Kólnun leiðir til þess að makríllinn hverfur og sílið tekur við sér?

- lundinn er að bera talsvert breytilega fæðu í ungan, segir forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og starfsstöðvarstjóri Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum

14.Ágúst'20 | 09:40
lundar_sili_ruth

Myndin sýnir breytileika í fæðu lundans. Hún er tekin í Stórhöfða þann 24.júlí. Ljósmynd/Ruth Zohlen

,,Brekkurnar eru litaðar af eldrauðum skít, sem bendir til þess að lundinn í Eyjum sé éta mikið af ljósátu.” Lundinn hefur reyndar verið að bera breytilega fæðu í sumar. Lítið hefur verið um síli seinni hluta sumars, en var áberandi bæði 0 og 1-grúppu (á fyrsta og öðru aldursári) síli í júní.

Þetta segir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. Erpur sem er búinn að vera í lundaralli í sumar segir í samtali við Eyjar.net að ljósáta sé mjög áberandi í fæðu lunda í Eyjum síðustu vikur, mest varpfugla, en pysjur eru líka að fá ljósátu auk sæveslu.

Erpur segir að pysjurnar líti ágætlega út. ,,Þær eru í þyngri kantinum. Það sem er einnig merkilegt er að í ár er lundavarp í Eyjum á „eðlilegum“ tíma. Það hefur ekki gerst í einhver 17 ár,”

En hvað skýrir helst þessar breytingar nú?

,,Mikil kólnun sjávar að sumarlagi 1948 leiddi til þess að makríllinn hvarf af grunnslóð og sílið tók við sér aftur í kjölfar þess, amk jókst framleiðni á pysjum mikið. Nú hefur sumarsjávarhitinn á núverandi hlýskeiði verið að lækka síðustu fimm ár ekki ósvipað og gerðist árið 1948.” Það er of snemmt að segja til um stöðu sílisins við Eyjar, en ég hef ekki séð eins mikið af síli í Faxaflóa eins og í sumar, segir Erpur.

Hnúfubakar að éta síli

Á ferð sinni um miðin segist Erpur Snær aldrei hafa séð eins mikið af hnúfubak. ,,Þeir eru bókstaflega um allt.” Hnúfubakarnir voru t.d. að éta síli í Faxaflóa í allt sumar, og fylgdu sílinu inn á Breiðafjörð í júlí. Í Breiðafirði var mikil lækkun ábúðar lunda í ár eins og í Eyjum. Mig grunar að mikið hafi rekið af síli úr Faxaflóa í Breiðafjörðinn.

Býst við færri pysjum í ár

Erpur segir að búast megi við um 20% færri pysjum í Eyjum í ár miðað við í fyrra, sem skýrist af mikilli lækkun ábúðar, en það er 230.000 varppörum færra í ár miðað við í fyrra.

„Pysjufjöldi fellur þannig úr 859.000 í fyrra í 628.000 í ár, en lítil afföll eru á pysjunum, þ.e. varpárangur er góður hjá þeim sem urpu. Bæði þessi ár er viðkoma hinsvegar undir 49% (47% í fyrra og 40% nú) sem þarf til að stofnvöxtur sé réttu megin við strikið, en stofninn hefur verið á uppleið síðastliðinn áratug.”

Erpur fór í fyrradag í Stórhöfða. Hann segir meðalþyngd 7 pysja hafi verið 277 g. Þær voru frá 250 til 330 g. Tvær alveg búnar að fella dún og fara á næstu dögum, en hinar langt komnar og tilbúnar eftir um viku eða svo.

Lundinn greinilega að bera talsvert breytilega fæðu í ungan

Valur Bogason, starfsstöðvarstjóri Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum segir að af myndum að dæma þá sé lundinn greinilega að bera talsvert breytilega fæðu í ungan. 

„Eitthvað af sandsílaseiðum og einnig 1.árs síli, ljósátu, eitthvað smávegis af loðnuseiðum og seiði Rauðu sæveslu, en hún hefur verið nokkuð algeng í fæðu lundans síðustu ár.”

Rauða sævesla er þorskfiskur af brosmuætt og getur orðið um 42 cm og er fullorðinn fiskur rauðgrár á litinn eins og nafnið gefur til kynna.Valur segir að ekki sé hægt að draga miklar ályktanir út frá þessu um fæðu lundans, þar sem þetta séu aðeins fáar ljósmyndir sem hann hafi skoðað.

Hann segir að til standi að gera athugun á sandsíli í leiðangri sem farinn verður í lok ágúst. „Þá sjáum við betur hvort einhverjar breytingar séu hjá sandsílinu.”

Ljósmyndirnar hér að neðan tók Svanhildur Egilsdóttir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

rauda_saevesla_9014

Rauða sævesla

loðnulifrur_B7_2017_430_3142

Loðnulifrur

marsíli_9491

Marsíli

ljósáta_0063

Ljósáta

marsíli_0_gruppa_9663

Marsíli

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.