Thelma Gunnarsdóttir skrifar:

Hugleiðingar í miðjum heimsfaraldri

31.Mars'20 | 11:22
Thelma-Gunnarsdóttir_stor_hsu

Thelma Gunnarsdóttir

Óvissa og hraðar breytingar eru eru líklegar til að valda okkur óöryggi og ótta. Stöðugur fréttaflutningur og öflugt viðbragð stjórnvalda víða um heim fer ekki fram hjá neinum og styður hugmyndir um að alvara sé á ferð. 

Eðlilega skynjum við aukna spennu og varkárni en það hjálpar að búa við traust almannavarnakerfi og hafa aðgang að réttum og ört uppfærðum upplýsingum. Þó við almennt sýnum yfirvegun og skynsemi í hugsun er hegðun okkar flestra að nokkru breytt. Mörg stöndum við okkur að því að heyra oftar í fólkinu okkar en vanalega og versla lítillega meira í matinn. Við finnum mikinn mun á félagslegri virkni þar sem ekki er ráðlagt að drekka kaffibolla með samstarfsfólki, hitta vini eða hópast í ræktina. Allt hlutir sem almennt reynast góð vörn við streitu. Heilbrigðisstarfsfólk finnur sérstaklega til ábyrgðar í þessu viðkvæma ástandi auk þess að standa undir auknu álagi og breyttu starfsfyrirkomulagi. Þess vegna er mikilvægt að við hugum vel að okkur, gætum að hvíld og virðum eigin mörk.

Eins og fram hefur komið er mikilvægt að halda áfram daglegu lífi eins og kostur er. Við þurfum að fylgja ráðleggingum og fyrirmælum stjórnvalda, aðlaga okkar rútínu en ekki breyta venjum að óþörfu. Við ættum að einbeita okkur að hlutum sem við höfum stjórn á eins og að sækja í nærandi samskipti, sinna daglegum störfum og hugsa vel um okkur frekar en að velta okkur upp úr því við ráðum ekki við. Gott er að ræða upplifun sína við aðra en gæta þess að aðrir jákvæðari hlutir komist einnig að. Við ættum að minna okkur á að faraldurinn og allt sem honum fylgir er tímabundið ástand sem við munum hjálpast að við að fara í gegnum.

Það sem við ættum að forðast er óþarfa öryggishegðun eins og að hamstra vörur, sniðganga aðstæður að óþörfu eða endurræsa fréttamiðla í sífelldu. Óþarfa varkárni getur ýkt upplifun okkar af mögulegri ógn og valdið aukinni vanlíðan. Ég mæli einnig með því að forðast upplýsingaveitur þar sem alið er á tortryggni, samsæriskenningum og hörmungarhyggju. Höldum okkur frekar við staðreyndir og því sem er að gerast núna frekar en það sem mögulega gæti gerst síðar. Undir álagi erum við líkleg til að hafa stuttan þráð og bregðast harklegra við miðað við aðstæður. Við erum einnig líklegri til að yfirsjást hluti, gleyma og gera mistök. Reynum að taka því ekki of alvarlega, sýnum tillit og hlýju og minnum hvort annað á að þetta eru einfaldlega aðstæður sem við ráðum ekki við. Göngum út frá því að við séum öll í sama liði og allir séu að reyna sitt besta. Almennt óttumst við frekar að verða til þess að smita aðra heldur en að veikjast sjálf. Enginn vill vera valdur að sóttkví eða einangrun annarra og sérstaklega ekki hjá viðkvæmum einstaklingum. Það hefur hins vegar þegar gerst og mun að líkum gerast áfram þrátt fyrir alla varkárni og þá er mikilvægt að sýna mögulegum smitbera umburðarlyndi, skilning og stuðning.

Með jákvæðni að vopni má sjá tækifæri í flestum aðstæðum. Faraldurinn er veruleg áskorun sem gefur okkur margt til að læra af. Hann hefur einnig neitt okkur til að staldra við, hægja á okkur og færa athygli nær því sem raunverulega skiptir máli. Mér skilst að nú þegar hafi dregið verulega úr mengun í heiminum, börn fá aukinn tíma með foreldrum og sumir vilja spá aukinni fæðingartíðni í lok árs. Við munum örugglega kunna betur að meta það frelsi sem felst í því að ferðast óhindrað milli landa, heimsækja ættingja eða spjalla á kaffistofum auk þess sem við verðum mun færari í tæknimálum. Ef við lendum í sóttkví er hægt að takast á við geymsluna, flokka myndir í símanum, klára jólabókina, endurnýja lagalistann eða vinna upp Netflix áhorfið án samviskubits. Ef við horfum aðeins lengra fram í tímann þá munum við eiga minningar frá þessum merkilegu tímum sem eru nú þegar komnir á spjald sögunnar.

 

Thelma Gunnarsdóttir

Forstöðusálfræðingur HSU

 

Greinin birtist fyrst á vef HSU - hsu.is.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).