um endurskoðun á ákvæðum samningsins.

Sjá einnig: Minnisblað frá LEX um þjónustusamning um Herjólf

Er jafnframt vísað til minnisblaðs frá Landslögum um túlkun á þjónustusamningi við Vestmannaeyjabæ um ferjusiglingar sem Vegagerðin byggir bréf sitt á. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir að breytta öryggismönnun, sem eðlilega leiðir til hækkunar eða lækkunar á samningsverði, eigi sér stað, séu samningsgreiðslur háðar samþykki Alþingis og fjárheimildum í fjárlögum og öðrum fyrirvörum sem leiða til þess að fjárhæðir þeirra séu óskuldbindandi. Vegagerðinni sé skylt að leita eftir breytingum á samningnum með vísan til breyttra forsendna.

Skipa starfshóp um endurskoðun samningsákvæða þjónustusamnings

Samgönguyfirvöld, þ.e. samgönguráðuneyti og Vegagerðin, hafa vitað af þeirri erfiðu rekstrarstöðu sem Herjólfur ohf. hefur staðið frammi fyrir í marga mánuði og hafa bæjaryfirvöld beðið óþreyjufull svara um framhaldið. Þessi gríðarlega töf á greiðslum hefur haft alvarleg áhrif fyrir félagið. Það fjármagn sem ekki hefur verið greitt vegna, m.a. öryggismönnunar, vega þar mjög þungt. Dráttur á svörum samgönguyfirvalda hefur ekki hjálpað til við að eyða óvissu um framhaldið. Auk þess hafa áhrif af Covid19 valdið því að sértekjur hafa dregist mikið saman.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur þó mikilvægt að skýra ákveðna þætti samningsins sem deilt hefur verið um og þá þætti sem tryggja sem best hagsmuni Vestmannaeyjabæjar, þar á meðal að mikilvægt sé að lengja samningstímann til að gefa rekstrarfélaginu möguleika á að ná stöðugleika á ný í kjölfar þessa óvenjulega og ófyrirsjáanlega rekstrarárs.

Bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að útistandandi skuldir Vegagerðarinnar við Herjólf ohf., sem hverfa ekki þrátt fyrir skipun þessa starfshóps, þurfi að gera upp hið fyrsta. Mikilvægt er að sú þjónusta sem tryggð hefur verið í siglingum milli lands og Eyja í dag skerðist ekki, m.a. hvað varðar ferðatíðni og tímaramma ferðaáætlunar, enda er um þjóðveg samfélagsins að ræða og einu samgönguleið sveitarfélagsins að svo stöddu. Æskilegast er að samgönguleiðin sé í höndum heimamanna sem þekkja best þjónustuþörfina á hverjum tíma.

Að ósk Vegagerðarinnar um tilnefningu í starfshóp um endurskoðun samningsákvæða þjónustusamnings um ferjusiglingar, skipar bæjarstjórn Vestmannaeyja þau Arnar Pétursson, Guðlaug Friðþórsson, Pál Þór Guðmundsson, úr stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., og Kristínu Edwald, lögmann. Bæjarráð mun vinna náið með starfshópnum og bæjarstjórn verður upplýst reglulega um gang mála. Starfshópurinn getur kallað þá aðila til ráðgjafar sem hópurinn telur þörf á.

Ofangreint var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Lögðu til að starfshópurinn leiti ráðgjafar hjá fyrri samninganefnd Vestmannaeyjabæjar

Í framhaldinu kom tillaga frá minnihluta bæjarstjórnar þar sem segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggi til að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í samningahópnum leiti m.a. ráðgjafar hjá fyrri samninganefnd Vestmannaeyjabæjar og forsvarsmönnum hennar sem leiddu upphaflega samningagerð Vestmannaeyjabæjar við íslenska ríkið. Þeir aðilar þekkja inntak og forsendur samningsins allra best og hagsmunir félagsins eru þannig best tryggðir.

Tillagan var felld með 4 atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Njáll Ragnarsson gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagði að í hópnum sem nú hefur verið skipaður sé einn fulltrúi sem sat í ráðgjafarhópnum á sínum tíma.

Verið að leggja til að starfshópur velji sér ráðgjafa eftir þörfum

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skilja ekki hvað liggur að baki því að meirihluti bæjarstjórnar sé andvígur því að leitað sé ráða hjá þeim sem sömdu upphaflega samninga. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja ítreka mikilvægi þess að haldið verði áfram þeirri ferðatíðni sem búið var að ná fram, sjö ferðum á dag, enda kostnaður við þá ferð afar lítill. Mikilvægt er að ferðafrelsi íbúanna og áframhaldandi öflug þjónusta við samfélagið sé áfram til grundvallar samningagerðinni, segir í bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Sjá einnig: Minnisblað ráðgjafahóps um yfirtöku á rekstri Herjólfs

Að endingu bókuðu fulltrúar E og H lista þar sem bent er á að í fyrri tillögu sé verið að leggja til að starfshópur velji sér ráðgjafa eftir þörfum og því ekki okkar að skipta okkur af þeirra vali á ráðgjöf.
 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-