Páley Borgþórsdóttir skrifar:

Við björgum mannslífum með því að virða reglur

4.Apríl'20 | 13:09
IMG_9906

Ljósmynd/TMS

Á morgun eru þrjár vikur frá því við fengum fyrsta smit COVID-19 staðfest í Vestmannaeyjum. 

Margt vatn hefur runnið til sjávar og síðan þá hafa 84 verið greindir með sjúkdóminn í okkar samfélagi og 4 náð bata. Á Íslandi öllu eru tilfellin orðin um 1400 talsins og tæplega 400 manns hafa náð bata.

Fólk sem hefur smitast hefur mismikil einkenni og sumir mun meiri en aðrir og eru talsvert veikir. Hugur minn er hjá þeim í dag sem og aðra daga og aðstandendum þeirra. Ég vona sannarlega að allir nái fullum bata hið allra fyrsta og komi tvíefldir út úr þessari lífsreynslu. Það er skrýtið að standa frammi fyrir ósýnilegum óvin í formi veiru sem ekkert vopn dugar á. Það hefur sýnt sig að heilbrigðiskerfið okkar er öflugt og heilbrigðisstarfsfólk til fyrirmyndar, það mæðir mikið á þeim núna og sendi ég þeim öllum baráttukveðjur. Dæmin hafa sýnt að börn sem greinst hafa með sjúkdóminn veikjast minna en fullorðnir, fá vægari einkenni og jafna sig fyrr. Engu að síður hefur fólk á miðjum aldri líka veikst illa og fleiri yngri hafa veikst alvarlega en reiknað var með í upphafi þegar talið var að líkur á alvarlegum veikindum væru mestar hjá fólki sem er komið yfir sextugt.

Það er eðlilegt að finna til ótta og kvíða vegna þessa ástands enda veit enginn nákvæmlega hvað gerist næst. Það geta allir smitast og oft er ómögulegt að vita hvaðan smitið kom. Enda er það aukaatriði. Aðalatriðið er að við förum áfram varlega, takmörkum samneyti og förum eftir þeim reglum sem okkur hafa verið settar. Það dugar ekki alltaf til en það á að fækka tilfellum og takmarka útbreiðslu sjúkdómsins. Við erum komin hátt á kúrvunni miðað við spálíkanið og þess er ekki langt að bíða að við náum toppi þar. Þá vonum við að við dveljum ekki lengi á toppnum heldur höldum sem leið liggur niður kúrvuna og fækkum greindum tilfellum.

Þetta er sameiginlegt átaksverkefni okkar allra. Höldum áfram að hlúa að hvort öðru eins og við höfum verið að gera. Gerum þetta saman, förum að öllum reglum því þannig björgum við mannslífum.

 

Páley Borgþórsdóttir, aðgerðastjóri og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Greinin birtist fyrst á facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.