Hildur Sólveig Sigurðardóttir skrifar:

Sjávarútvegur - kjölfesta atvinnulífsins

21.Apríl'20 | 14:46
IMG_9201

Fyrir Vestmannaeyjar skapar sjávarútvegurinn mikilvæg störf og verðmæti.

Sjávarútvegurinn hefur í gegnum aldanna rás verið undirstöðuatvinnugrein landsins. Líkt og núverandi seðlabankastjóri Dr. Ásgeir Jónsson lýsti vel þá hefur sjávarútvegur verið ,,brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar í íslensku hagkerfi”.

Sjávarútvegurinn hefur með frumkvöðlastarfsemi sinni verið ein frumforsenda framþróunar og aukinnar hagsældar íslensks samfélags svo lengi sem elstu menn muna. 

Sjávarútvegur er hreyfiafl framfara

Vestmannaeyjar eru á sama máta byggðar upp af sjávarútvegi og er saga, menning og atvinnulíf sveitarfélagsins tengd veiðum og vinnslu órjúfanlegum böndum. Með aukinni samþjöppun í greininni, aukinni tækni, nýsköpun og auknum kröfum á gæði vörunnar hefur starfsemi sjávarútvegsins tekið breytingum og afleiddum störfum fjölgað á meðan að hefðbundnum störfum í veiðum og vinnslu hefur farið fækkandi. 

Grundvöllur öflugrar þjónustu við íbúa

Fyrir Vestmannaeyjar skapar sjávarútvegurinn mikilvæg störf og verðmæti, sjávarútvegurinn skilar háu hlutfalli tekna sveitarfélagsins sem nýttar eru til þjónustu fyrir íbúa alla, hvort sem það er rekstur leik- og grunnskóla, greiðslur frístundastyrkja, rekstur Hraunbúða eða allt þar á milli. Það sama á við um tekjur í ríkissjóð. Því meiri verðmæti sem sjávarútvegurinn skapar í samfélaginu því betur er hægt að þjónusta íbúa. 

Ólögleg úthlutun veiðiheimilda

Á Íslandi er löggjafarþing. Lög um sjávarútveg og þar með úthlutun aflaheimilda eru staðfest þar og ber að fara eftir þeim líkt og lögum almennt. Telji aðilar á sér brotið er unnt að snúa sér til dómstóla og leita réttar síns, þar eiga allir sama rétt. 

Makríll varð hluti af nýtanlegum auðlindum Íslands vegna frumkvöðlastarfs útgerða í Vestmannaeyjum. Umboðsmaður Alþingis dæmdi árið 2014 úthlutun ráðherra á makrílkvóta ólöglega frá árinu 2011 þar sem veiðireynsla og frumkvöðlaréttur var ekki hafður að því leiðarljósi sem bar lögum samkvæmt. Hæstiréttur dæmdi síðar íslenska ríkið skaðabótaskylt. Hún er einföld sú krafa að ríkisvaldið, löggjafinn sjálfur, lúti þeim lögum og reglum sem það sjálft hefur sett sér. 

Þeirra tap er okkar tap

Ólögleg úthlutun makrílkvóta olli ekki einungis skertum hagnaði útgerðarfyrirtækja, hún olli verulega skertum tekjum fiskvinnslufólks, sjómanna, flutningsaðila og þar með sveitarfélagsins okkar, skertum tekjum sem hlaupa á milljörðum króna. Skerðing útgerðarinnar er nefnilega líka okkar skerðing. 

Sjávarútvegurinn mikilvægur í niðursveiflum

Sjávarútvegurinn mun nú sem áður verða sú gjaldeyrisskapandi atvinnugrein sem veitir íslenska ríkinu mikilvægan efnahagslegan stuðning í erfiðri niðursveiflu og þrátt fyrir fyrirsjáanlega rekstrarerfiðleika í greininni við núverandi aðstæður t.a.m. með takmörkun markaða fyrir ferskan fisk í Evrópu og verðlækkunum þá mun greinin skila mikilvægum gjaldeyristekjum til þjóðfélagsins á tímum þegar þörfin hefur sjaldan verið meiri. Það væri því skynsamlegt af stjórnvöldum að vinna af fullum krafti að því að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar, einfalda rekstrarumhverfi á borð við afnám stimpilgjalda vegna fiskiskipa, tryggja sanngjarna og löglega úthlutun aflaheimilda, efla rannsóknir m.a. á loðnu og byggja undir nýsköpun í sjávarútvegi svo dæmi séu tekin í stað þess að hóta að leggja steina í götu greinarinnar.

Sterkur sjávarútvegur er allra hagur. 


 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.