Minnihlutinn gagnrýnir skort á gagnsæi og jafnræði við húsakaup

16.Júní'20 | 11:58
islandsbanki_tms

Ljósmynd/TMS

Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar voru til umræðu á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í gær. 

Fram kemur í fundargerð að kynnt hafi verið fyrir bæjarráði drög að kaupsamningi um kaup Vestmannaeyjabær á hluta húseignar Íslandsbanka við Kirkjuveg 23.

Kaupsamningurinn er í samræmi við kauptilboðið sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 11. júní sl. Kaupsamningurinn verður undirritaður síðar í vikunni. Í niðurstöðu málsins þakkar bæjarráð upplýsingarnar.

Ekki liggja frammi opinber sundurliðuð verðmöt á þeim eignarhlutunum sem verið er að kaupa

Helga Kristín Kolbeins bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins bókaði um málið. Þar segir að undirrituð gerir athugasemdir við þá stjórnunarhætti og verklag sem viðhaft hefur verið við kaup bæjarins á húsnæði Íslandsbanka við Kirkjuveg.

Upplýsingar eru misvísandi og samþykkt kauptilboð sem lagt var fram í bæjarstjórn hefur ekki verið gert opinbert á vef Vestmannaeyjabæjar.

Í fyrsta lagi þá er bærinn ekki einungis að kaupa þær skrifstofur sem honum vantar fyrir starfsemi sína. Í öðru lagi þá er bærinn að kaupa húsnæði á annarri hæð sem hann hefur ekki ákveðið hvað á að gera við, annað en að veita lögmannsstofu aðgang að því.

Í kauptilboðinu kemur fram að bærinn framselji kaup á eignarhluta til sömu lögmannsstofu án þess það sjáist að öðrum hafi gefist kostur á að koma inn í þau kaup.

Húsnæðið er ekki laust til afhendingar og ekki ljóst endanlega hvenær svo verður. Ekki liggja frammi opinber sundurliðuð verðmöt á þeim eignarhlutunum sem verið er að kaupa en fullyrt er í blaðagrein að verðið sé gott.

Undirritaðri þykir miður að gengið hafi verið að fyrrnefndum kaupum án þess að gagnsæi og jafnræði hafi verið í forgrunni við kaupin, segir í bókun Helgu Kristínar.

Íslandsbanki vildi ekki selja húsnæði sitt í hlutum heldur í einu lagi

Í bókun frá Njáli Ragnarssyni og Jónu Sigríði Guðmundsdóttur segir að fulltrúar E- og H- lista vilji að fram komi að Íslandsbanki vildi ekki selja húsnæði sitt í hlutum heldur í einu lagi. Gert var tilboð í allan eignarhluta bankans og gerði Vestmannaeyjabær tilboðið með áskilnaði um að framselja hluta af húsnæðinu til Lögmannsstofu Vestmannaeyja þegar og ef tilboðinu væri tekið. Gera þurfti tilboð oftar en einu sinni og gerði Íslandsbanki gagntilboð oftar en einu sinni áður en samningar náðust.

Það var þetta samþykkta kauptilboð sem var kynnt í bæjarráði 25. maí sl. Það lá hins vegar alltaf ljóst fyrir að ekki væri um að ræða sölu á húsnæðinu frá Vestmannaeyjabæ til Lögmannsstofunnar heldur yrðu endanlegir kaupsamningar og afsöl gerð í tvennu lagi; við Vestmannaeyjabæ annars vegar og Lögmannsstofuna hins vegar.

Af þessum ástæðum er talað um ''framsal'' í tilboðinu sem var kynnt í bæjarráði 25. maí en ekki í endanlegum kaupsamningi sem er til kynningar í bæjarráði í dag.

Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að bærinn er að kaupa hluta eignarinnar en ekki eignina alla til þess síðan að endurselja hluta hennar. Öllum bæjarfulltrúum var kunnugt um ástæður þess að munur er á orðalagi í kauptilboði annars vegar og kaupsamningi hins vegar, enda gerði enginn þeirra athugasemd við málið; hvorki í bæjarráði 25. maí né í bæjarstjórn 11. júní.

Því miður vilja bæjarfulltrúar minnihlutans nú eftirá freista þess að gera málið með einhverjum hætti tortryggilegt. Ýtrustu hagsmunir Vestmannaeyjabæjar hafa ráðið ferðinni í gegnum allan feril málsins og svo mun verða áfram, segir í bókun meirihlutans.

Kauptilboðið.

Drög að kaupsamningi.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.