Vinnslustöðin:

Pökkuðu 46 tonnum af saltfiski á einum degi

31.Mars'20 | 10:23
Saltfiskvinnsla_vsv

Ljósmynd/vsv.is

Starfsfólk Vinnslustöðvarinnar hefur á fyrstu þremur mánuðum ársins framleitt meira af saltfiski en á öllu árinu 2018. Ef svo fer sem horfir verður framleiðslan um miðjan aprílmánuð orðin meiri en á öllu árinu 2019.

Fyrir helgina var pakkað 46 tonnum af saltfiski á einum degi. Fróðir menn telja það vera metafköst á sama sólarhringnum í fyrirtækinu.

Þannig er unnið af krafti við að veiða og salta vertíðarþorsk hjá Vinnslustöðinni. Netabátarnir Kap II og Brynjólfur afla vel og sömu sögu er að segja af Drangavík. Þá hefur fyrirtækið sömuleiðis keypt fisk af viðskiptabátum sínum, segir í umfjöllun á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Jólamatur framleiddur á vetrarvertíð

Með því að eignast saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal varð Vinnslustöðin beinn þátttakandi í vinnslu og sölu á þessum mikilvæga markaði og ræður yfir öllum þáttum framleiðslunnar, allt frá veiðum og vinnslu hér heima til vinnslu, sölu- og markaðsstarfs þar ytra.

Vertíðarfiskurinn við suðurströnd Íslands er jólamatur í Portúgal og um hátíðar borða Portúgalar um 5.000 tonn af þurrkuðum saltfiski á aðfangadagskvöld jóla. Það svarar til 12.000 tonna af fiski upp úr sjó!

Nú um stundir miðast starfsemin við að safna birgðum til jóla en saltfiskur hefur líka selst vel undanfarnar vikur eftir að veirufaraldurinn Covid 19 náði til Portúgals. Saltfiskur geymist enda vel og er í hávegum hafður við margvísleg önnur hátíðleg tækifæri en á jólum, til að mynda á veisluborðum páskahátíðarinnar.

Veiran setur alls staðar strik í reikninginn

Vinnslustöðin fylgir ströngum starfs- og öryggisreglum til lands og sjávar vegna veirufaraldursins. Höfðað er til starfsfólks um að fylgja tilmælum um hreinlæti og að hafa fulla aðgát yfirleitt í samskiptum á vinnustað og utan vinnu. Veiran leikur samfélagið í Eyjum grátt, líkt og fjallað hefur verið um í fréttum fjölmiðla.

Áður en faraldurinn barst til landsins höfðu verið skipulagðar tilteknar sóttvarnaráðstafanir hjá Vinnslustöðinni og eftir þeim var farið frá upphafi í góðu samstarfi allra í fyrirtækinu.

Smit- og sjúkdómstilvik hafa því verið færri í fyrirtækinu en hefði mátt ætla en allir eru þess meðvitaðir að faraldurinn hefur enn ekki náð hámarki á Íslandi og óvissa ríkir um afleiðingarnar.

Sama á auðvitað við um Portúgal, markaðssvæði saltfisksins sem nú verið er að framleiða í Eyjum. Enginn sér fyrir efnahagslegar afleiðingar faraldursins þar frekar en annars staðar. Þá er ekki annað að gera en að veiða, vinna, salta og vona hið besta. Og hlýða Víði, segir í umfjölluninni.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).