Yfir 50 manns við tökur á kvikmynd í Eyjum

- pólsk/íslenska spennukvikmyndin Wolka verður frumsýnd á næsta ári

15.Ágúst'20 | 14:10
20200812_162011

Erla hér með leikstjóra myndarinnar, Árna Ólafi Ásgeirssyni. Ljósmynd/TMS

Undanfarna daga hafa staðið yfir hér í Eyjum tökur á kvikmyndinni "Wolka". Alls koma rúmlega 50 manns að upptökunum og er ráðgert að upptökur standi yfir til 28 ágúst í Eyjum. Þó nokkrir Eyjamenn eru í hópnum og ræddi Eyjar.net við einn þeirra.

Erla Ásmundsdóttir sinnir svokölluðu „location manager“, sem útleggst á íslensku sem tökustaðarstjóri, og merkir í grófum dráttum að hún ber ábyrgð á þeim staðsetningum sem tökur fara fram á. Kvikmyndatökur eru fyrirferðarmikil verkefni og því afar áberandi í bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum, þar sem heill her af tæknimönnum, sérfræðingum og leikurum sölsa undir sig húsnæði, fiskvinnslur og jafnvel heilu göturnar og hverfin.

„Starf mitt felur því í sér að fá leyfi viðkomandi aðila að fá að taka upp á staðnum, bæði frá óbreyttum borgurum sem og yfirvöldum. Ég ábyrgist að ró Vestmannaeyjinga verði sem minnst röskuð og að þarfir kvikmyndahópsins uppfylltar, tryggt aðgengi að salernisaðstöðu og ruslafötum svo eitthvað sé nefnt. Þá er mikilvægt verkefni að ganga frá öllu sem við komum að í sama horf og við komum að tökustöðunum.” segir Erla.

Wolka, er pólska orðið fyrir „frelsi“

Eins og áður segir heitir myndin Wolka, sem er pólska orðið fyrir „frelsi“. Það er Sagafilm og filmprodukcja sem annast framleiðsluna. Framleiðendur eru Hilmar Sigurðsson og Stanisław Dziedzic, Beggi Jónsson og Klaudia Smieja, og leikstjórinn heitir Árni Ólafur Ásgeirsson. Leikmyndahönnuður Marta Luiza Macuga. Til stendur að frumsýna myndina á næsta ári.

Eyjamenn í ýmsum störfum

Nú eru fleiri héðan frá Eyjum í hópnum, hverjir eru það?

Já, þau eru nokkur. Fyrst ber að sjálfsögðu að nefna bróður minn hann Magnús Karl Ásmundsson, sem var sérstaklega fenginn til að vera Covid-barnapían okkar. Magnús Karl er yngri bróðir minn og því auðvitað ótrúlega erfiður, enda ofdekraður sem barn, þess vegna fengum við hann til þess að vinna við það að vera leiðinlegi gaurinn sem gargar á tökuliðið ef það hlýðir ekki Víði! Hann stendur sig með eindæmum vel og ég er mjög stolt systir!

Einnig er Andri Páll Guðmundsson að vinna að verkefninu en hann hefur fengið sömu vöggugjöf og faðir sinn, hann Gummi Páls, en báðir eru þeir ökuníðingar. Andri brunar um götur bæjarins með tökuliðið milli staða og sinnir öðrum skyldum sem formúlukappa sæmir.

Sigrún Ella dóttir Svövu í Stakkholti, eða Lella frænka passar upp á að mallarnir okkar séu ekki tómir yfir daginn en hún er konditor og chocolatier meistari frá Danmörku. Fyrir leikmenn þá þýðir það að hún kann að búa til svakalega gott og vel útlýtandi bakkelsi og súkkulaði. Þrátt fyrir að þetta sé hennar fyrsta kvikmyndaverkefni mætti halda að hún hafi unnið við þetta alla ævi, svo vel hefur til tekist.

Guðmundur Óskar, frændi minn og sonur Simma og Unnar sér um sviðsmynd og er þúsundþjalasmiður í listadeildinni. Mukka, sem er gælunafnið hans, hefur verið í bransanum í tæplega fjögur ár, þannig þetta er ekki hans fyrsta ródeó! Við erum sem sagt fimm ættuð frá Stakkholti og Arnarhóli í tökuliðinu.

Hafþór Hafsteins er meistari og var gripinn glóðvolgur við það að raða stólum upp í Höll, hann gerði það svo lipurlega og látlaust að hann var fenginn til þess að vera einkabílstjóri fyrir aðalstjörnuna, hana Olgu. Haffi er mikill öðlingur og hefur þægilega nærveru, en það kann að vera vegna þess að hann fer alltaf eftir tveggja metra reglunni.

Snorri Rúnars er leikfélagsmeðlimur og hefur staðið alveg eins og klettur á bakvið framleiðsluna. Hann hefur ávallt verið boðinn og búinn til að aðstoða okkur við hvaða verkefni, hver og hvenær sem er. Snorri er sérlegur aðstoðamaður kvikmyndakrúsins og við stöndum í þakkaskuld við hann, segir Erla.

Söguþráðurinn hernaðarleyndarmál?

Hún segir að áætlunin sé að vera hér til 28. ágúst, 18 tökudagar í heildina. „Eftir Vestmannaeyjar þá fer hluti af tökuliðinu til Seyðisfjarðar.”

Aðspurð um hvað myndin sé segir Erla að það sé hernaðarleyndarmál. „En ég get sagt þér að fylgst er með ungri, pólskri konu sem flytur til Vestmannaeyja og kynnist íslenskri og pólskri menningu bæjarins.”

Þakka bæjarbúum öllum fyrir þolinmæði og vingjarnlegt viðmót

Mikið hefur rignt í Eyjum það sem af er ágústmánuði. Aðspurð um hvort veðrið hafi sett strik í reikninginn segir Erla það hafa komið fyrir. „Við höfum þurft að seinka tökum já, það gerðist sunnudaginn síðastliðinn. En alla jafnan höfum við þó náð að vinna það upp og gott betur!”

Hefur þú unnið að fleiri slíkum verkefnum?

Ég vann í 7 ár á Lauga-ás, við mörg kvikmyndaverkefni. Þá sá ég um catering-u, þar sem ég hef séð um að elda mat ofan í tökulið.

Að endingu vill hópurinn þakka bæjarbúum öllum fyrir þolinmæði og vingjarnlegt viðmót.

„Vestmannaeyingar eru einstaklega hjálpsamt, jákvætt og glaðlynt fólk og okkur hefur verið tekið opnum örmum. Hvað sem beðið er um er afgreitt eins og skot og það tala allir í hópnum um það hvað er auðvelt að vinna með Vestmannaeyingum. Nú, eins og alltaf, hefur verið ótrúlega gaman að heimsækja heimaslóðir mínar.” segir Erla Ásmundsdóttir.

Sérstakar þakkir eiga þó skilið: Vestmannaeyjabær, Leikfélag Vestmannaeyja, Daði Páls og Leo Seafood, Kiddi Gogga og strákarnir, Einsi Kaldi og starfsfólk, Gígja og Leifur, Jens og Marsibil, Guðjón og Marí, Sigurjón Guðnason, Sigurjón Óskarsson, Steina og Olli, Hlynur á Lundanum, Víðir og Guðni í Hvítasunnukirkjunni, Idunn Seafoods, slökkvilið og lögreglan svo og auðvitað Herjólfi.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).