Búast við 60-80% samdrætti í farþegaflutningum

- í áætlunum Herjólfs fyrir árið 2020 var gert ráð fyrir rúmlega 705 m.kr. tekjum af þjónustu við farþega en í nýrri raunsæissviðsmynd eru tekjurnar ekki nema rétt um 275 milljónir

27.Apríl'20 | 09:41
IMG_1907

Arnar Pétursson, stjórnarformaður Herjólfs ohf.

Það stefnir í verulegt tekjufall hjá Herjólfi ohf. í ár vegna Covid-19 faraldursins. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Arnar Pétursson, stjórnarformann félagsins um stöðuna, horfurnar og til hvaða ráðstafana skuli grípa.

Nú lítur út fyrir verulegan samdrátt í farþegaflutningum í sumar og jafnvel út þetta ár vegna kórónuveirunnar. Hvað eru þið að búast við miklum samdrætti?

Félagið rétt eins og aðrir aðilar í ferðaþjónustu á Íslandi, eru að horfa fram á verulega áhrif Covid-19 á reksturinn a.m.k út þetta ár. Í fyrra flutti félagið, eftir að það tók við rekstri ferjunnar, rétt rúmlega 332 þúsund farþega og 75% þeirra ferðuðust á tímabilinu frá því í byrjun maí til loka ágústmánaðar. Útlit er fyrir mikinn samdrátt og okkar spár gera ráð fyrir að farþegum fækki í besta falli um 60% frá því sem var í fyrra en í versta falli um 80%.

Farþegafækkun upp á 200-250 þúsund farþega þýðir hrun í tekjum

Þetta hlýtur að setja töluvert strik í rekstraráætlanir ykkar fyrir árið?

Já það er óhætt að segja það, þetta ástand hefur sett stórt og mikið strik í allar okkar áætlanir. Til útskýringar þá eru tekjur félagsins að koma annars vegar af þeirri þjónustu sem félagið veitir, farþega og fraktflutningum og hins vegar af þeim framlögum sem ríkið veitir félaginu í samræmi við þjónustusamning. Farþegafækkun upp 200-250 þús. farþega þýðir hrun í tekjum, það segir sig sjálft. Í okkar áætlunum fyrir árið 2020 vorum við að gera ráð fyrir rúmlega 705 m.kr. tekjum af þjónustu við farþega en í okkar raunsæissviðsmynd í dag eru þær ekki nema rétt um 275 m.kr. og það þrátt fyrir væntingar um aukningu í fraktflutningum. Hér eru farnar 430 m.kr af tekjuhliðinni og ljóst að ef framlag ríkisins helst óbreytt, eru allar forsendur fyrir óbreyttum rekstri farnar samliða forsendum þeirra samninga sem við erum með við ríkisvaldið og vinnum eftir.

Eru í samskiptum við ríkisvaldið um þann forsendubrest sem orðinn er

Hefur félagið grípið til einhverra ráðstafana vegna þessa?

Já, félagið hefur gert það. Ríkisstjórnin kynnti 21.mars efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldursins og var ein leiðin þar svokölluð hlutastarfaleið. Félagið náði strax samkomulagi við allt sitt starfsfólk um um að lækka starfshlutfall niður í 50% til 24. maí. Félagið aðlagaði siglingaáætlunina að þeim breytingum og siglir nú þrjár ferðir í Landeyjahöfn á dag og eina ferð í Þorlákshöfn ef siglt er þangað .Það er auðvitað stórmál að biðja starfsfólk um að lækka við sig í launum og því eru við þakklát okkar fólki fyrir að vinna þetta svona með okkur. En á sama tíma er það líka skýrt í lögum að atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það sem samið er um sem er 50% í okkar tilfelli. Skýrir það að öllu leyti þá áætlun sem skipið siglir eftir í dag. Þrátt fyrir þessar aðgerðir og ýmsar aðrar til að skera niður kostnað hefur það lítil áhrif á heildarmyndina þegar tekjuhrunið er jafn mikið og spár gera ráð fyrir. Við erum að sjá árið enda í 350-400 m.kr. tapi og eigum um þessar mundir í samskiptum við ríkisvaldið um þann forsendubrest sem orðinn er.

Er okkar þjóðvegur og það gengur ekki að hann sé aðeins opinn í nokkrar klukkustundir dag hvern

Mun þurfa að grípa til frekari niðurskurðaraðgerða?

Það er ekki ætlunin. Markmið félagsins er að frá og með 25.maí sigli skipið sex ferðir daglega til Landeyjahafnar og tvær til Þorlákshafnar. Þrátt fyrir fækkun farþega og útlit fyrir að fáir sem engir erlendir ferðamenn ferðist með okkur í ár þá verður það alltaf  meginhlutverk að þjónusta íbúa Vestmannaeyja og samfélagið í heild sinni. Siglingaleiðin hér á milli er okkar þjóðvegur og það gengur ekki að hann sé aðeins opinn í nokkrar klukkustundir dag hvern. Aðalmarkmiðið í þjónustusamningnum á milli Vestmannaeyjabæjar og ríkisins og jafnframt aðalmarkmið félagsins og hlutverk, er fyrst og fremst að stuðla að góðum samgöngum við Vestmannaeyjar með því að tryggja öruggar ferjusiglingar á milli lands og eyja. Þessum markmiðum verður ekki náð með þremur eða fjórum ferðum.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að ástandið sé slæmt og útlitið vont þá eru í þessu ákveðin tækifæri sem við getum gripið og hjálpa okkur við að draga úr högginu og milda það. Íslendingar eru almennt ferðaglaðir og í fyrra voru brottfarir Íslendinga frá flugstöð Leifs Eiríkssonar 611.383. Næstu mánuði eru afar fáir sem fara erlendis og að auki er ríkisstjórnin að hvetja til ferðalaga innanlands með því að færa öllum íbúum á Íslandi 18 ára og eldri gjafabréf. Vestmannaeyjar hafa svo ótalmargt upp á að bjóða að í þessu felast tækifæri. Náttúrufegurð, söfn á heimsmælikvarða, frábærir veitingastaðir, besta sundlaug landsins, frábær golfvöllur og margt annað spennandi er í boði. Við eigum að grípa þessi tækifæri og við gerum það ekki nema að á milli lands og eyja séu almennilegar samgöngur. Okkar sviðsmyndir ganga því allar út á sex ferðir á dag frá og með 25.maí og við höfum ekki fundið annað en að í þeim samtölum sem við höfum átt við ríkisvaldið að á því sé fullur skilningur.

Erum að vinna að breytingum

Nú hefur áætlunin verið skorin mikið niður vegna veirunnar. Hvenær má búast við að ferðum taki að fjölga aftur?

Eins og ég kom inn á áðan þá erum við  bundin af starfshlutfallsleiðinni til 24. maí og eftir það er markmiðið að fara í sex ferðir. Við finnum að sjálfsögðu fyrir og skiljum vel aukinn þrýsting á að gera breytingar fyrr og erum að vinna að því.    

Vonast til að Íslendingar heimsæki okkur næstu mánuði

Eitthvað að lokum?

Já að lokum vil ég árétta að þrátt fyrir að sú sviðsmynd sem ég teikna hér upp sé allt annað en björt þá getur hún tekið breytingum, og í raun skal hún taka breytingum. Við þurfum að tryggja hingað áframhaldandi góðar samgöngur og við þurfum svo ofan á það að stefna að því að fá sem flesta Íslendinga til að heimsækja okkur næstu mánuði. Ég veit að Ferðamálasamtök Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabær eru að fara af stað með mikið átak á allra næstu dögum sem ég er viss um að muni ganga vel. Hvert og eitt getum við svo sett okkur það markmið að hvetja vini og vandamenn til að koma yfir og dvelja í nokkra daga og njóta alls þess sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Við getum sett okkur það markmið að þrisvar til fjórum sinnum á næstu mánuðum ætlum við að bjóða hingað og taka á móti góðu fólki. Ég vil líka hvetja alla brottflutta Vestmannaeyjinga til að setja sér það markmið að koma „heim“ þrisvar til fjórum sinnum næstu mánuði og taka með sér vini og vandamenn. Hér hefur verið byggð upp frábær þjónusta á undanförnum árum og við verðum að gera okkar allra besta til að viðhalda henni áfram og í gegnum þessa erfiðu tíma, sem eru aðeins tímabundnir. Eyjarnar hafa allt sem til þarf og það birtir hjá okkur eins og alltaf, segir Arnar að lokum.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.