Nýtt deiliskipulag á athafnasvæði við Græðisbraut samþykkt

- tillaga að deiliskipulagi var samþykkt með þremur atkvæðum E- og H- lista gegn tveimur atkvæðum D- lista

2.September'20 | 07:45
graedisbr_tillaga

Tölvugerð mynd af umræddu svæði. Mynd/Vestmannaeyjabær

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyjabæjar samþykkti á fundi sínum á mánudaginn nýtt deiliskipulag á athafnasvæði við Græðisbraut. Málið er búið að vera í vinnslu lengi og komu fram nokkrar athugasemdir við nýja skipulagið.

Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Heiðarvegi til austurs, Norðursundi og aðliggjandi deiliskipulagsmörkum til norðurs, Flötum og lóðamörkum Heiðarvegar 14 og Faxastígs 36 til vesturs og Faxastíg til suðurs. Tillagna er unnin af skipulagshönnuðum Alta ehf. fyrir Vestmannaeyjabæ. Tillaga dags. 20. apríl 2020 var auglýst frá 8. maí til 19. júní 2020.

Sjá einnig: Segja deiliskipulagsbreytingu leiða til mikillar virðisrýrnunar fasteigna

Kvöð í nýju deiliskipulagi

Í niðurstöðu málsins segir að umhverfis- og skipulagsráð samþykki tillögu að deiliskipulagi fyrir athafnasvæði AT-1. Lagt er fyrir skipulagsfulltrúa að svara bréfriturum. Erindinu er vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

Hvað varðar aðgengi að sundi á milli Græðisbrautar og Heiðarvegar þá er kvöð í nýju deiliskipulagi sbr. gr. 2.1.10 um sameiginlega aðkomu allra vegfarenda. Ekki er heimilt að hamla för akandi, gangandi eða hjólandi vegfarenda um svæðið t.a.m. með farartækjum, vinnutækjum, gámum eða öðru sambærilegu. Ekki er heimilt að reisa stoðveggi, girðingar eða skilti í sundinu sem hamla för vegfarenda. Þessi kvöð á við um alla einnig lóðarhafa á þessu svæði og því ekki verið að veita neinum aukna heimild umfram aðra.

Athugasemdir bárust varðandi sólarhæð, skuggavarp og útsýni. Rétt er að minna á að um er að ræða athafnasvæði og engin leið að tryggja útsýni frá öllum fasteignum.

Hvað varðar byggðamynstur og menningarsögulegt gildi eldri bygginga á þessu svæði, sem tilheyrir nýju deiliskipulagi, þá er byggingastíll mjög mismunandi bæði í hæð og útliti. Hæð fyrirhugaðs húsnæðis mun vera í jafna línu við hús sem stendur við Vesturveg 38 (Tónlistarskólann).

Tillaga að deiliskipulagi samþykkt með þremur atkvæðum E- og H- lista gegn tveimur atkvæðum D- lista.

Segja hagsmuni ákveðinna aðila innan svæðisins vegnir þyngra en annarra

Í bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks í ráðinu segir að ítrekaðar séu fyrri bókanir í málinu og telja fulltrúarnir sem fyrr að umrætt skipulag þjóni ekki heildarhagsmunum samfélagsins heldur séu hagsmunir ákveðinna aðila innan svæðisins vegnir þyngra en annarra. Slíkt er óásættanlegt.

Þá höfum við áður bent á að það mikla byggingarmagn sem áætlað er á ákveðnu svæði innan skipulagsins sé óhóflegt og svæðinu ekki til framdráttar. Þá teljum við einnig ljóst að með skipulaginu eins og það liggur fyrir sé einungis verið að auka við þær deilur sem upp hafa risið á svæðinu en ekki stilla til friðar. Við greiðum því atkvæði gegn skipulaginu eins og það liggur fyrir, segir í bókuninni frá Eyþóri Harðarsyni og Margréti Rós Ingólfsdóttur.

Segja hagsmuni allra bæjarbúa hafða að leiðarljósi í þessu máli

Í bókun E- og H- lista segir að meirihluti E- og H-lista hafi í sínum ákvörðunum hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi í þessu máli sem og öðrum. Mikilvægt er að öll fyrirtæki, smá sem stór, geti dafnað vel í okkar samfélagi og hafi tök á því að stækka. Mikil þörf er á því að efla uppbyggingu í atvinnulífinu, segir í bókun sem að Drífa Þöll Arnardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Jónatan Guðni Jónsson kvitta undir.

Ekki á móti atvinnuuppbyggingu

Í bókun frá minnihlutanum segir að það sé mikill misskilningur ef fulltrúar meirihlutans séu að ýja að því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu á móti atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum. Þvert à móti. Fulltrúar D-lista hafa t.d. bent à önnur svæði sem heppileg gætu orðið til að fyrirtæki à svæðinu gætu vaxið àn þess að valda frekari deilum innan nùverandi svæðis.
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.