Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir skrifar:

Við gátum þetta áður og við getum þetta aftur

7.Ágúst'20 | 08:00
20200727_173647

Heimsmynd okkar hefur breyst verulega á örskömmum tíma, segir greinarhöfundur.

Nú, eftir nýafstaðna verslunarmannahelgi sem sannarlega var með öðru sniði en vant er og yfirstandandi ólgu í landinu okkar þegar litið er til úbreiðslu kórónuveirunnar, er ekki úr vegi að staldra við um stund og líta yfir sviðið.

Enn gefur á bátinn og enn spilum við af fingrum fram. Enn er ekki komið að því að við getum litið í baksýnisspegilinn til þess að meta eða greina framvindu og áhrif þessa faraldurs. Toppurinn á fyrstu lotu kom og fór í vor og vissulega mátti læra margt af því ferðalagi. Heimsfaraldursveruleiki er okkur ekki jafn framandi og hann var í upphafi árs. Hversdeginum var snúið á hvolf, forsendur til alls gjörbreyttust og við tók að aðlagast síbreytilegum aðstæðum sem enginn hafði búið sig undir og öll heimsmynd okkar hefur breyst verulega á örskömmum tíma.

Samstaðan, sem einkenndi samkomubannið, hélt áfram

Það hefur verið merkilegt og lærdómsríkt að hrærast í þessu kórónusamhengi undanfarna mánuði. Rauður þráður í eigin upplifun, og samtölum við aðra, hefur verið sá að meðan á sem mestu gekk, hjá okkur hérna í Vestmannaeyjum, þá var hlutunum haldið gangandi. Eining ríkti um þátttöku í smitvörnum. Fólk bretti upp ermar, beitti mikilli útsjónarsemi, fókus var skarpur og aðgát gegnumgangandi. Athyglisvert var einnig að fylgjast með því, þegar mest var liðið hjá, hversu hratt lífið tók á sig fyrri mynd. Ekki að öllu leyti að vísu en hratt hrökk margt til baka. Og það sem meira er að samstaðan, sem einkenndi samkomubannið, hélt áfram. Við tók uppbygging og, fyrir marga, lífróður þar sem samfélagið lagðist á eitt. Mörgum fannst þetta þó erfitt og fólk gekk út úr þessari þeytivindu, flestir lúnir en ,,frelsinu fegnir” og tilbúnir í næstu verkefni.

En nú þegar veiran minnir aftur á sig þá ýfist kannski upp þreyta. Fólk er e.t.v. kvekt og þarf að grafa aðeins dýpra en vanalega eftir styrk og bjargráðum. Einhverjir hugsa kannski,,ég get þetta ekki aftur”.

Þegar litið er til sögunnar hafa skellirnir komið og farið

Reyndin er þó sú að þessi veira, þó voldug sé, hefur ekki þá sérstöðu að vera eina váin sem við lifum með. Við erum vön að halda ótrauð okkar striki þrátt fyrir margvíslegar áhættur og óvissu í umhverfinu frá degi til dags t.d. þegar við setjumst upp í bíl og keyrum af stað. Heimurinn er ekki, og hefur aldrei verið, 100% öruggur staður. Við erum líka býsna seig tegund, mannkynið. Forverar okkar lifðu af við skilyrði sem ímyndunarafl nútímamannsins nær ekki utan um og þegar litið er til sögunnar hafa skellirnir komið og farið og fólk risið upp úr ótrúlegustu aðstæðum.

Við höfum oft ekki hugmynd um hvers megnug við erum fyrr en grettistak er eini valkosturinn. En hvað sem framundan er nú í haust, þá er reynsla og innsýn það sem við höfum í farteskinu til viðbótar við það sem við höfðum áður þegar sama staða var uppi á teningnum. Við erum fyrir vikið betur undirbúin.

Hvernig tæklar maður óvissu?

Nú horfum við fram á uppgang veirunnar öðru sinni og óljóst hver framvindan verður. Margir finna fyrir kvíða og sumir jafnvel uppgjöf. Þennan kvíða mætti, í sem allra einföldustu máli, skilgreina sem óþol við óvissu. Kvíðinn er þó ekki alslæmur vegna þess að hann virkjar hjá okkur varnir og viðbrögð og gagnast okkur þannig. En óvissan nagar líka. Hún er ófrávíkjanleg fyrir okkur öll við svo margar aðstæður í lífinu og við aðstæður dagsins í dag er hún einkennandi.

Hvað gerum við þá? Vitandi að óvissa er spilið sem við höfum á hendi og að óvissuóþol gerir okkur erfitt fyrir. Þá er gagnlegt að spyrja sig:

Hvað vitum við og hverju getum við stjórnað núna?

…og virkilega píra augun í svarið við þeirri spurningu. Hér er mikilvægt að samþykkja í leiðinni hafa ekki öll svörin og leggja til hliðar þá þætti sem við stjórnum ekki, sérstaklega ef þeir þvælast fyrir eða draga úr okkur þrótt. Það getur aukið kvíðatilfinningu að dvelja við það sem við höfum ekki stjórn á s.s. hvað annað fólk segir og gerir, hvort aðrir taki sóttvarnir alvarlega eða virði fyrirmæli stjórnvalda o.s.frv. eða að festast í hugsunum um hið óljósa t.d. hvenær þetta verður allt saman búið, hvenær hægt verður að bólusetja eða ferðast aftur o.þ.h.

Sleppum ekki taki af gleðinni

Svo er það hitt, þeir þættir sem við stjórnum sjálf, alveg sama hvað á dynur, og einbeita sér að þeim öðru fremur. Þessir þættir eru eigið viðhorf og stefna, eigin ábyrgð, aðgát og ráðstafanir. Hvernig ætla ég að sinna smitvörnum? Hvaða tón ætla ég að slá í samskiptum við aðra? Hvernig ætla ég að leiða börnin mín í gegnum þetta? Þetta er þýðingarmesta stærðin í jöfnunni. Það er í krafti þess, sem við gerum sem einstaklingar, sem heildin stendur og fellur.  

Höldum áfram í samtakamáttinn, treystum öflugri liðsheild og leiðsögn, tökum stjórn á eigin viðhorfi og nærumhverfi. Sleppum ekki taki af gleðinni og gleymum ekki að við eigum öll fullvissu og fyrri reynslu um að þetta, skítt sem það er, líður líka hjá á endanum.

Þegar erfiðleikar ganga yfir má sjá í hendi sér, skýrar en annars, það sem er verndandi og dýrmætt í lífi okkar. Sterk og góð tengsl við fólkið okkar, góð þekking, öflgur viðbúnaður, árangursríkar almannavarnir og ekki síst þrautseigja, þolinmæði og samstaða.

Við gátum þetta áður og við getum þetta aftur, ef það er það sem þarf.

 

Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir

 

Höfundur er sálfræðingur hjá Vestmannaeyjabæ.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.