Segja deiliskipulagsbreytingu leiða til mikillar virðisrýrnunar fasteigna

- fjögur bréf bárust umhverfis- og skipulagsráði og afgreiðslu erindis var frestað :: skipulagsfulltrúa falið að svara þeim bréfum sem bárust og áframhaldandi úrvinnslu málsins

2.Júlí'20 | 09:00
graedisbr_tillaga

Tölvugerð mynd af umræddu svæði.

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs var áfram á dagskrá tillaga deiliskipulags á athafnasvæði AT-1. Fjögur bréf bárust ráðinu með athugasemdum við tillöguna.

Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Heiðarvegi til austurs, Norðursundi og aðliggjandi deiliskipulagsmörkum til norðurs, Flötum og lóðamörkum Heiðarvegar 14 og Faxastígs 36 til vesturs og Faxastíg til suðurs. Tillagan er unnin af skipulagshönnuðum Alta ehf. fyrir Vestmannaeyjabæ.

Áskilja sér allan rétt til að höfða sérstakt skaðabótamál á hendur Vestmannaeyjabæ

Í niðurlagi eins bréfsins segir að þau sjónarmið sem hagsmunaaðilar nefna í athugasemdum sínum séu langt frá því að vera tæmandi talin enda er tjón hvers og eins ekki skilgreint af neinni nákvæmni í þessum athugasemdum, heldur látið nægja að vísa til almennra sjónarmiða sem eru augljós hverjum þeim sem þau skoðar.

Með vísan til þess sem að framan greinir áskilja hagsmunaaðilar sér því allan rétt til að berjast enn frekar gegn því að umrædd tillaga nái fram að ganga. Að sama skapi eru hagsmunaaðilar boðnir og búnir til að ræða breytingar á deiliskipulagi eða deiliskipulagstillöguna við bæjaryfirvöld, ef eftir því verður leitað og eftir atvikum reyna að finna lausnir á þeim atriðum sem útaf standa, sem væru ásættanlegar fyrir alla aðila.

Það er þó ljóst, verði tillagan endanlega samþykkt, munu þær byggingarheimildir sem ætlunin er að veita fasteignareiganda við Vesturveg 40 með samþykkt tillögunnar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, auk þess sem umbj. mínir áskilja sér allan rétt til að höfða sérstakt skaðabótamál á hendur Vestmannaeyjabæ vegna þess mikla fjárhagstjóns sem þeir munu augljóslega verða fyrir vegna mikillar virðisrýrnunar fasteigna þeirra sökum skaðlegra áhrifa byggingaframkvæmda sem deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir að heimilaðar verði á lóðinni við Vesturveg 40, segir í niðurlagi bréfs frá lögmanni Grétars Þórarinssonar vegna fasteignarinnar við Heiðarveg 6, Stefáns Orra Guðjónssonar, Tómasar Hrafns Guðjónssonar og Guðjóns Stefánssonar vegna fasteignarinnar við Norðursund 9, sem allir eru hagsmunaaðilar í þeim skilningi að umrædd deiliskipulagstillaga hefur mikil áhrif á nýtingu og verðmæti fasteigna í þeirra eigu enda á skipulagssvæði deiliskipulagstillögunnar sem hér er til umfjöllunar.

Afgreiðslu erindis frestað

Auk þessa bréfs sendi Ragnar Baldvinsson ráðinu bréf þar sem hann leggst gegn fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu. Segir hann í bréfinu að nái auglýst tillaga fram að ganga áskilji hann sér rétt til að krefjast bóta þar sem skipulagið skerði verðmæti fasteignar hans að Norðursundi 7.

Þá bárust tvö bréf frá forsvarsmanni 2-Þ ehf. sem er til húsa á Norðursundi 11. Þar eru fyrri athugasemdir ítrekaðar auk þess er ráðið beðið um að upplýsa hvernig bílastæðamálum verði háttað á svæðinu í nýrri skipulagsbreytingu.

Í niðurstöðu ráðsins segir að afgreiðslu erindis sé frestað og felur ráðið skipulagsfulltrúa að svara þeim bréfum sem bárust og áframhaldandi úrvinnslu málsins.

Athygli vekur að umrædd bréf fylgja ekki fundargerð ráðsins sem birt er á vef Vestmannaeyjabæjar, líkt og venja er með fylgigögn sem tekin eru fyrir á fundum ráða.

Uppfært kl. 10.22:

Sigurður Smári Benónýsson, skipulags- og byggingarfulltrúi segir að verið sé að fara yfir ástæðuna fyrir að umrædd bréf birtist ekki líkt og önnur bréf í öðrum málum fundargerðar. „Verið er að vinna í að laga þessi mistök.”

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%