Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir skrifar:

Að líða illa yfir því að líða illa

23.Apríl'20 | 08:53
ragneidur_helga

Ragnheiður Sæmundsdóttir

Það kannast kannski einhverjir við það í erfiðleikum eða vanlíðan að þá íþyngi líka áleitin hugsun um að ,,manni eigi ekki að líða svona“. Að það knýi dyra tilfinning eins og svekkelsi, samviskubit eða jafnvel sjálfsásökun. 

Það hendir marga að líða illa og upplifa í ofanálag ósætti við að líða þannig. Stundum virðist það helmingur vandans, að neikvæð líðan sé eitthvað sem ber að víkja sér undan með öllum ráðum, jafnvel óttast fyrirfram eða að erfiðar tilfinningar eigi ekki rétt á sér. Helst aldrei. Ef ég er döpur þá er eitthvað að mér, það er óeðlilegt og kallar á inngrip. Eitthvað sem þarf að vinna bug á tafarlaust.

Það gleymist kannski að halda því til haga að það er eilífðarverkefni að vera manneskja, með öllu sem því fylgir. Hæðum og lægðum. Allir gera mistök, öll upplifum við vonbrigði, sorg og kvíða. Ef við miðum við að það sé normið, hið eðlilegasta við mannlega tilvist, þá er síst hjálplegt að gera ekki ráð fyrir því sem hluta af framvindunni í gangverki lífsins.

Minna er rætt um í seinni tíð að þola við, samþykkja óvissuna og erfiðu tilfinningarnar. Óttast þær ekki. Gera ekki kröfu eða væntingar um að mæta þeim aldrei  Gera frekar ráð fyrir öldugangi og að leyfa brimsjó að koma og fara í lífinu. Sú pæling virðist þó slöpp söluvara. Komdu frekar með quick fix fyrir mig. Þetta er óeðlilegt og ég má ekki vera að þessu.

Hvaða væntingar eru raunhæfar?

,,Vertu besta útgáfan af sjálfum þér!“ ...hvað sem það svo sem þýðir. Veit það einhver? Þetta virðast vinsæl og, í fljótu bragði, skotheld skilaboð og fyrir marga kannski, upp að einhverju marki, fela þau í sér hvatningu. En hvaða kröfu er sanngjarnt að gera í þessum efnum? Að búa yfir eldmóði og metnaði er eitt, en ef mér líður stundum illa, er ég þá ófullkomin útgafa af mér sjálfri? Er það ófullkomið yfir höfuð að lífið og líðan gangi í bylgjum?

Við þetta má bæta að erfiðar tilfinningar eru ekki með öllu gagnslausar. Fátt er svo með öllu illt, myndi ég segja, og það má til sanns vegar færa að margar af dýrmætustu lexíunum lærum við gegnum sársauka, mistök og erfiða reynslu. Það virðist þó ekki nægilega grípandi að halda því fram að stundum sé lífið hunderfitt en engin skjótfengin lausn sé endilega til. Innan um ótal gylliboð um hina og þessa ,,lykla að hamingju“ er erfitt að selja það að lítið sé stundum við erfiðleikum eða vanlíðan að gera annað en að halda áfram og leyfa lægð að koma og fara.

Yfirleitt er það svo þannig, ef allt er eðlilegt, að lægðin líður hjá. Með tíma, þolinmæði, seiglu, stuðningi frá okkar nánustu (og smá súkkulaði) þá fjarar undan vanlíðan og við náum okkur aftur á strik.

Að sjá lærdómspunkta, koma auga á tækifæri og nýta tímann vel er gott. Það hjálpar klárlega, sérstaklega þegar gefur á bátinn. En leyfðu þér í leiðinni að líða eins og þér líður.

Stundum er bara feykilega vel gert og yfirdrifið nóg að standa af sér storm, án frekari afreka. Sérstaklega í heimsfaraldri með fallvöltu efnahagskerfi, í nokkurs konar þjóðlægu áfalli, þar sem reynir á alla, þolmörk eru þanin, miklu er fórnað og mikið er í húfi -þá þarf ekki að gera kröfu um að hafa masterað glænýjan hæfileika, lært nýtt tungumál, slegið íslandsmet eða gert upp húsið sitt. Að halda einbeitingu við verkefni daglegs lífs er stundum ærið eitt og sér. Það, að standa keik, til dæmis í gegnum þessa daga og koma út úr fárviðri í heilu lagi, má heita verðugt og gott markmið líka. Meira að segja þrátt fyrir að hafa átt erfitt eða misst boltann af og til á leiðinni. 

 

Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir

 

Höfundur er sálfræðingur.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%