Viðbrögð vegna veiruógnunar

Samstarfið í bæjarstjórn hefur gengið mjög vel

og bæjarfulltrúar hafa lagst á eitt um góða og nána samvinnu í baráttunni við COVID-19

19.Apríl'20 | 10:59
yfir_ve_snjor

Vestmannaeyjar. Ljósmynd/TMS

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu, skipulagi og viðbrögðum yfirvalda vegna útbreiðslu COVID-19 í Vestmannaeyjum á fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn var.

Eins og fram hefur komið á fundum bæjarráðs og í tilkynningum til bæjarbúa ber aðgerðastjórn almannavarna Vestmannaeyja meginábyrgð á viðbrögðum og stjórnun aðgerða. Aðgerðastjórnin vinnur í samráði við sóttvarnalækni, landlækni og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Viðbragðsstjórn á vegum Vestmannaeyjabæjar hefur verið virkjuð og fundað er daglega um stöðuna og aðgerðir er snúa að rekstri og starfsemi Vestmannaeyjabæjar. Viðbragðsstjórn vinnur eftir viðbragðsáætlun Vestmannaeyjabæjar.

Alls hefur viðbragðsstjórnin hist á um 27 fundum frá því hún var virkjuð. Á hverjum fundi er farið yfir; a) stöðuna almennt vegna Covid-19 í Vestmannaeyjum; b) stöðuna á stofnunum bæjarins, c) tæknimál þar sem margir vinna heima og d) önnur tilfallandi mál sem varða rekstur bæjarins á þessum sérstöku tímum. Bæjarstjóri fundar einnig vikulega með þeim sem stýra leikskólum, grunnskólanum og stjórnendum sem fara með málefna aldraðra.

Samstarfið í bæjarstjórn hefur gengið mjög vel og bæjarfulltrúar lagst á eitt um góða og nána samvinnu í baráttunni við COVID-19. Bæjarstjóri heldur reglulega stöðufundi með bæjarstjórn. Haldnir hafa verið 12 stöðufundir með bæjarstjórn síðan um miðjan mars.

Fyrsta staðfesta smitið í Vestmannaeyjum greindist 15. mars sl. og var í kjölfarið gripið til margvíslegra aðgerða til að sporna við útbreiðslu, vernda íbúa og stuðla eftir fremsta megni að því að heilbrigðiskerfið anni þeim sem í mestri þörf eru. Meðal helstu aðgerða sem gripið var til var að skerða opnunartíma stofnana bæjarins, loka öðrum, breyta fyrirkomulagi skólastarfs, t.d. með fjarkennslu og starfsemi bæjarins skipt upp til þess að tryggja órofna þjónustu.

Þegar smitum tók að fjölga voru kynntar enn hertari aðgerðir með samkomubönnum, lokunum stofnana og fyrirtækja og ýmsum fjöldatakmörkunum. Þess hefur verið gætt að kennsla til forgangshópa, þ.e. barna starfsfólks í framlínustörfum, skerðist ekki. Enn hertara samkomubann var sett á í Vestmannaeyjum en giltu á landsvísu þann 21. mars sl. og er það í gildi til og með 19. apríl nk. Þar miðast fjöldatakmarkanir við 10 manns. Þann 15. apríl sl., fór skólastarf í GRV fór aftur í þann faveg sem það var fyrir fjarkennslu, þ.e. 4 kennslustundir í skólanum á dag.

Nýlega lauk umfangsmikilli skimun Íslenskrar erfðagreiningar í samvinnu við starfsfólk HSU á íbúum í Vestmannaeyjum, þar sem um 1.500 sýni voru tekin og send til greiningar. Þær leiddu í ljós yfir 30 smit til viðbótar við þau sem þegar var búið að greina. Niðurstöður úr Vestmannaeyjum leiða í ljós að fáar sýkingar eru í yngsta aldurshópnum, þ.e. leik- og grunnskólanema, sem er í takt við niðurstöður á landsvísu.

Vel hefur tekist að hlífa elsta aldurshópnum (eldri en 70 ára). Hvergi á landinu hefur hlutfall skimunar eftir veirunni verið eins hátt í einu samfélagi og í Vestmannaeyjum. Tekin hafa verið sýni úr rúmlega 2.000 einstaklingum í Vestmannaeyjum, sem er tæplega helmingur bæjarbúa. Niðurstöðurnar gefa nokkuð góða heildarmynd af stöðunni eins og hún raunverulega var þegar skimuninn fór fram.

Áfram verður lögð áherslu á upplýsingagjöf til allra bæjarbúa, þ.m.t. erlenda einstaklinga búsetta í Vestmannaeyjum, m.a. með því að þýða tilkynningar aðgerðarstjórnar almannavarnarnefndar og viðbragðsstjórnar Vestmannaeyjabæjar á pólsku og ensku. Fjarfundabúnaður verður einnig áfram nýttur til allra funda starfsmanna sveitarfélagsins, þ.m.t. bæjarstjórnafunda og funda ráða og nefnda. Þá verður lögð áhersla á að framkvæmdastjórar og forstöðumenn stofnana haldi góðu sambandi við starfsfólk og hugi sérstaklega að þeim sem eru veikir eða í sóttkví. Aðgerðastjórn sendir nær daglega tilkynningar um stöðu mála.

Bæjarstjórn þakkar bæjarstjóra yfirferðina og vill koma á framfæri kærum þökkum til starfsmanna sveitarfélagsins, heilbrigðisstarfsfólks, framlínustarfsfólks í þjónustustörfum og öðrum sem hafa í sameiningu tryggt gangverk samfélagsins á þessum sérstöku tímum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja færir Íslenskri erfðagreiningu sérstakar þakkir vegna yfirgripsmikillar skimunar fyrir veirunni í samfélaginu.

Að lokum vill bæjarstjórn þakka íbúum og atvinnulífi fyrir þann mikla sveigjanleika, samábyrgð, skilning og samvinnuþýði sem hefur verið áþreifanlegt í samfélaginu á undanförnum vikum. Vonandi er það versta yfirstaðið og þrátt fyrir að óðum styttist í að slakað verði á reglum um samkomubann er nauðsynlegt að sinna áfram öflugum sóttvörnum og fylgja tilmælum sóttvarnayfirvalda til að koma i veg fyrir bakslag. Við erum öll almannavarnir.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...