Uppfærð frétt

Til stendur að segja ræstitæknum upp störfum

14.Maí'20 | 16:12
IMG_0043

Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

Til stendur að segja upp átta ræstitæknum sem starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum upp störfum og bjóða út ræstingar á stofnuninni.

Samkvæmt heimildum Eyjar.net stendur til að bjóða út ræstinguna við nokkrar af starfsstöðvum stofnunarinnar. Ræstitæknarnir átta eru samkvæmt sömu heimildum í 5,7 stöðugildum. 

Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um málið á fundi sínum nú í hádeginu. Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, að undanskildum forstjóra, mætti á fund ráðsins til þess að gera grein fyrir málefnum stofnunarinnar og sér í lagi áhrifum af ákvörðun yfirstjórnarinnar um aðkeypta ræstingu á stofnuninni.

Skora eindregið á yfirstjórn HSU að draga umrædd áform til baka

Í afgreiðslu ráðsins segir að það sé nöturlegt til þess að hugsa að á sama tíma og atvinnuleysi eykst á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs Covid, skulu forsvarsmenn HSU áforma að segja upp starfsfólki í ræstingu við stofnunina í Vestmannaeyjum, sem unnið hefur undir miklu álagi á undanförnum mánuðum. Það eru kaldar kveðjur í ástandinu sem ríkir í samfélaginu á sama tíma og sveitarfélagið hefur markvisst unnið að því að tryggja störf og koma til móts við bæjarbúa, t.a.m. með frestun gjaldheimtu. Þar að auki hafa aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar miðað að því að verja störf, einkum og sér í lagi kvennastörf.

Bæjarráð Vestmannaeyja skorar eindregið á yfirstjórn HSU að draga umrædd áform til baka tafarlaust, segir í bókun ráðsins.

Ekki náðist í Díönu Óskarsdóttur, forstjóra HSU við vinnslu fréttarinnar en hún sagði fyrr í vikunni í samtali við Eyjar.net að von væri á yfirlýsingu frá stofnuninni í tengslum við málið.

Málið er á byrjunarreit

Uppfært kl. 18.24:

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU segir í svari til Eyjar.net að verið sé að skoða mögulega kost þess að fara í útboð á ræstingum stofnuninnar og er það  gert með Ríkiskaupum. „Við erum á byrjunarstigi með málið en reiknum með að ef til þess komi að starfsfólk haldi að mestu sínum störfum. En málið er á byrjunarreit og því ekki hægt að svara fyrir um hvaða fyrirkomulag verður á málinu.”

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.