Tryggvi Már Sæmundsson skrifar:

Taktleysi?

9.Júlí'20 | 11:47
herjolfur_b

Útlit er fyrir að Herjólfur verðí bundinn við bryggju í tvo sólarhringa í næstu viku vegna vinnustöðvunar háseta, bátsmanna og þerna. Ljósmynd/TMS

Hásetar, bátsmenn og þernur á Herjólfi standa nú í kjarabaráttu við vinnuveitanda sinn. Megin krafa þeirra er að bætt verði við fjórðu áhöfninni svo að vinnudögunum fækki úr 20 á mánuði niður í 15 daga án þess að laun skerðist.

Forsvarsmenn Herjólfs hafa sagt að þetta sé ígildi 25% launahækkunar umræddra skipverja. Fram kom í svari stjórnarformanns að heildarlaun hjá þernu um borð í Herjólfi miðað við kerfið sem er við líði í dag séu rúmar 810.000 kr. Heildarlaun háseta er rúm 1.000.000 kr. ef reiknuð yfirvinna er meðaltal yfirvinnu fyrir janúar og febrúar, en hásetar fá yfirvinnutíma fyrir að keyra flutningavögnum inn og út úr skipinu.

Tvær áhafnir skipta með sér deginum um borð í skipinu. Sú fyrri mætir kl. 6.30 og er í vinnu til 16.00. Seinni vaktin er svo frá 16.00 – 1.30, eða 9 ½ klukkustunda vaktir.

16 milljón króna tap þrátt fyrir metfjölda farþega

Viðbúið er að aðrir skipverjar og starfsmenn Herjólfs fylgi með sömu kröfur í kjölfarið. Fyrirtækið er í 100% eigu Vestmannaeyjabæjar og því vakna spurningar að verði umræddar kröfur samþykktar eða samið verði um launhækkanir hvort að aðrir starfsmenn Vestmannaeyjabæjar komi ekki í kjölfarið með samskonar kröfur. Starfsmenn Vestmannaeyjabæjar eru í dag 620 talsins utan þeirra sem starfa á Herjólfi. Langflestir á lægri launum en umræddir starfsmenn Herjólfs.

Tekið skal fram að kröfur félaga SÍ eru víðsfjarri þeim lífskjarasamningum sem flestir hafa verið að vinna eftir undanfarin ár.

En þá að stöðu Herjólfs ohf. og þess svigrúms sem félagið hefur til launahækkana. Í fyrra flutti félagið, eftir að það tók við rekstri ferjunnar í lok mars, rétt rúmlega 332 þúsund farþega og 75% þeirra ferðuðust á tímabilinu frá því í byrjun maí til loka ágústmánaðar. Árið í fyrra var metár í farþegaflutningum á milli lands og Eyja. Rúmlega 359 þúsund farþegar fóru þá á milli með ferjunni.

Þrátt fyrir allan þennan fjölda farþega náðust ekki endar saman í rekstri félagsins. Niðurstaða ársins var rúmar 16 milljóna króna tap.

Blasir við að þá þurfi að fækka ferðum og/eða hækka fargjöld

Árið í ár lítur mun verr út en árið í fyrra, vegna kórónuveirufaraldursins. Í apríl fór farþegafjöldinn til að mynda úr 12.477 niður í 4.958, þrátt fyrir að Landeyjahöfn hafi verið mun meira opin í apríl í ár miðað við í fyrra. Í Vestmannaeyjum er ferðamannatímabilið stutt, sökum frátafa á ferðum í aðalhöfn okkar.

Það að hátekjufólk skuli nú loka þjóðveginum á háannatíma verslunar og þjónustu verður að teljast harkalegt og mikið högg fyrir samfélagið. Þessar kröfur koma fram á sama tíma og nánast öll ferðaþjónustufyrirtæki landsins róa lífróður og eru að hagræða í rekstri m.a. með því að endursemja við starfsmenn sína á lægri launum. 

Verði gengið að kröfum SÍ að öllu eða miklu leyti blasir það við að það þarf að fækka ferðum og/eða hækka fargjöld. Því er spurt hvort ekki sé um taktleysi að ræða af hálfu þessara starfsmanna að krefjast slíkra hækkana nú?

 

Tryggvi Már Sæmundsson

 

Höfundur er ritstjóri Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...