Guðrún Jónsdóttir skrifar:

Barnavernd í Vestmannaeyjum

Í Vestmannaeyjum er ekki að sjá neinar umtalsverðar breytingar á fjölda tilkynninga eða mála fyrir og eftir faraldur en erfitt er reyndar að sjá ákveðið mynstur í sveiflum milli mánaða yfirleitt

14.Maí'20 | 11:15
rolad_blur

Ljósmynd/TMS

Við þær aðstæður sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu á veirutímum hafa verið talsverðar áhyggjur af stöðu viðkvæmra hópa og eru málefni þeirra barna sem eru - eða ættu að vera skjólstæðingar barnaverndar eitt af stærstu áhyggjuefnum ráðamanna.

Benda má á athyglisverða grein Heiðu Bjargar Pálmadóttur forstjóra Barnaverndarstofu í þessu sambandi en þar bendir hún á að tilkynningum hafi fjölgað nokkuð undanfarið og vísbendingar um að málin séu þyngri og börn oftar í hættu stödd.

Greinina má sjá hér:  Faraldur í rénum, eða hvað?

Áhyggjuefni í byrjun Covid faraldsins og samkomubannsins voru þó einnig á þá vegu að tilkynningum myndi fækka. Stór hluti tilkynninga kemur frá skólum og leikskólum og við lokun eða skerta þjónustu þeirra stofnana var áhyggjuefni að ekki væri hægt að fylgjast eins vel með líðan og högum barna. Ljóst er hins vegar að samfélagið hefur verið vel á verði og er það vel.

Í Vestmannaeyjum er ekki að sjá neinar umtalsverðar breytingar á fjölda tilkynninga eða mála fyrir og eftir faraldur en erfitt er reyndar að sjá ákveðið mynstur í sveiflum milli mánaða yfirleitt. Tilkynningar hafa verið að sveiflast allt frá 2 tilkynningum á mánuði upp í á fimmta tug tilkynninga á mánuði undanfarin ár. Barnaverndarnefnd Vestmannaeyja hefur reyndar fengið fleiri tilkynningar og barnaverndarmál til vinnslu undanfarin ár en flest önnur sambærileg sveitarfélög. Við teljum að það sé ekki endilega vísbending um að börn hér búi oftar við vanrækslu eða ofbeldi eða séu útsettari fyrir áhættuhegðun en börn almennt á landsvísu heldur eru allar líkur á að skýringin liggi í stærð og eiginleikum sveitarfélagsins. Við búum svo vel að eiga gott og þétt samfélag og ýmislegt sem bendir til þess að fólk hér sé almennt vel upplýst og taki afstöðu með börnum og láti vita þegar á bjátar. Samfélagið okkar er nægilega lítið til að við látum okkur annt um náungann og að við þekkjum vel til barnanna okkar allra og aðstæðna þeirra. Á hinn bóginn er samfélagið nægilega stórt til að koma í veg fyrir að kunningsskapur eða ættarbönd taki völdin og málin séu þögguð niður, þvert á móti fáum við tilkynningar um börn úr öllum hópum samfélagsins og skiptir þar hvorki stétt né staða máli.

Það er mikilvægt að árétta það að tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð til viðkomandi fjölskyldu. Langstærstur hluti allra barnaverndarmála er unninn í góðri og þéttri samvinnu starfsmanna barnaverndar við viðkomandi foreldra, barnið sjálft og einnig helstu stuðningsaðila s.s. skólayfirvöld, lögreglu, heilsugæslu og aðra sem koma að málefnum barnsins. Þannig leiða flest mál til farsællrar niðurstöðu og stórum hluta allra barnaverndarmála er lokað innan árs frá fyrstu tilkynningu þar sem ekki er þörf frekari aðstoðar.

16. gr. Tilkynningarskylda almennings.
https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg [Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.] (Barnaverndarlög nr. 80/2002).

Nægilegt er að grunur sé til staðar; það er síðan hlutverk starfsmanna barnaverndarnefndar að leggja mat á þær upplýsingar sem koma fram og kanna málið. Tilkynnandi getur óskað nafnleyndar gagnvart foreldrum (og barni) en þarf að gefa starfsmönnum upp nafn sitt þar sem hluti af könnun málsins er að leggja mat á tilkynninguna sjálfa og eins þarf stundum að hafa samband aftur við tilkynnanda til að fá nánari upplýsingar. Eins og kemur fram í barnaverndarlögum skal óskin um nafnleynd virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því og í reynd hefur það verið þannig að eina undantekningin á því er ef hægt er að sýna fram á að tilkynnandi hafi lagt fram tilkynninguna vísvitandi á fölskum forsendum, t.d. til að ná sér niðri á viðkomandi foreldri eða foreldrum.

Tilkynning þarf ekki að vera skrifleg eða formleg. Til að tilkynna mál og/eða viðra áhyggjur sínar af einstökum börnum er hægt að hafa samband við starfsmenn barnaverndar; í síma 488 2000 á skrifstofutíma (hringt er til baka ef leggja þarf inn skilaboð); með því að senda tölvupóst til barnavernd@vestmannaeyjar.is eða með því að koma á skrifstofuna okkar á Rauðagerði (gott er samt að mæla sér mót við okkur áður til að hitta örugglega á starfsmann). Þá er áríðandi að börn og unglingar viti að þau geta sjálf tilkynnt um aðstæður sínar og líðan eða um aðstæður og líðan vina sinna. Ef upp kemur mál utan skrifstofutíma er hægt að fá samband við starfsmann barnaverndar og/eða leggja fram tilkynningu með því að hringja í 112.

Nánari upplýsingar um þjónustu barnaverndar er á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar; sjá https://www.vestmannaeyjar.is/thjonusta/felagsthjonusta/barnavernd/barnavernd

 

Guðrún Jónsdóttir

yfirfélagsráðgjafi

 

Greinin birtist fyrst á vef Vestmannaeyjabæjar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).