Langstærsti hlutinn óskar eftir fullri endurgreiðslu

- brennan ekki á vegum ÍBV og félagið er ekki að fara að halda ball

25.Júlí'20 | 09:00
dalurinn_240720

Herjólfsdalur viku fyrir Verslunarmannahelgi. Ljósmynd/TMS

Í fyrsta skiptið í rúma öld þarf að fella niður þjóðhátíðarhald í Vestmannaeyjum. Síðast féll Þjóðhátíð niður árið 1915, en ástæðan fyrir niðurfellingu nú er kórónuveirufaraldurinn.

Saga þessarar sívinsælu hátíðar er nokkuð mögnuð. Margar hefðir og venjur fylgja hátíðinni en einstaka sinnum hafa áföll sett svip sinn á hana. Má þar nefna eldgos árið 1973 og eitraðan tréspíra árið 1943. Þjóðhátíð er ein sögulegasta hátíð okkar Íslendinga og má rekja sögu hennar allt aftur til ársins 1874. 

Gríðarlegur skellur fyrir félagið

Hörður Orri Grettisson er formaður þjóðhátíðarnefndar og framkvæmdastjóri ÍBV. Hann segir að opnað hafi verið fyrir endurgreiðslur á þjóðhátíðarmiðum á sl. fimmtudag á vef Þjóðhátíðar. „Þar gefst miðakaupendum einnig möguleiki á að færa þjóðhátíðarmiðann til 2021 eða styrkja ÍBV um miðakaupin. Miðað við þá sem þegar hafa tekið afstöðu er langstærsti hlutinn að óska eftir fullri endurgreiðslu á sínum miðakaupum.”

Nú er þetta gríðarlegur skellur fjárhagslega fyrir félagið að missa út Þjóðhátíð. Hvernig sérðu fyrir þér að það bil verði brúað?

Það er ljóst að þetta er gríðarlegur skellur og mun fyrst og fremst koma niður á barna- og unglingastarfi félagsins. Við höfum að sjálfsögðu nú þegar brugðist við með því að draga eins mikið úr kostnaði og hægt er en það er ljóst að það dugar skammt upp í þetta tjón. Fyrir þó nokkru síðan upplýstum við bæjaryfirvöld um stöðu félagsins ef þessi staða sem nú er kæmi upp og höfum verið í góðu samtali við þau með reglulegu millibili. Fyrsta skref félagsins er að halda því góða samtali áfram á næstu misserum og vonandi næst góð niðurstaða út úr því samtali.

ÍBV stendur ekki fyrir einum einasta viðburði um Verslunarmannahelgina

Það vekur smá umtal að ÍBV merkið sé komið upp í Herjólfsdal. Er einhver sérstök ástæða fyrir að það var sett upp?

Það er engin sérstök ástæða fyrir því, það voru nokkrir sjálboðaliðar sem tóku sig til og settu merkið upp. Ætli þeim hafi ekki bara kitlað í puttana að gera eitthvað í Herjólfsdal þetta árið.

ÍBV gaf það út að félagið muni ekki standa fyrir einum einasta viðburði um Verslunarmannahelgina. Þegar sú ákvörðun var tekin vildum við taka af allan vafa um að ÍBV muni standa fyrir viðburði sem kynni að storka fjöldatakmörkunum og það stendur.

Brennan er vissulega komin upp en hún verður í ár ekki á vegum ÍBV. Þar fer vaskur hópur brennupeyja með ferðina og bera ábyrgð á brennunni, það er best að þeir veiti upplýsingar um hvenær í henni verður kveikt, enda þeir sem sækja um öll tilskilin leyfi o.s.frv.

Ég hef líka heyrt af þessum orðrómi um að það verði eitthvað ball en veit ekki neitt frekar, félagið er ekki að halda ball.

Skrítin Verslunarmannahelgi

Hvað ætlar svo framkvæmdastjóri ÍBV að gera um Verslunarmannahelgina?

Þetta verður skrítin Verslunarmannahelgi. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég mun gera, en það verður eitthvað skemmtilegt með vinum og fjölskyldu, segir Hörður Orri Grettisson.

Myndirnar hér að neðan eru teknar í Herjólfsdal nýverið. Venjulega er allt fullt af sjálfboðaliðum í dalnum þessa daga í vinnu við að koma hátíðinni upp. Nú hins vegar er fátt sem minnir á að Verslunarmannahelgin sé um næstu helgi, ef frá er talin brennan á Fjóskletti og ÍBV merkið á setningarsteninum.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.