Vestmannaeyjabær framlengir ekki samning um rekstur Hraunbúða

- Það er von bæjarráðs að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur Hraunbúða næsta vetur, verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er

25.Maí'20 | 18:39
joga_hraunbudir_cr

Vestmannaeyjabær hefur greitt rúmlega 500 m.kr. með rekstri Hraunbúða sl. áratug. Mynd/Hraunbúðir

Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkti samhljóða í dag að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra um að bærinn muni ekki óska eftir framlengingu á rekstrarsamningi milli SÍ og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða.

Í fundargerð bæjarráðs segir að Vestmannaeyjabær hafi greitt rúmlega 500 m.kr. með rekstri Hraunbúða frá árinu 2010, sem lögum samkvæmt ríkið ber ábyrgð á og ríkissjóður á að greiða fyrir.

Kröfur ríkisins til þjónustunnar hafa aukist mikið undanfarin ár, en framlög til starfseminnar staðið í stað. Við þetta verður ekki unað og ósanngjarnt að skattgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á.

Þessu tengt: Bærinn hefur greitt á sjötta hundrað milljónir með rekstri Hraunbúða

Fyrirhugaður er fundur bæjarráðs og heilbrigðisráðherra um málefni Hraunbúða. Fram kemur í bókun bæjarráðs að gert sé ráð fyrir að fundað verði með ráðherra í byrjun júní.

Samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða fellur úr gildi í nóvember 2020. Endurnýjunarákvæði eru í samningnum sem heimila að framlengja honum um eitt ár í senn. Tilkynna verður um hvort samningurinn verði endurnýjaður fyrir 4. júní nk.

Sjá einnig: Sveitarfélög segja sig frá rekstri öldrunarheimila

Í niðurstöðu ráðsins segir að bæjarráð samþykki samhljóða að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra um að bærinn muni ekki óska eftir framlengingu á rekstrarsamningi milli SÍ og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða.

Það er von bæjarráðs að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur Hraunbúða næsta vetur, verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er.

 
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.